Miðvikudagur, 2. september 2009
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra kannar styrkveitingar opinberra fyrirtækja til stjórnmálaflokka
Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra rannsakar styrkveitingar fyrirtækja í opinberri eigu til stjórnmálaflokka fyrir kosningarnar 2007.
Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari staðfestir þetta, en vill ekki ræða rannsóknina frekar.
Samkvæmt lögum um fjármál stjórnmálasamtaka er flokkum óheimilt að taka við styrkjum frá opinberum aðilum. Rannsóknin snýst því um hugsanlegt lögbrot flokkanna, en ekki fyrirtækjanna.
Ríkisendurskoðun birti í mars útdrætti úr ársreikningum flokkanna fyrir árið 2007.
Þar kom fram að fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins, Neyðarlínan, Íslandspóstur og Orkubú Vestfjarða, hefðu styrkt fjóra stjórnmálaflokka.
Neyðarlínan veitti Sjálfstæðisflokknum hámarksstyrkveitingu, þrjú hundruð þúsund krónur, en styrkti ekki aðra flokka. Sjálfstæðisflokkurinn skilaði síðar styrknum og framkvæmdastjóri flokksins, Andri Óttarsson, harmaði mistökin.
Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, var áður aðstoðarmaður Þorsteins Pálssonar, sem þá var ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og síðar ritstjóri Fréttablaðsins.
Þá upplýsti Ríkisendurskoðun einnig að Íslandspóstur hefði styrkt Framsókn, Samfylkingu, Sjálfstæðisflokk og VG um 150.000 krónur hvern flokk. Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, var áður bæjarstjóri í Garðabæ og formaður Samtaka atvinnulífsins.
Flokkarnir lýstu því allir yfir í kjölfarið að þeir ætluðu að endurgreiða Íslandspósti.
Orkubú Vestfjarða styrkti Sjálfstæðisflokkinn um 40.000 krónur fyrir kosningarnar en ekki aðra flokka. Kristján Haraldsson er orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða.
Sá sem brýtur lög um fjármál stjórnmálasamtaka, hvort sem er af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, skal sæta fésektum. Alvarleg brot geta þó varðað allt að sex ára fangelsi. Framkvæmdastjórar flokkanna eru líklegastir til að þurfa að svara fyrir móttöku styrkjanna.(visir,is)
Það er ágætt ,að þessi mál séu tekin föstum tökum og það rannsakað hvort stjórnmálaflokkar hafi brotið lög á þessu sviði.Stjórnmálaflokkarnir verða að gæta sín eins og aðrir í þjóðfélaginu og ef til vill enn fremur.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.