Lifeyrir skertur í lífeyrissjóðum hjá 2000 öryrkjum

Tæplega tvö þúsund örorkulífeyrisþegar fengu í gær bréf frá lífeyrisjóðum víðs vegar um land þar sem tilkynnt er um lækkun eða stöðvun örorkulífeyrisgreiðslna frá og með næstu mánaðamótum.

Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að á mánudag verði þess farið á leit við lífeyrissjóðina að þeir fresti ákvörðun sinni á meðan mál þessu tengt er til meðferðar hjá dómstólum.

Fyrir um tveimur árum var samþykktum lífeyrissjóðanna breytt og þeim gert kleift að framreikna örorkulífeyrisgreiðslur til fólks með hliðsjón af tekjum áður en fólk fór á örorkubætur; jafnvel áratugi aftur í tímann. Horft er til meðaltekna fólks áður en til örorku kemur og miðað við vísitölu dagsins í dag. Í gær fengu 2100 manns bréf frá alls tíu lífeyrissjóðum. Þar kemur fram að greiðslur verði stöðvaðar til um 700 manns, lækkaðar um allt að 30% hjá um 1200 manns og hækkaðar hjá 200 sjóðsfélögum.  Breytingarnar taka gildi um næstu mánaðamót.

Tekjur Þóris Karls Jónassonar skerðast um fjórðung. Hann segir að miðað verði við launin sem hann hafði árið 1988 þegar hann var 19 ára, fjórum árum áður en hann varð öryrki árið 1992.

Í lok nóvember tekur Hæstiréttur fyrir mál þessu tengt. Lífeyrissjóðurinn Gildi hefur kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í fyrrasumar. Þar dæmdi Héraðsdómur sjóðsfélaga í vil; konu sem ekki sætti sig við skertar greiðslur sjóðsins.

Þeir sjóðir sem endurskoða nú örorkulífeyrisgreiðslur eru:
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Gildi, Lífeyrissjóður bænda, Stafir, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Stapi, Lífeyrissjóður Rangæinga, Festa, Lífeyrissjóður Vestfirðinga og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja.(ruv.is)

Þessi skerðing kemur á versta tíma  í miðri kreppunni. Vonandi sjá lífeyrissjóðirnir sér fært að fresta framkvæmd skerðingarinnar.Lífeyrissjóðirnir þurfa fremur að hjálpa fólki að komast yfir kreppuna en öfugt.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband