LEB krefst þess að ráðherra dragi kjaraskerðingu aldraðra til baka

Framkvæmdastjórn Landssambands eldri borgara fordæmir harðlega þá ákvörðun stjórnvalda að skerða grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og telur að hér sé jafnvel um mannréttindabrot að ræða. Grunnlífeyrir er uppsafnaður sparnaður eldri borgara, sem þeir hafa allt frá 16 ára aldri greitt til almannatrygginga og koma skal til endurgreiðslu á efri árum. Með því að skerða grunnlífeyri er þessi sparnaður ellilífeyrisþega gerður upptækur.  Ákvörðun stjórnvalda um að skerða grunnlífeyri eldri borgara gerir að engu forsendur fyrir greiðslum eldri borgara til Tryggingastofnunar, sem lagðar voru inn í þeirri góðu trú að þær gætu síðar stuðlað að „áhyggjulausu ævikvöldi“.  

 Um leið er farið inn á nýjar og forkastanlegar brautir varðandi til dæmis samspil almannatrygginga-  og lífeyrissjóðsgreiðslna.  Landssamband eldri borgara varar einnig við þeirri stefnubreytingu stjórnvalda að einskorða bætur almannatrygginga einvörðungu við þá sem verst eru settir í samfélaginu. Slíkt kerfi hefur í för með sér svelt velferðarkerfi sem á ekkert sameiginlegt með norrænni velferðarstjórn.  Landssamband eldri borgara mótmælir ennfremur harkalegri aðför að kjörum eldri borgara á undanförnum mánuðum, svo sem skertri verðlagsuppbót hjá hluta lífeyrisþega.  Það að litið hefur verið á verðbætur vegna hárrar verðbólgu, sem tekjur, sem haft hefur í för með sér skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.  LEB hefur bent á að sá skammtímasparnaður í ríkisútgjöldum sem felst í því að vega að kjörum eldri borgara veldur auknum þrýstingi á heilbrigðiskerfið og kemur til með að hafa í för með sér stóraukin útgjöld ef þessar aðgerðir verða ekki þegar í stað dregnar til baka. Líta má til reynslu annarra þjóða svo sem Finna í þessum efnum.  Þau 53 félög sem mynda Landssamband eldri borgara stuðla með starfi sínu að virkum þjóðfélagsþegnum og koma í veg fyrir ótímabæra öldrun. Aðför að kjörum þeirra getur kippt stoðunum undan heilbrigði og vellíðan og það er þjóðhagslega óhagkvæmt auk þeirra persónulegu harmleikja sem slík aðför hefur óhjákvæmilega í för með sér.  

Landssamband eldri borgara krefst því þess að félags- og tryggingamálaráðherra og ríkisstjórnin dragi þessar breytingar  umsvifalaust til baka. Jafnframt krefst LEB þess að lífeyrir öryrkja og alraðra verði hækkaður frá og með 1. júlí 2009 í samræmi við hækkanir hjá launþegum ASÍ og BSRB. 

Þessi ályktun Landssambands eldri borgara var gerð fyrir stuttu. En ekkert hefur heyrst frá stjórnvöldum. Þau lemja hausnum við steininn.LEB bendir á,að skerðing á kjörum eldri borgara veldur auknum þrýstingi á heilbrigðiskerfið og  sparar því ekkert þegar upp er staðið. Það getur jafnvel orðið dýrara fyrir þjóðfélagið að fara þessa  skammtímasparnaðarleið.

 

Björgvin Guðmundsson

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband