Föstudagur, 9. október 2009
Átti Obama Nobelsverðlaunin skilið?
Það var blaðafulltrúi Hvíta hússins sem greindi Barack Obama frá því í morgun að hann hefði hlotið friðarverðlaun Nóbels í ár. Viðbrögð við ákvörðun norsku nóbelsnefndarinnar einkennast af undrun.
Obama sagðist finna til auðmýktar þegar honum var greint frá því í morgun, að hann væri handhafi friðarverðlauna Nóbels í ár. Venjan er sú að nóbelsnefndin tilkynnir þeim sem valinn hefur verið ákvörðun sína með klukkustundar fyrirvara. Það var ekki gert að þessu sinni. Thorbjörn Jagland, formaður nefndarinnar, sagði fréttamönnum að enginn ætti að vekja Bandaríkjaforseta upp um miðja nótt. Þá hefði nefndin einnig gert því skóna að ákvörðun hennar yrði lekið ef starfsfólk Hvíta hússins yrði látið vita fyrirfram.
Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, óskaði Obama til hamingju, þegar hann heyrði af upphefðinni. Nú þætti honum enn meira til forsetans koma en áður.
Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir að ákvörðun norsku nóbelsnefndarinnar hafi komið sér þægilega á óvart. Honum finnst vel til fundið að veita Barack Obama friðarverðlaunin. Það beri vott um framsýni og sé mikilvægt fyrir þá baráttu forsetans að leysa deilur við samningaborðið frekar en að beita hervaldi.
Enn fremur segist Jens Stoltenberg vonast til að friðarverðlaun Nóbels eigi eftir að koma Bandaríkjaforseta til góða í baráttu hans fyrir því að kjarnorkuvopnum verði fækkað í heiminum og að böndum verði komið á útblástur gróðurhúsalofttegunda til að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar í heiminum.
Fréttaskýrendur erlendra miðla eru ekki síður undrandi en stjórnmálamenn yfir vali norsku nóbelsnefndarinnar. Sérfræðingur breska ríkisútvarpsins BBC í utanríkismálum segist fremur líta á ákvörðunina sem hvatningu til góðra verka fyrir það sem hefur áunnist. Fréttaskýrandi Sky sjónvarpsstöðvarinnar sagði stutt og laggott Obama fékk verðlaunin fyrir að vera ekki George Bush.
Það er á mörkunum að Obama hafi verðskuldað Nóbelsverðlaunin. Hann hefur góðan vilja til þess að efla frið í heiminum en hefur enn ekki áorkað miklu í því efni. Stefna hans er þó mikið friðsamlegri en stefna Bush var. En nú er Obama að senda fleiri hermenn til Afganistans. Varla eflir það frið í heiminum.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.