Mánudagur, 11. maí 2009
Aðilar vinnumarkaðar taka stjórnarsáttmála vel
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segist í meginatriðum sammála nýrri ríkisstjórn um áherslur í efnahagsmálum. Forseti Alþýðusambandsins fagnar sáttmálanum og segir stöðugleikasáttmála vera í undirbúningi.
Í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar segir að hún fagni frumkvæði aðila vinnumarkaðarins að samráði og samstöðu með ríki og sveitarfélögum um stöðugleikasáttmála. Það sé forgangsmál að ná breiðri samstöðu um markvissa áætlun í efnahags-, kjara- og félagsmálum á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður í sameiginlegri vinnu aðila vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin sé reiðubúin til viðræðna um þau meginmarkmið sem sett hafa verið fram í þeirri vinnu.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, fagnar því að ríkisstjórnin hafi tekið upp tillögu vinnumarkaðarins að stöðugleikasáttmála. Lagt sé af stað með þau verkefni sem mestu máli skipti, bæði bráðaaðgerðir til næstu 100 daga en einnig stefnumörkun lengra inn í framtíðina. Verkalýðshreyfingin hafi lengi lagt áherslu á að samfélagið verði byggt upp að norrænni fyrirmynd. Hann fagni því að það sé komin ríkisstjórn sem hafi það að meginverkefni.
Gylfi vonast hann til þess að fastar verði tekið á vanda heimilanna. Þá líst honum vel á það að Seðlabankinn leiti leiða til að draga úr vægi verðtryggingar þótt hann telji að besta leiðin til lengri tíma sé að komast í stærra myntsamstarf. Gylfi segir að aðilar vinnumarkaðarins undirbúi í þessari viku viðræður við stjórnvöld um stöðugleikasáttmála. Hann býst við að málið verði unnið hratt. Fundur með stjórnvöldum hafi ekki verið tímasettur.
Í sáttmálanum kemur meðal annars fram að mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar næstu 100 dagana í efnahagsmálum séu á sviði ríkisfjármála, bankamála og að greiða úr skuldavanda fyrirtækja og heimila. Skapa þurfi forsendur fyrir áframhaldandi og hraðri lækkun vaxta og vinna markvisst að því að draga úr höftum í gjaldeyrisviðskiptum.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, óskar eftir góðu samstarfi við nýja ríkisstjórn um lausn á bráðavanda atvinnulífsins. Þá sé mikilvægt að vinna að stöðugleikasáttmálanum. Vilji stjórnarinnar til þessi komi einnig fram í sáttmálaunum. Vilhjálmur er í meginatriðum sammála ríkisstjórninni um áherslur í efnahagsmálum.
Einkum því að skapa atvinnu, lækka vexti, afnema gjaldeyrishöft, koma fjárfestingum af stað og skapa þær aðstæður að fyrirtæki þori að ráða fólk í vinnu. Þetta sé brýnt að gera. Að því leytinu til sé stjórnarsáttmálinn ágætur.
Vilhjálmur segist þó vera ósammála þeim leiðum sem fara eigi í sjávarútvegi. Einnig því að stofna eigi eignaumsýslufélög um illa stödd fyrirtæki. (ruv.is)
Það er gott að aðilar vinnumarkaðarins taka stjórnarsáttmálanum vel. Ríkisstjórnin heitir víðtæku samráði við aðila vinnumarkaðarins og mikil ábyrgð er lögð á þeirra herðar. Er ljóst,að aðilar vinnumaraðarins geta haft mikil áhrif á efnahagsamál og Evrópumál meðan núverandi ríkisstjórn er við völd.
Björgvin Guðmundsson
frettir@ruv.is
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.