Þriðjudagur, 12. maí 2009
Ríkisstjórnin kynnir sóknaráætlun fyrir Ísland
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fjallaði á fyrsta fundi nýrrar ríkisstjórnar í dag um sóknaráætlun fyrir Ísland en ríkisstjórnin hyggst efna til viðtæks samráðs undir forystu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar.
Fundurinn var haldinn á Akureyri. Þar lagði Jóhanna fram hugmyndir um hvernig háttað verður málsmeðferð stórra mála á Alþingi, sem varða lýðræðisumbætur, t.d. frumvarps um persónukjör, frumvarps um þjóðaratkvæðagreiðslu og frumvarps um ráðgefandi stjórnlagaþing.
Hún kynnti jafnframt áform um vinnslu gagna sem skilgreina eiga stöðu lykilstærða í samfélags- og efnahagsmálum en þessi úttekt er hluti af 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, kynnti þrjú frumvörp, sem lögð verða fyrir vorþing og Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, lagði fram fimm mál. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, lagði fram á ný frumvarp um eignaumsýslufélag en umfjöllun um það lauk ekki á síðasta þingi. Ennfremur fjallaði Steingrímur um Þjóðarbúskapinn, vorskýrslu ráðuneytisins um stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.