ESB:Fyrirvarar verða gerðir um grundvallarhagsmuni Íslands

Í stefnuræðu forsætisráðherra um Evrópusambandið á alþingi fyrir nokkkrum dögum sagði ráðherrann m.a. eftirfarandi:

Í þeirri þingsályktunartillögu sem utanríkisráðherra mun leggja fram verða gerðir fyrirvarar um grundvallarhagsmuni Íslands um forræði yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra, um forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, um öflugan landbúnað, almannaþjónustu og réttindi launafólks og vinnurétt.

 Evrópusambandsaðild merkir ekki afsal auðlinda, hvorki í sjávarútvegi, orkumálum né landbúnaði. Evrópusambandið hefur sameiginlegar reglur um nýtingu sameiginlegra auðlinda, svo sem sameiginlegra fiskstofna, en eignarhald á auðlindunum er hjá viðkomandi aðildarríkjum. Þess vegna mun Evrópusambandsaðild ekki hafa áhrif á eignarhald á fiski í sjó, á endurnýtanlegum orkuauðlindum eða olíu á landgrunninu.

Það þarf samkomulag og sátt á meðal aðildarríkjanna um nýtingu fiskstofna sem færast á milli lögsögu aðildarríkjanna, rétt eins og Ísland hefur hingað til gert samkomulag við nágrannaríki um nýtingu deilistofna. Sú sátt byggir á sögulegri veiðireynslu þar sem tryggt er að hvert og eitt aðildarríki njóti óbreyttrar hlutdeildar í fiskstofnum.

Reglur Evrópusambandsins um hlutfallslegan stöðugleika munu tryggja að Ísland muni sem áður sitja eitt að öllum kvóta í staðbundnum stofnum í íslenskri lögsögu eftir aðild að Evrópusambandinu.

Umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu og sjávarútveg má því ekki aðeins snúast um vörn og varnarhagsmuni. Íslenskir sjómenn búa yfir gríðarlegri þekkingu og hér eru sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa burði til þess að keppa á frjálsum markaði hvar sem er í heiminum. Við getum sótt fram og byggt upp innan Evrópusambandsins.

 Hvorki ég né aðrir á Alþingi geta sagt til um hver verður niðurstaða samningaviðræðna við Evrópusambandið um sjávarútveg en ég fullyrði að samningsstaða Íslands er sterk. Hún er m.a. sterk vegna þeirrar framsýni og þess hugrekkis sem íslenska þjóðin sýndi þegar landhelgin var færð út í áföngum í 200 mílur. 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband