Föstudagur, 26. júní 2009
Öryrkjar og eldri borgarar mótmæla á alþingi
Formaður öryrkjabandalagsins hvetur öryrkja og ellilífeyrisþega til að fjölmenna á palla alþingis í dag þegar frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum verður tekið fyrir. Hann furðar sig á að ekki sé staðinn vörður um þá sem minnstar tekjurnar hafa.
Í frumvarpinu er kveðið á um niðurskurð í almannatryggingakerfinu. Rúmlega 1100 ellilífeyrisþegar verða fyrir tekjuskerðingu þegar frítekjumark launatekna verður lækkað í tæp 500 þúsund krónur og tekjur tæplega 30 þúsund öryrkja og ellilífeyrisþega lækka til muna með breyttu fyrirkomulagi tekjutengingar á lífeyri.
Halldór Sævar Guðbergsson er formaður öryrkjabandalagsins. Hann segir öryrkja og ellilífeyrisþega ætla að fjölmenna á Alþingis pallana í dag til þess að mótmæla þeim skerðingum sem fyrirhugaðar eru á almannatryggingakerfinu.
Halldór segist afar ósáttur við það hve mikið eigi að taka af öryrkjum og ellilífeyrisþegum á sama tíma og ríkisstjórnin hafi boðað að hún ætli að vernda lágtekju og millitekjufólk og heimilin í landinu, spurningin sé hvort heimili öryrkja og ellilífeyrirþega séu öðruvísi en önnur heimili í landinu.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.