Föstudagur, 15. maí 2009
Töpum engu sjálfstæði við aðild að ESB
Andstæðingar ESB aðildar reka nú harðan áróður gegn aðild að sambandinu.Nota þeir helst þá röksemd að Ísland muni tapa miklu af fullveldi sínu við aðild en einnig segja þeir að við missum yfirráð yfir sjávarútveginum og úthlutun aflaheimilda.Það eru falsrök,að Island tapi sjálfstæði sínu við aðild að ESB. Við þurftum að afsala okkur hluta af fullveldi okkar við aðild að EES en það breytist ekkert við aðild að ESB. Fremur má segja,að við aðild að ESB náum við nokkru af því sem við töpuðum til baka,þar eð við komust þá að stjórnarborðinu og verðum með í að móta tilskipanir og reglugerðir ESB. Í dag verðum við að taka við tilskipunum og reglugerðum ESB og lögfesta þær sjálfvirkt án þess zð hafa verið með í móta þær.Það er viss skerðing á sjálfstæðinu.Varðandi sjávarútveginn er það að segja,að vegna sögulegrar veiðireynslu mun Ísland fá allar veiðiheimildir til veiða við Island.Þannig hefur þetta verið undanfarna áratugi.Ef það verður óbreytt kvíði ég engu.Í viðræðum, við ESB munum við að sjálfsögðu reyna að tryggja sem mest sjávarútvegshagsmuni okkar.Ef við náum, góðum og viðunandi samningi um sjávarútvegsmál mun ég greiði atkvæði með aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.Ef ekki greiði ég atkvæði gegn samningnum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Því er gjarnan haldið fram af þeim sem vilja ganga í Evrópusambandið að aðild sé nauðsynleg til þess að við getum haft áhrif innan sambandsins. Látið er eins og vægi Íslands innan þess yrði mikið og jafnvel ýjað að því að við myndum ráða öllu þar á bæ sem við vildum. Minna er hins vegar farið út í það nákvæmlega hversu mikið vægi Íslands innan Evrópusambandsins kynni að verða. Í ítarlegri og fróðlegri skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra, sem nefndin sendi frá sér í marz 2007, er þessu gerð skil á bls. 83-85.
Formlegt vægi aðildarríkja Evrópusambandsins innan þess miðast fyrst og fremst við íbúafjölda þeirra sem verður að teljast afar óhagstæður mælikvarði fyrir okkur Íslendinga. Gera má því ráð fyrir að vægi okkar innan sambandsins yrði hliðstætt og Möltu en þar bjuggu um 400 þúsund manns í lokárs 2006. Ísland yrði ásamt Möltu fámennasta aðildarríkið og þar með með minnst vægi.
Ísland fengi einn fulltrúa í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Í Nice-sáttamálanum er gert ráð fyrir að þegar aðildarríkin eru orðin 27 (sem þau urðu um áramótin 2006-2007) verði fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni færri en aðildarríkin sem kemur væntanlega til framkvæmda við skipun næstu framkvæmdastjórnar árið 2009 að óbreyttu. Í fyrirhugaðri stjórnaraskrá sambandsins er hins vegar gert ráð fyrir að hvert aðildarríki eigi aðeins fulltrúa í framkvæmdastjórninni annað hvert kjörtímabil en kjörtímabilið er 5 ár.
Þess ber þó að geta að fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni eru í raun einungis fulltrúar aðildarríkjanna að því leyti að ríkisstjórnir þeirra tilnefna þá. Þess utan er þeim óheimilt að draga taum heimalanda sinna og ber einungis að líta til heildarhagsmuna Evrópusambandsins.
Í leiðtogaráðinu sitja leiðtogar aðildarríkjanna og forsætisráðherra Íslands myndi sitja þar sem fulltrúi landsins. Í ráðherraráðinu myndi Ísland væntanlega fá þrjú atkvæði af 345. Á Evrópusambandsþinginu fengjum við 5 þingmenn af 785, 6 af 750 ef fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins verður samþykkt. M.ö.o. vel innan við 1% vægi í báðum tilfellum.
Í efnahags- og félagsmálanefnd sambandsins, sem og héraðanefnd þess, myndi Ísland væntanlega líkt og Malta fá fimm fulltrúa en alls eru 344 fulltrúar í þessum nefndum í dag.
Ísland myndi tilnefna einn dómara í dómstól Evrópusambandsins en hann væri, líkt og fulltrúann í framkvæmdastjórninn, ekki fulltrúi íslenzkra hagsmuna.
Aðildarríkin skiptast á að vera í forsæti ráðherraráðsins í sex mánuði í senn. Miðað við 28 aðildarríki færi Ísland með forsætið á 14 ára fresti. Ef stjórnarskráin verður samþykkt verður þetta kerfi afnumið og í staðinn kemur sérstakur kjörinn forseti ráðsins.
Að öðru leyti myndi í raun ekkert breytast við aðild hvað varðar vægi okkar innan Evrópusambandsins. Aðalvægi Íslands innan sambandsins myndi áfram byggjast á "lobbyisma", rétt eins og raunin er í dag. Á móti myndum við gefa eftir yfirráð okkar yfir flestum okkar málum en lítið sem ekkert hafa um þau að segja eftir það.
Hjörtur J. Guðmundsson, 15.5.2009 kl. 10:03
Ef þetta væri nú bara spurningin um sjávarútvegsmálin, þar sem ég þó stórefast að einhver viðunandi lausn fáist í samningum við ESB.
Þetta er svo miklu stærri spurning en bara það.
Með því að ganga í ESB væri þjóðin að missa stóran part af sjálfstæði sínu og frumkvæði.
Þetta frumkvæði of forræðisrétt í mjög mörgum stórum málum værum við að afhenda til ríkjasambands sem leynt og ljóst stefnir að því að verða sérstöku miðstýrðu Stórríki- Evrópu. Sjá Lissabon sáttmálann sem nú er reynt með góðu eða illu að neyða ofan í þegna ESB landana.
Ísland og Íslenskir hagsmunir yrðu aldrei hátt skrifaðir í þessu stóra og miðstýrða apparati.
Við yrðum einskonar útkjálki Evrópu. Alveg eins og Nýfundnaland er útkjálki Kanada eftir sameininguna við það ríkjasamband.
Það verður aldrei kosið aftur um ESB eða ekki ESB á Íslandi ef við í eitt skipti göngum þessu bandalagi á hönd.
Þetta eru að nánast öllu leyti óafturkræfar aðgerðir, ef við erum raunsæ.
ESB er hryllilegt skrifræðisbákn sem er ormétið af spillingu valdsins, enda stjórnað af herskörum búrókrata sem þrífast á þvi að hafa vit fyrir okkur sauðsvörtum almúganum. Þeir lifa í þeirri grillu að þeir séu í raun að bjarga okkur frá sjálfum okkur. Slík forræðishyggja hefur aldrei leitt til góðs.
Evrópuþingið þeirra sem er skilgetið afkvæmi skriiffinnanna til þess að sýna fram á að það sé eitthvert lýðræði innan bandalagsins.
Ég hef aðeins fylgst með starfsháttum og störfum þessa svokallaða Evrópuþings og því miður þá er það ekkert annað en afskræming á lýðræðinu. Svona sýnishorn af sýndarmennsku á lýðræði.
Þingið ræður í raun engu og er hálfgert brúðuleikhús þar sem æðsta embættisklíkan ræður nánast öllu svo sem hvaða mál fá að fara á dagskrá hvar og hvenær og svo framvegis.
Þetta er prúðuleikhús fáránleikans !
Ég var eitt sinn frekar hlynntur ESB og samstarfi Evrópuríkjanna og ég er ennþá mjög hlynntur samstarfi og samvinnu Evrópu ríkjanna en alls ekki á vetvangi ESB apparatsins.
Ég hef undanfarin ár búið í ESB ríkjunum Bretlandi og nú á Spáni og því meir sem ég kynnist þessu andlýðræðislega systemi og starfsháttum þess innan frá því meiri viðbjóð fæ ég á þessu vonlausa apparati og því meira elska ég Ísland landið mitt og okkar Íslenska kerfi og okkar lýðræislega form, þrátt fyrir allt.
Við getum vel verið stolt af Íslandi og því sem það hefur byggt upp og megum alls ekki í einhverju fljótræði henda því frá okkur.
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 11:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.