Laugardagur, 3. október 2009
Innkalla á allar veiðiheimildir
Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Mbl. í dag um innköllun veiðiheimilda.Þar segir svo m.a.:
:
Það fögnuðu margir, þegar þeir litu það ákvæði stjórnarsáttmálans,að innkalla ætti allar veiðiheimildir á 20 árum. Þetta hefur verið baráttumál Samfylkingarinnar frá stofnun flokksins. Flokkurinn hélt þessu baráttumáli mjög fram fyrir kosningarnar 2003 en taldi undirtektir ekki nógu góðar. Fyrir kosningarnar 2007 var þessu baráttumáli flokksins lítt haldið á lofti. Menn töldu, að það hefði verið lagt til hliðar til þess að greiða fyrir stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Ég var mjög óhress með það.En á flokksþingi Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 2009 var samþykkt að fara ætti fyrningarleiðina og fyrna kvótana á 20 árum. Þetta var niðurstaðan eftir mikla málefnavinnu á flokksþinginu.Um þetta varð breið samstaða þar. VG samþykkti einnig hið sama fyrir kosningarnar.Það var því ljóst, að þetta stefnumál næði fram að ganga, ef þessir tveir flokkar næðu þingmeirihluta og mynduðu ríkisstjórn.Og það gerðist.Jón Bjarnason VG,varð sjávarútvegs-og landbúnðarráðherra.
Ljóst varð fljótt, að hann hafði ekki mikinn áhuga á því að efna þetta kosningaloforð.Hann skipaði starfshóp til þess að fjalla um málið og leita samráðs við hagsmunaaðila.Síðan starfshópurinn var myndaður hefur ráðherra slegið úr og í, þegar hann er spurður um málið og síðan vísar hann á starfshópinn. En ráðherra sleppur ekki svo vel. Gamaldags vinnubrögð duga ekki lengur.Ákvæðið í stjórnarsáttmálanum er alveg skýrt. Ég hefi ekki séð erindisbréf starfshópsins. En ef ráðherra hefur unnið heiðarlega að málinu hlýtur hann að hafa sett í erindisbréfið að starfshópurinn ætti að vinna að framkvæmd stefnumáls ríkisstjórnarinnar um innköllun veiðiheimilda.Starfshópurinn ætti að vinna að útfærslu innköllunar veiðiheimilda á 20 árum og ræða við hagsmunaaðila um það. Starfshópurinn á ekki að fjalla um það hvernig unnt sé að komast hjá því að framkvæma þetta stefnumál stjórnarinnar.
LÍÚ berst gegn málinu
Mikil andstaða er við innköllun veiðiheimilda.LÍÚ berst hatrammlega gegn því svo og samtök fiskvinnslustöðva og önnur hagsmunasamtök í sjávarútvegi. Það er engin von til þess,að sátt náist um þetta stóra mál við hagsmunasamtök í sjávarútvegi.Þau munu berjast gegn innköllun kvótans þó á 20 árum sé. En samt er að sjálfsögðu eðlilegt að ræða við þessa aðila. Ef þau geta komið með einhverjar skynsamlegar tillögur um útfærslu innhöllunar kvótans er rétt að hlusta á það og jafnvel taka tillit til þess að einhverju leyti.Það gæti varðað fyrirkomulag á endurúthlutun eftir að ríkið er byrjað að innkalla kvótann.Aðalatriðið er,að ekki verði kvikað frá innköllun á 20 árum. Við endurúthlutun kvótans verða allir landsmenn að sitja við sama borð.Þeir,sem ekki hafa verið í útgerð, verða að fá tækifæri til þess að hefja fiskveiðar.Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gagnrýndi það einmitt,að kvótakerfið væri ósanngjarnt og mismunaði þegnum landsins.Úr því verður að ráða bót, þannig að mannréttindanefndin geti ekki haldið því fram áfram, að Ísland sé að brjóta mannréttindi með framkvæmd kvótakerfisins.
Kvótakerfið lagði sjávarbyggðirnar í rúst
Andstæðingar breytinga á kvótakerfinu halda því fram, að innköllun kvótans á 20 árum muni fara illa með sjávarbyggðirnar úti á landi.Menn nota einnig þá röksemd að ekki megi breyta kvótakerfinu í miðri kreppu. Það sé einmitt sjávarútvegurinn,sem geti hjálpað okkur út úr kreppunni.Breyting á kvótakerfinu nú sé mjög varasöm.Þetta eru falsrök. Það er einmitt kvótakerfið,sem hefur farið illa með sjávarbyggðirnar um land allt. Stóru útgerðarfyrirtækin hafa keypt upp fiskiskip og fyrirtæki og kvótana þar með vítt og breytt um landið og skilið eftir sviðna jörð. Víða er enginn kvóti eftir. Strandveiðarnar,sem núverandi ríkisstjórn kom á, var fyrsti vonarneisti marga útgerðarstaða út um land.Nú horfa þessir útgerðarstaðir fram til þess, að þeir fái veiðiheimildir á ný við uppstokkun kvótakerfisins. Breyting á kvótakerfinu á því að geta rétt sjávarbyggðirnar við en ekki öfugt.Úthlutun veiðiheimilda til útvalins hóps útgerðarmanna voru stór mistök.Með þeirri aðferð var greininni lokað fyrir nýjum aðilum. Það voru enn meiri mistök að leyfa frjálst framsal veiðiheimilda. Þar með hófst kvótabraskið sem margir telja upphaf græðgistímans og þar með upphafið að hruninu.Menn hafa getað gengið út úr greininni með marga milljarða í vasanum.Það var ekki verið að úthluta útvöldum útgerðarmönnum fríum veiðiheimildum til þess að þeir bröskuðu með heimildirnar og gengju úr úr greininni með of fjár.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.