Miðvikudagur, 20. maí 2009
Innbyrðis deilur í Samfylkingu um tónlistarhúsið
Þingmenn Samfylkingarinnar deildu á Alþingi í dag um hvort að hætta eigi við byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhússins í núverandi mynd. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði að það væri algjört glapræði að slá framkvæmdunum á frest. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði aftur á móti að huga verði að fólki frekar en fasteignum.
Í gær vakti Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrum ráðherra, máls á nauðsyn þess að leggja núverandi áætlanir um húsið til hliðar og skoða uppbygginguna upp á nýtt. Taka verði mið af forsendum í efnahagslífi þjóðarinnar. Í umræðum á þingi í dag sagði hún brýnt að þingheimur og borgaryfirvöld skoði hvort ekki sé rétt að fresta framkvæmdunum.
Sigmundur Ernir tók undir með Þórunni og kvaðst afar jákvæður fyrir því að málefni hússins verði endurskoðuð. Ég held að við þurfum í komandi aðgerðum að hugsa fyrst og fremst um fólk frekar en fasteignir," sagði þingmaðurinn.
Steinunn Valdís sagðist vera ósammála flokkssystkinum sínum. Afstaða hennar byggi fyrst og fremst á því að um væri að ræða afar stóra framkvæmd sem nú þegar væri búið að setja mikla fjármuni í. Hún sagði framkvæmdirnar atvinnuskapandi og að það væri mikilvægt fyrir atvinnustigið í landinu halda þeim áfram.
Ég tel það algjört glapræði við þessar aðstæður að slá þessari framkvæmd á frest út frá atvinnustiginu og ekki síst vegna þess að gríðarlegur kostnaður er þegar tilfallinn vegna verkefnisins. Ég fullyrði að það verði mun dýrara fyrir þjóðarbúið að slá framkvæmdinni á frest heldur en að halda henni áfram," sagði Steinunn Valdís.
Guðbjartur Hannesson, þingmaður flokksins og formaður fjárlaganefndar, sagði rétt að þingmenn ræði hvort að fresta eigi framkvæmdunum. Hann gaf þó ekki upp sína afstöðu í málinu.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heyrst hefur að kinverjar hafi áhuga á kofanum til nota fyrir fríhafnarpakkhús í sókn þeirra á Evrópumarkað. Sem kunnugt er, er Ísland ekki í ESB
BjornE (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 00:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.