Laugardagur, 10. október 2009
Norðmenn vilja ekki lána Íslendingum meira
Ekki kemur til greina að Íslendingar fái 100 milljarða norskra króna að láni frá Norðmönnum, jafnvirði 2.200 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í svari Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs.
Fyrirspurnina sendi Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Norski netmiðillinn ABC Nyheter, sagði frá þessu í gærkvöld. Ýmsir oddvitar Miðflokksins, eins af þremur stjórnarflokkum Noregs, hafa ýjað að því að til greina komi að veita Íslendingum þetta lán. Per Olaf Lundteigen, fulltrúi á Stórþinginu, gerði því skóna í samtölum við forystumenn Framsóknarflokksins hér heima.
ABC Nyheten segir að sendinefnd Framsóknarflokksins hafi talið sig fá hljómgrunn fyrir lánsbeiðninni í Stórþinginu í gær, en í raun farið fýluferð til Noregs. Stoltenberg hafi ítrekað að Íslendingum standi til boða lán upp á 4,2 milljarða norskra króna, jafnvirði um 92 milljarða króna, en ekki meir. Og þetta lán er sýnd veiði en ekki gefin. Íslendingar fá það því aðeins að þeir fari að fyrirmælum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, meðal annar um lausn Icesave-málsins.(ruv.is)
Það er mikið talað um hvað Norðmenn séu vinveittir Íslendingum.En þegar á reynir vilja þeir ekkert gera fyrir okkur,sem AGS eða ESB leggur ekki blessun sína yfir.Norræna samvinnan er orðin þannig,að það liggur við að Norðurlöndin þurfi að fá leyfi hjá AGS og ESB fyrir því,sem þau gera fyrir Ísland í lánamálum.Svíar eru í forsæti ESB og hafa lagt á það áherslu,að lánin til Íslands yrðu í samráði við AGS.Og AGS gætir fyrst hagsmuna Breta og Hollendinga áður en röðin kemur að Íslandi.Mér finnst að vísu óeðlilegt að Ísland sendi Noregi tölvupóst til þess að spyrja hvort það vilji lána Íslendingum meira.Slík mál á að afgreiða í beinum viðræðum milli aðila en ekki með e-mail. En sennilega hefur Jóhanna vitað svar Norðmanna fyrirfram.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.