Föstudagur, 5. júní 2009
Steingrímur J. fær umboð til að undirrita Icesave samninga
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fékk fullt umboð ríkisstjórnarinnar til að halda viðræðum áfram um lausn Icesave deilunnar á þeim nótum sem kynntar voru í ríkisstjórn og þingflokkum í morgun, á sérstökum aukafundi í ríkistjórn klukkan tólf.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að þau drög að samkomulagi sem hafi verið kynnt séu mun hagstæðari hvað varðar lánstíma og vaxtakjör en áður hafi verið í boði. Tryggingasjóður innlána gengur frá málinu með ríkisábyrgð, en vegna ábyrgðanna þarf málið að fara fyrir þingið.
Jóhanna, segir að á næstu sjö árum gangi eignir Landsbankans upp í skuldbindingar vegna Icesave, sem séu um 640 milljarðar króna. Björtustu vonir standi til að eignirnar nægi fyrir um 95% af þeirri upphæð. Síðan þurfi Innstæðutryggingasjóður að gefa út skuldabréf fyrir eftirstöðvunum ef eignirnar duga ekki.
Jóhanna segir að málið sé ekki í höfn fyrr en samninganefndir Íslands, Bretlands og Hollands hafi allar samþykkt þetta. Vonir standi þó til að þetta verði undirritað fljótlega með fyrirvara um samþykki alþingis. Þetta sé mikilvægur þáttur í endurreisnarferlinu, ásamt Norðurlandasamningunum en þá sé þjóðin komin langt með að ná sátt við Alþjóðasamfélagið.
Jóhanna segir að það sé aftur komið jákvætt hljóð í aðila vinnumarkaðarins varðandi gerð stöðugleikasáttmála og fljótlega sjái fyrir endann á niðurstöðu í ríkisfjármálunum og endurreisn bankanna. Ef það náist að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir lok sumarþings sé búið að stíga afar stórt skref í því að ná utan um endurreisnarferlið.(visir.is)
Ég tel samningsdrögin,sem kynnt hafa verið, hvergi nærri nógu hagstæð.Ef Ísland á að borga eitthvað, sem því ber engin skylda til, verða að nást hagstæðari samningar.Svavar Gestsson formaður íslensku samninganefndarinnar hefur ekki staðið sig nógu vel í samningagerðinni enda hefur hann enga reynslu í samningum um fjárhagsmálefni,´
sem hér um ræðir.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.