Laugardagur, 12. desember 2009
Neysluútgjöld heimila hafa hækkað um 7,5% frá síðasta tímabili
Eins og ég hefi skýrt frá hefur Hagstofan gefið út nýja neyslukönnun um meðaltalsútgjöld heimilanna í landinu árin 2006-2008. Niðurstöður eru sundurliðaðar eftir búsetu, heimilisgerð, tekju- og útgjaldahópum. Heildarniðurstöður eru bornar saman við útgjaldarannsóknina 2005-2007.
Neysluútgjöld á heimili árin 20062008 hafa hækkað um 7,5% frá tímabilinu 20052007 og voru þau um 426 þúsund krónur á mánuði, eða 178 þúsund krónur á mann. Á sama tíma hefur meðalstærð heimilis minnkað lítillega, úr 2,40 einstaklingum í 2,39 og hafa útgjöld á mann því hækkað um 8,2%.
Ráðstöfunartekjur meðalheimilisins í rannsókninni voru rúmar 470 þúsund krónur á mánuði, um 197 þúsund krónur á mann. Ráðstöfunartekjur flestra hópa voru hærri en útgjöld þeirra en neysluútgjöldin voru að meðaltali um 90% af ráðstöfunartekjum.
Vísbendingar eru um töluverðan samdrátt neysluútgjalda í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 eða um 17% að raungildi frá lokaársfjórðungi ársins 2007 til sama tímabils árið 2008 og um 12% ef bílakaup heimilanna eru undanskilin.(Hagstofan)
Athuga ber,að tímabilið sem er kannað er 2006-2008 en neysluverð hefur að sjálfsögðu hækkað síðan 2008.Ég mun greina nánar frá neysluútgjöldum einhleypinga en bráðabirgðaathugun bendir til þess,að neysluútgjöld einstaklinga séu komin yfir 300 þús. á mánuði að viðbættri vísitöluhækkun frá 2008.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.