Þriðjudagur, 12. maí 2009
Er Jón Bjarnason að gugna á innköllun?Brot á stjórnarsáttmála
Á vef RUV er skýrt frá viðtali við Jón Bjarnason,nýjan sjávarútvegsráðherra.Þar segir m.a.:
Hann vill ekki slá neinu föstu um innköllun aflaheimilda.Ef þetta er rétt eftir haft ætlar Jón að ganga gegn stjórnarsáttmálanum.Þar segir skýrum stöfum að leggja eigi grunn að innköllun aflaheimilda í áfönguml Jóhanna forsætisráðherra hefur talað mjög skýrt um þetta ákvæði sáttmálans og sagt,að aflaheimildir verði innkallaðar en haft verði náið samráð við hagsmunaaðila. .
Hér fer á eftir frásögn RUV af málinu:
Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra boðar víðtækt samráð um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar með það að markmiði að ná góðri sátt um sjálfbærar veiðar og trygga atvinnu fólks í sjávarbyggðunum. Hann vill ekki slá neinu föstu um innköllun aflaheimilda.
Stjórnarflokkarnir héldu hinni svonefndu fyrningarleið á lofti í aðdraganda kosninganna í vor. Hún byggist í grófum dráttum á því að veiðiheimildir verði innkallaðar í áföngum og endurútdeilt eftir nýjum reglum. Jón Bjarnason var á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun spurður hvað liði áformum um fyrningarleið. Hann ítrekaði að mikið samráð verði haft um fyrningarleiðina. Farið verði hægt í því máli. Jón lagði áherslu á að enginn ætti fiskveiðiauðlindina nema þjóðin. Núgildandi fiskveiðistjórnkerfi sé gallað og hafi leitt mikinn vanda yfir byggðir landsins í kjölfar kvótasölu. Taka verði á vandamálunum í samstarfi við alla hlutaðeigandi.
Jón Bjarnason er tekinn við af Steingrími J. Sigfússyni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Fyrsti starfsdagur hans í embætti var í gær. Hann segist ætla að efna heit Steingríms um strandveiðar. Mikilvægt sé að opna möguleika fólks til að komast inn í fiskveiðarnar meðfram ströndinni. Veiðarnar yrðu stundaðar frá byggðunum, yrðu tengdar þeim og myndu færa aukið líf í sjávarbyggðirnar í kringum landið.
Jón segir að nú hljóti menn að leggja aukna áherslu á landbúnaðarframleiðslu til að tryggja fæðuöryggi, spara gjaldeyri og eiga möguleika á útflutningi. Ferðaþjónusta sé hluti af landbúnaðinum. Þar séu sóknarfæri og þar gegni sjálfseignarbóndinn lykilhlutverki.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.