1 milljarður til byggingar hjúkrunarheimila o.fl.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að úthluta 952 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Verður fénu varið til uppbyggingar hjúkrunarrýma, fækkunar fjölbýla á hjúkrunarheimilum, til endurbóta vegna öryggis- og aðgengismála, viðhalds á húsnæði og endurnýjun búnaðar og til uppbyggingar á félagsaðstöðu fyrir aldraða.

Alls voru um 1,4 milljarðar króna til ráðstöfunar í sjóðnum og er ráðgert að tæpum 450 milljónum verði úthlutað síðar á þessu ári.

Ákvörðun ráðherra er í samræmi við tillögur samstarfsnefndar um málefni aldraðra sem fer með stjórn sjóðsins og gerir tillögur til ráðherra um úthlutun samkvæmt lögum um málefni aldraðra, að því er segir á vef ráðuneytisins.

Hæstu framlögin renna til byggingar hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut í Reykjavík, 341 milljón króna, hjúkrunarheimilis við Boðaþing í Kópavogi, 135 milljónir króna og hjúkrunarheimilisins Jaðars í Snæfellsbæ, 33 milljónir króna. Á öllum þessum stöðum er unnið að framkvæmdum. Auk þessa fara 115 milljónir króna í uppgjör vegna framkvæmda sem er lokið en voru óuppgerðar af hálfu heilbrigðisráðuneytisins, annars vegar 100 milljónir króna til hjúkrunardeildar á heilbrigðisstofnun Suðurlands og 15 milljónir króna til hjúkrunardeildar á Siglufirði.

Til verkefna sem miða að því að fækka fjölbýlum á hjúkrunarheimilum og bæta aðgengi og öryggismál verður varið 205 milljónum króna. Af þeirri upphæð eru um 80 milljónir króna sem greiddar eru vegna verka sem unnin hafa verið á undanförnum tveimur árum en reyndust dýrari en áætlað hafði verið, ekki síst vegna mikilla verðhækkana, samkvæmt vef ráðuneytisins.

Alls eru veittar 63 milljónir króna til bættar þjónustu- og félagsaðstöðu fyrir aldraða og 60 milljónir til ýmis konar viðhalds húsnæðis og endurnýjunar á búnaði. (mbl.is)

Framkvæmdasjóður er nú notaður til framkvæmda í þágu aldraðra eins og hann var stofnaður til.En á meðan Framsókn fór með þennan málaflokk var ráðstafað úr sjóðnum til alls konar gæluverkefna sem ekki var í samræmi við tilgang sjóðsins.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband