Jóhanna baðst afsökunar.Allir brugðust,þar á meðal bankarnir og eftirlitskerfið

Við upphaf þingsins flutti forsætisráðherra skýrslu um hrunið.Hún sagði m.a.:

Í störfum mínum sem alþingismaður beindi ég þrásinnis spurningum til stjórnvalda um það hvort stærð bankakerfisins væri ekki að vaxa ríkinu yfir höfuð, ég spurði um hvort ekki væru hættur samfara áberandi krosseignatengslum í bönkum og viðskiptalífi, ég spurði um innistæðutryggingar, um eignarhaldsfélögin og hlutverk þeirra og um lánafyrirgreiðslu til eigenda banka og fjármálastofnana.

Engin skýr og skilmerkileg svör bárust og viðkvæðið var oftast það að eftirlitsstofnunum eða fjármálastofnunum bæri ekki skylda til þess að upplýsa um málin m.a. vegna þess að bankarnir hefðu verið einkavæddir.

Undirstrikað var þó oftast að ekki væri hætta á ferðum. Þetta styður undir þá skoðun að ógagnsæ og óvönduð einkavæðing bankanna á sínum tíma og skortur á regluverki hafi verið undirrót ófaranna. Miklu veldur sá er upphafinu veldur.

Þeir atburðir sem áttu sér stað hér á landi eiga sér ekki hliðstæður í okkar samfélagssögu. Í löngum aðdraganda að banka- og gjaldeyrishruni brást margt sem við áður töldum tryggt eða sjálfsagt.

Bankarnir brugðust, stjórnkerfið brást, stjórnmálin brugðust, eftirlitskerfið brást, fjölmiðlarnir brugðust, hugmyndakerfi hins frjálsa markaðar brást og það hafa efalítið verið teknar margar rangar ákvarðanir sem leiddu okkur í þessa erfiðu stöðu.

Hver sem niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis verður um ábyrgð einstakra aðila blasir við að ríkisvaldið, raunar allt frá einkavæðingu bankanna 2004, brást í því verkefni að koma í veg fyrir hörmungarnar sem yfir okkur dundu eða að minnsta kosti  draga verulega úr högginu.

Þess vegna tel ég mér sem forsætisráðherra, rétt og skylt  fyrir hönd ríkisins og stjórnsýslunnar að biðja íslensku þjóðina afsökunar á vanrækslu og andvaraleysi stjórnvalda að þessu leyti.

Þjóðin er í sárum, hún hefur liðið þjáningar og skaða sem enn sér ekki fyrir endann á. Þess vegna á hún heimtingu á afsökunarbeiðni.

Það er síðan rannsóknaraðila og dómstóla að leggja grunn að,  og sjá svo til, að þeir sem ábyrgð bera, axli hana.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur stigið mörg og afar mikilvæg skref til þess að tryggja að hér fari fram fullnægjandi og afdráttarlaust uppgjör þannig að sannleikurinn um aðdraganda hrunsins verði leiddur í ljós og refsað verði fyrir misgjörðir eftir rannsóknir og dómsmeðferð.

Einskis verður heldur látið ófreistað til þess að endurheimta fé sem ranglega hefur verið skotið undan og falið fyrir skattyfirvöldum.  

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa lengi verið í helmingaskiptum um stjórn landsins og þeir báru ábyrgð á því hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna sem margir telja að sé frumrótin að óförum okkar í fjármálalífinu. Þar voru að mínu mati gerð stórkostleg mistök sem við nú súpum seiðið af.

 

Tengsl Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við valdahópa í viðskiptalífinu hafa jafnan verið mikil og þau hafa teygt sig inn í stjórnkerfi og stofnanir. Hinir einkavæddu bankar voru aflvaki framfara til að byrja með og tóku forystu í uppbyggingu nýs atvinnulífs og útrás til annarra landa.

En síðar urðu þeir eins og umskiptingar sem sögðu sig úr siðferðilegu sambandi við íslenskt samfélag og virtust ætla að leggja undir sig heiminn án þess að hafa til þess vegarnesti né baktryggingu aðra en fámenna þjóð við ysta haf.

Menn geta spurt sig að því í dag hvort þeir stjórnmálaflokkar, sem mesta ábyrgð bera á hruninu hér á landi, og löngum aðdraganda þess, hefðu haft kjark og þor til þess að stíga þau skref í uppgjöri við fortíðinu og uppstokkun stjórnkerfisins sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur þegar tekið og  boðað að verði stigin? Ég fyrir mitt leyti leyfi mér að efast stórlega um það.

Ég vona svo sannarlega að okkur takist að reka algjörlega burt hagsmunapotið sem einkenndi kunningjasamfélagið hér á landi sem var gegnsýrt af krosseignatengslum. Samfélag sem hafði fjarlægst hinn almenna mann og hagsmuni venjulegra fjölskyldna í landinu. Samfélag sem byggði á tengslum og völdum fárra.

Björgvin Guðmundsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband