Fimmtudagur, 3. september 2009
Ómakleg gagnrýni á forseta Íslands
Forseti Íslands hefur orðið fyrir harðri og ómaklegri gagnrýni eftir að hann skrifaði undir lög um ríkisábyrgð á Ice save samningnum.Sumir hafa jafnvel ráðist á forsetann með skömmum og svívirðingum.Þetta er hin mesta óhæfa. Forsetinn hefur það vald í sínum höndum að ákveða hvort hann skrifar undir lög eða synjar þeim staðfestingar og vísar þeim í þjóðaratkvæði. Meginreglan hefur verið sú að forseti hefur staðfest lög frá alþingi.Aðeins í einu tilviki synjaði hann staðfestingar en þá var augljóst,að sitjandi ríkisstjórn og einkum forsætisráðherra hennar var að setja lög til höfuðs ákveðnum fyrirtækjum.Mikill meirihluti þjóðarinnar var á móti fjölmiðlalögunum.Andstaðan var mikið meiri en nú gegn Ice save. Nú var mikil samstaða á alþingi um afgreiðslu fyrivara við ríkisábyrgð vegna Ice save. Sjálfstæðisflokkurinn og Borgarahreyfing studdu fyrirvarana ásamt ríkisstjórninni.Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir eftir afgreiðslu alþingis,að hann teldi,að forseti ætti að staðfesta lögin.Undir þessum kringumstæðum var eðlilegt að forsetinn staðfesti lögin.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Facebook
Athugasemdir
Það er nú afar hæpið, Björgvin, að halda því fram að það hafi verið mikil samstaða um það á Alþingi að samþykkja Icesave samninginn, jafnvel með þeim fyrirvörum sem gerðir voru við hann. Alþingi var þarna í nauðvörn, því það var búið að stilla þjóðinni upp við vegg í málinu af alþjóðasamfélaginu og okkur var nauðugur einn kostur til að geta lifað í sátt og samlyndi við okkar nágranna.
Það hefði verið ákaflega hollt fyrir auðvisana, stjórnmálamennina, bankastjórna og forstöðumenn eftirlitsstofnananna, sem komu okkur í þá ömurlegu aðstöðu sem þjóðin er í, að finna það að þjóðin stendur ekki með þeim og mun aldrei gera. Því hefði verið áhugavert að fá þessa samninga kolfellda í þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að þeir sem í raun skulda innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi, geri sér grein fyrir skuld sinni.
Það er ömurlegt til þess að vita að þeir menn sem kom þjóðinni í það skuldafen, sem hún er í, skuli fá að halda ótrauðir áfram sínum leik með kaupréttarsamningum, gengistryggingum hlutabréfa og árangurstengdum ofurlaunkröfum á gjaldþrota fyrirtæki. Og stjórnmálamennirnir spila áfram eins og ekkert hafi í skorist og gefa leppum þeirra HS-Orku í svona sýndarsölu í svipuðum stíl og bankarnir voru seldir.
Ef þessu heldur fram sem horfir er nokkuð ljóst að það þarf að sópa út úr stjórnkerfinu eins og það leggur sig. Og þar er húsbóndinn á Bessastöðum ekki undanskilinn. Hann hefur ekki tekið minni þátt í vitleysunni en aðrir áhrifamenn þessa lands.
Ómar Bjarki Smárason, 3.9.2009 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.