Steingrímur bjartsýnn á stjórnarmyndun með Samfylkingu

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, segir óskynsamlegt af Björgvini G. Sigurðssyni og Árna Páli Árnasyni, þingmönnum Samfylkingarinnar, að loka sig af með yfirlýsingum um Evrópumál og stjórnarsamstarf við Vinstri græna. Hann heldur ró sinni yfir ummælum tvíeykisins. „Ég held að þessir höfðingjar séu að reyna stappi stálinu í sjálfa sig," segir formaðurinn.

Björgvin útilokaði á borgarafundi Ríkissjónvarpsins í gær samstarf við Vinstri græna nema að ágreiningur um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði til lykta leiddur. Þá sagði Árni Páll í kosningaumræðuþætti Stöðvar 2 að Samfylkingin leggi höfuðáherslu á Evrópusambandsaðild í stjórnarmyndunarviðræðum að loknum þingkosningunum á laugardaginn. 



„Ég hef ekki heyrt þetta sett fram með sama hætti af formanni Samfylkingarinnar eða öðrum forystumönnum eins og utanríkisráðherra, en þau fara nú kannski með prókúruna að hálfu Samfylkingarinnar," segir Steingrímur sem kveðst taka undir með Jóhönnu Sigurðardóttur að farið verði yfir þetta mál þegar til stjórnarmyndunarviðræðna komi. „En ég get ekki leynt því að mér finnst frekar óskynsamlegt hjá mönnum að fara að loka sig af með þessum hætti."

„Þeim mun minni úrslistakosti eða fyrirfram skilyrði sem menn setja, þeim mun auðveldara er að ganga til viðræðna," segir formaðurinn.

Steingrímur segist hafa rætt Evrópumálin líkt og önnur mál við Jóhönnu og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og fyrrum formann Samfylkingarinnar, en það sé algjörlega ósamið um það eins og allt annað.



Steingrímur segist ekki hafa séð neitt sem hann telji að útiloki að flokkarnir nái saman í Evrópumálum. „Ég bendi á að þessi staða hefur áður verið uppi og menn hafa myndað ríkisstjórnir á Íslandi, Noregi og víðar sem samanstaðið hafa af flokkum með ólíkar skoðanir í Evrópumálum."



Á Íslandi hefur aldrei verið mynduð tveggja flokka meirihlutastjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins. Mesta samanlagða fylgi vinstriflokka var í þingkosningunum 1978 þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag fengu 44,6% atkvæða. Steingrímur segir að fái Vinstri grænir og Samfylkingin meirihluta í kosningunum á laugardaginn sé um að ræða ákaflega sterk skilaboð frá þjóðinni.

„Ef þessir tveir flokkar standa með traustan meirihluta bak við sig að morgni sunnudagsins 26. apríl þá eru það ákaflega sterk skilaboð frá þjóðinni. Menn verða að taka mark á því og það leggur öllum mikla ábyrgð á herðar. Við ætlum ekki að hlaupast frá henni," segir Steingrímur.(visir.is)

Ég er sammála  Steingrími í öllum aðalatriðum. Það verður unnt að leysa ágreining um Evrópumálin og þessir tveir flokkar munu mynda stjórn ef þjóðin veitir þeim umboð til þess.

 

Björgvin Guðmundsson




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband