Þriðjudagur, 30. júní 2009
Næsta greiðsla IMF ekki greidd fyrr en í ágúst
Franek Rozwadowski, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) á Íslandi, segir að greiðsla (tranche) númer tvö af láninu frá sjóðnum verði líklega afgreidd í ágúst næstkomandi. Upphaflega átti greiðslan að berast í febrúar síðastliðnum, en hefur verið frestað tvívegis.
Fyrsti hlutinn af 2,1 milljarðs dollara láni IMF, sem var 827 milljónir dala, barst Seðlabankanum í lok nóvember á síðasta ári. Eru þeir fjármunir geymdir á reikningi Seðlabanka Íslands hjá bandaríska seðlabankanum í New York. Hafa þeir ekki verið hreyfðir, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum, en um eiginlegan gjaldeyrisvaraforða er að ræða.
Afgangurinn af láninu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verður greiddur í átta jöfnum áföngum, um 155 milljónir dollara í hvert sinn, á þriggja mánaða fresti. Verður greiðslan í ágúst fyrsta greiðslan af þessum átta. Greiðslurnar átta munu haldast í hendur við ársfjórðungslega endurskoðun á efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Tímasetning endurskoðunar byggist mjög mikið á því hvaða aðgerðir stjórnvalda liggja fyrir áður. Svo þetta eru ekki fyrirfram ákveðnar dagsetningar, þrátt fyrir ársfjórðungslega endurskoðun og væntingar um að ljúka þessu fyrr, segir Rozwadowski. Hann segir að endurskoðun áætlunar hafi seinkað vegna tæknilegra vandamála sem tengjast aðallega endurreisn bankakerfisins. Vinna við uppskiptingu bankanna hafi tekið mun lengri tíma en lagt hafi verið upp með. Kosningar og breytingar í stjórnkerfinu hafi einnig sett strik í reikninginn. Okkar reynsla er sú að það hægist verulega á útfærslu efnahagsáætlunar í kringum kosningar. Það er mjög eðlilegt.(mbl.is)
Ef til vill skiptir ekki miklu máli hvenær greiðslur IMF berast.Fyrsta greiðslan,sem barst í nóvember liggur óhreyfð í banka i Bandaríkjunum.Næsta greiðsla fer sennilega inn í sama banka.Þegar næsta greiðsla berst er það staðfesting á því að Ísland standi við áætlun þá,sem Ísland og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerðu um endureisn efnahagslífsins.
Björgvin Guðmundsson
Til baka

Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.