Þriðjudagur, 27. október 2009
Seðlabankinnm vill fá sömu heimildir og FME
Seðlabankinn vill fá sömu heimildir og Fjármálaeftirlit til að heimsækja fjármálafyrirtæki og skoða gögn þeirra. Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem birt var í dag.
Í skýrslunni Fjármálastöðugleiki 2009 er fjallað um tillögur til úrbóta í íslensku fjármálakerfi. Í formála að skýrslunni mælist Már Guðmundsson seðlabankastjóri til þess að sett verði lög um strangari reglur um fjármálastarfsemi yfir landamæri og að hert verði á reglum sem lúta að áhættuþáttum í bankastarfsemi. Már segir að regluverk Evrópska efnahagssvæðisins feli í sér lágmarkskröfur. Þangað til þær hafi verið endurskoðaðar gæti verið skynsamlegt að hafa strangari reglur hér um fjármálastarfsemi yfir landamæri.
Þá er einnig lagt til í skýrslunni að ýmsar reglur sem varða áhættu í bankastarfsemi verði hertar. Til að mynda sé mikilvægt að endurskoða útlán í erlendum gjaldmiðli til þeirra sem hafa tekjur í krónum. Einnig er lagt til að lán sem banki hefur og er með veði í öðrum banka verði dregið frá eigin fé bankans.
Í skýrslunni kemur fram að til þess að Seðlabankinn geti uppfyllt þær kröfur sem til hans séu gerðar sé mikilvægt að hann hafi aðgengi að gögnum fjármálafyrirtækja og heimild til vettvangsskoðana líkt og Fjármálaeftirlitið. Seðlabankinn hafi ekki þess heimild nú en hún sé nauðsynleg svo bankinn geti framfylgt reglum, til dæmis um laust fé og gjaldeyrisjöfnuð.
Einnig er greint frá því í skýrslunni að í lok júní hafi stærstur hluti útlána til innlendra fyrirtækja verið til eignarhaldsfélaga eða 39 %. Meira en helmingur þeirra er í vanskilum. Þá er vikið að stöðu heimilanna og segir að frá hruni hafi kaupmáttur rýrnað um 7,5%. Í ársbyrjun hafi rannsókn Seðlabankans leitt í ljós að allt fjórðungur heimila sé með greiðslubyrði yfir hættumörkum. Tekjur hafi dregist saman síðan þá og því hafi fjölgað í hópi þeirra heimila sem líkleg séu til að lenda í greiðsluerfiðleikum.
í skýrslunni er einnig farið yfir atburðarrásina í bankahruninu. Fram kemur að tvöfalt fleiri seðlar hafi verið í umferð fyrstu dagana í október en fyrir þann tíma. Grípa hafi þurft til varabirgða af seðlum sem búið hafi verið að taka úr umferð.( ruv.is)
Það er sjálfsagt til bóta að Seðlabankinn fái sömu heimildir og FME en það verður þá að gera þá kröfur að slíkar heimildir séu notaðar en svo var ekki fyrir hrun. FME notaði ekki sínar heimildir og heldur ekki Seðlabankinn. Því fór sem fór.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.