Þriðjudagur, 1. september 2009
Sala ríkisskuldabréfa til að fjármagna bankana
Seðlabankinn tilkynnti í gær um útgáfu á nýjum flokki ríkisskuldabréfa. Flokkurinn hefur þann tilgang að fjármagna eiginfjárframlag ríkissjóðs til hinna nýju viðskiptabanka sem reistir voru á grunni bankanna þriggja sem féllu í fyrrahaust.
Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að áætlað er að eigið fé Íslandsbanka verði 65 milljarða kr. og eigið fé Nýja Kaupþings verði 72 milljarða kr., en ekki liggur enn fyrir hversu hátt eiginfjárframlag til Nýja Landsbankans muni verða. Verður því upphafleg stærð flokksins í samræmi við eiginfjárþörf fyrrnefndu bankanna tveggja, þ.e. 137 milljarða kr.
Hins vegar eru töluverðar líkur á því að Glitnir og (gamla) Kaupþing kaupi meginhluta hlutafjár ríkisins í þessum bönkum á næstu mánuðum, og þeir komist þar með óbeint í meirihlutaeigu kröfuhafa gömlu bankanna tveggja. Verði af því mun samsvarandi hluta skuldabréfanna nýju verða skilað til baka til ríkisins.
Flokkurinn nýi ber fljótandi vexti sem taka mið af innlánsvöxtum hjá Seðlabanka Íslands. Lokagjalddagi hans er 9.október 2018. Verður hann skráður í kauphöllinni en um viðskiptavakt verður ekki að ræða. Við teljum mestar líkur á því að þessi bréf rati ekki á markað næsta kastið.
Fyrir það fyrsta eru talsverðar líkur eru á að þeim hluta skuldabréfanna sem snúa að fjármögnun Íslandsbanka og Nýja Kaupþings verði skilað að langmestu leyti, og flokkurinn verði því miklum mun smærri en þeir 300 milljarða kr. sem heimilt er að gefa út í honum. Þá hafa viðskiptabankarnir yfir að ráða gnægð lausafjár.
Líklega liggur því beint við fyrir þá að halda sjálfir þeim bréfum sem í skaut þeirra falla og hafa af þeim sömu vexti og bankarnir fá af innlánum hjá Seðlabankanum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.