Noregur lánar ekki Íslandi nema IMF samþykki það

Noregur mun ekki lána Íslandi nema samþykki stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á endurskoðaðri efnahagsáætlun Íslands liggi fyrir. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn fréttastofu. Það ræðst í dag hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frestar enn fyrirtöku á málefnum Íslands.

Fréttastofa sendi fyrirspurn um þetta til Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands. Svar Noregs er áþekkt svarinu frá fjármálaráðuneyti Svíþjóðar sem fréttastofa greindi frá í kvöldfréttum í gær.

Í svarinu segir að Noregur sé tilbúið að aðstoða Ísland í erfiðum aðstæðum, með því að veita landinu lánafyrirgreiðslu í samstarfi við Danmörk, Finnland og Svíþjóð. Þá segir að ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar, þingsins og Seðlabanka Noregs um að lána Íslandi sé byggð á skuldbindingu Íslands um að standa undir erlendum skuldbindingum sínum. Meðal annars skuldbindingum vegna Icesave.

Þá sé samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins einnig skilyrði fyrir láninu frá Noregi. Lánið verði veitt í tengslum við samþykki stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á endurskoðaðri efnahagsáætlun Íslands.

Í svari Noregs við fyrirspurn fréttastofu segir ennfremur að mikilvægt sé að Ísland uppfylli þau skilyrði sem hér hafa verið upptalin til að landið geti hafið að draga á lánalínur Norðurlandanna. Ef skilyrðin verði ekki uppfyllt muni lánafyrirgreiðslan frá Noregi frestast og ef þurfi að gera breytingar á lánaskilmálum sem krefjast samþykki norska þingsins verði ekki hægt að taka þær fyrir fyrr en seint í haust.

Af svörum Noregs og Svíþjóðar má dæma að lán Norðurlandanna til Íslands berist ekki fyrr en stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur lagt blessun sína yfir endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Þetta gengur þvert á orð Franeks Rozwadowski, sendifulltrúa sjóðsins á Íslandi. Hann hefur látið hafa eftir sér að fyrirtaka sjóðsins á málum Íslands muni ekki eiga sér stað fyrr en gengið hefur verið frá láni Norðurlandanna. Undirritun lánsloforðs dugi ekki til.

Það ræðst líklega í dag hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frestar enn endurskoðuninni, sem er formlega á dagskrá sjóðsins næstkomandi mánudag. (ruv.is)

Það er nú komið í ljós,að  Norðurlöndin reynast ekki Íslandi betur í þrengingum en önnur ríki,sem Ísland hefur ekki verið í vinasambandi við.Það er lítið gagn í norrænu samstarfi þegar á reynir. Jafnvel Norðmenn bíða eftir leyfi frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Eina þjóðin,sem hefur lánað Íslendingum án  þess að spyrja IMF er Færeyjar. Færeyingar hafa reynst Íslendingum vinir í raun.

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband