AGS:Endurfjármögnun bankanna er afrek

Það er mikið afrek að tekist hafi að endurfjármagna helstu banka landsins á rúmu ári, að mati Marks Flanagan, yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gagnvart Íslandi.
Þetta kom fram á símafundi sem Flanagan hélt síðdegis í Bandaríkjunum í gær með meðlimum Íslensk-ameríska verslunarráðsins, undir stjórn Ólafs Jóhanns Ólafssonar, formanns ráðsins.

Á fundinum kom einnig fram að AGS telur íslensk stjórnvöld vera komin lengra á veg við að draga úr ríkisútgjöldum en gert var ráð fyrir. Hrósaði Flanagan vinnu stjórnvalda við fjárlagagerðina og því samráði sem hefur verið haft við helstu hagsmunahópa landsins.

„Það sem gerðist á Íslandi er í raun án fordæma," sagði Flanagan spurður um stöðu landsins í samanburði við önnur verkefni sem hann hefur reynslu af víða um heim.

Flanagan benti á að í öðrum löndum, þar sem aðstæður hafa verið svipaðar, hafi tekið 24 til 36 mánuði að koma fjármálakerfinu á svipaðan stað og það er nú á Íslandi. Hann segir að það hafi verið óraunhæf bjartsýni að gera ráð fyrir að endurreisn bankanna gæti gengið hraðar fyrir sig en raunin hefur orðið. Ýmsum verkefnum er þó enn ólokið. Til dæmis endurskoðun á regluverki og eftirliti með fjármálamarkaðinum.
Þá sagði Flanagan að Ísland nyti betri vaxtakjara en önnur krísu­lönd hefðu að meðaltali gert.

Vaxtakjör AGS segir hann mun betri en Íslandi bjóðist annars staðar. Sjóðurinn innheimtir eins prósents álag á þann kostnað sem hann ber af lánunum. Á þeim eru fljótandi vextir, en umreiknað í fasta vexti til tólf ára nema þeir 6,57 prósentum. Flanagan segir að Ísland fengi tæplega lán á opnum markaði nema með vöxtum í tveggja stafa tölu.

Flanagan sagði á fundinum að sjóðurinn muni ekki blanda sér í umræðuna um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi, þær séu innan­ríkismál. Hitt liggi fyrir að innlend neysla muni ekki standa undir endurreisninni ein og sér. Íslendingar þurfi á beinni erlendri fjárfestingu að halda og muni væntanlega nýta sér það forskot sem landið hefur þegar kemur að orkufrekum verkefnum.

Að mati Flanagans er íslenskt bankakerfi of stórt og þarf að minnka á næstu misserum.(visir,is)

Það er gott að AGS er ánægður með eitthvað hjá okkur. Sjóðurinn er einnig farinn að mæla með stýrivaxtalækkun og telur aðstæður hér  leyfa  þær. Við erum á réttri leið að áliti sjóðsins.

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband