Hagvöxtur 1,3% sl. ár

Landsframleiðslan á árinu 2008 var 1476 milljarðar króna og jókst að raungildi um 1,3% frá fyrra ári. Þessi vöxtur kemur í kjölfar 5,6% vaxtar á árinu 2007. Að sögn Hagstofunnar varð landsframleiðslan 1476 milljarðar króna árið 2008 en það er um 175 milljörðum eða 13,5% hærri fjárhæð en árið áður.

Hagvöxtur á síðasta ári varð um prósentu meiri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir en í áætlun Hagstofunnar í mars var talið að hagvöxturinn hefði orðið 0,3%. Stofnunin segir að vöxt landsframleiðslunnar á liðnu ári megi öðru fremur rekja til útflutnings, sem jókst um 7% og skýrist sú aukning að stórum hluta af mikilli aukningu á útflutningi afurða stóriðju. Á sama tíma dróst innflutningur saman um 18%. Þjóðarútgjöld drógust saman um 8,6%.

Verulega dró úr halla á vöru- og þjónustuviðskiptum á árinu 2008 miðað við árið áður. Hallinn nam tæpum 41 milljarði króna samanborið við tæpa 140 milljarða árið áður. Á sama tíma dróst einkaneysla saman um 7,8% og fjárfesting minnkaði um 20,4%.

Hagstofan segir, að þróuninni 2008 svipi að nokkru leyti til ársins 2001 þegar hagvöxtur var einnig drifinn af miklum vexti útflutnings, en þó sé sá munur
á þessum tveimur árum, að árið 2001 var mun minni samdráttur þjóðarútgjalda
og innflutnings. Á árunum 2003–2006 var hagvöxtur aftur á móti drifinn af einkaneyslu og fjárfestingu.

Einkaneysla sem hlutfall af landsframleiðslu var 53,5% á liðnu ári. Hagstofan segir, að í sögulegu samhengi sé þetta hlutfall lágt og undanfarin tuttugu ár hafi það einungis einu sinni verið svipað, eða 54,9% árið 2002. Samneyslan sem hlutfall af landsframleiðslu var 24,9% eða svipuð og undanfarin fjögur ár sem er hátt í sögulegu samhengi.

Hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu var 24,2% á liðnu ári og Hagstofan segir, að  þrátt fyrir samdrátt annað árið í röð, sé þetta hlutfall enn nokkuð hátt í sögulegu samhengi. Sambærilegt hlutfall fyrir OECD-ríkin í heild hefur verið um eða undir 20% undanfarinn aldarfjórðung.

Hagstofan segir, að enn gæti nokkurrar óvissu um tölulegar niðurstöður  fyrir árið 2008 vegna afleiðinga bankahrunsins á 4. ársfjórðungi og efnahagskreppunnar hérlendis og í umheiminum.(mbl.is)

Það er athyglisvert,að þrátt fyrir efnahagshrunið skuli hagvöxtur hafa verið 1,3% á sl. ári.Þessi vöxtur er meiri en spáð hafði verið en spáin sagði 0.3%.

 

Björgvin Guðmundsson

 

Fara til baka 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband