Ríkisstjórnin hefur lokið fimmtungi verkefna fyrstu 100 daganna

Ríkisstjórnin hefur lokið um fimmtungi af því sem hún ætlaði sér að gera fyrstu hundrað dagana í starfi sínu. Tuttugu dagar eru liðnir frá því áætlunin var birt.

Þegar tilkynnt var um myndun nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna var jafnframt tilkynnt um áformaðar aðgerðir fyrir næstu hundrað daga. Í henni voru 48 atriði. Nú þegar 20 dagar eru liðnir frá því að sú áætlun var gerð hafa rúmlega 10 atriði verið framkvæmd.

Búið er að leggja fram frumvarp um eignaumsýslufélag á Alþingi og frumvarp um handfæraveiðar smábáta yfir sumartímann. Þá hefur einnig verið lögð fram Náttúruverndaráætlun til ársins 2013. Endurskoðun á reglum um fjármál stjórnmálaflokka er hafin sem og endurskoðun á upplýsingalögum til að auka aðgengi að upplýsingum stjórnarráðsins. Þá er búið að leggja fram þingsályktunartillögu vegna umsóknar Íslands í Evrópusambandið. Nefnd hefur verið skipuð til að móta atvinnustefnu og hefur hún tekið til starfa. Sú nefnd á að móta sóknaráætlanir fyrir alla landshluta sem einnig er í aðgerðaráætluninni. Þá er nefnd sem á að gera yfirlit um lykilstærðir í samfélags- og efnahagsmálum þjóðarinnar tekin til starfa og byrjað er að ræða við lífeyrissjóði um að koma að eflingu atvinnulífsins.

Nokkrum verkefnum til viðbótar er nánast lokið. Frumvarp til breytinga á lögum um Sparisjóði er tilbúið en hefur ekki verið lagt fram á Alþingi. Sama má segja um frumvarp um breytingar á stjórnarráðinu Íslands og breytingar á lögum um LÍN. Þá er byrjað að fjölga sumarstörfum meðal annars með auknu framlagi til nýsköpunarsjóðs.

Nokkur verkefni eru hins vegar á áætluninni sem teljast verður í besta falli óvíst að verði framkvæmd áður en hundrað dagarnir verða liðnir þann 17. ágúst. Meðal annars er talað um að dregið verði úr gjaldeyrishöftum sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur ekki verið jákvæður fyrir. Þá er einnig stefnt að samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála en ekki hefur verið mikill stöðugleiki í viðræðum milli aðila vinnumarkaðarins síðustu daga.(ruv.is)

Það er ágætur árangur,að ríkisstjórnin hafi þegar lokið fimmtungi verkefna,sem vinna átti fyrstu 100 dagana.En ég vil vekja athygli á því að það vantar nýtt úrræði fyrir þá sem ekki eru kommnir í þrot með húsnæðislán sín en eiga mjög erfitt með að greiða vegna tekjutaps.Ríkisstjórnin þarf að veita þessum hóp einhverja niðurfellingu skulda eftir mati hvers og eins. Það á ekki að bíða eftir að menn komist í þrot.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband