Mánudagur, 14. desember 2009
AGS: Staðan betri en reiknað var með
Staðan á Íslandi er heldur betri en gert var ráð fyrir í upphaflegu mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samdráttur í þjóðarframleiðslu er minni og kostnaður vegna endurfjármögnunar bankanna var einnig minni en búist var við.
Allt stefnir í að stjórn sjóðsins taki efnahagsáætlun Íslands til annarrar endurskoðunar um miðjan janúar. Þetta kom fram á fréttamannafundi sendinefndar sjóðsins, sem hefur farið yfir framgang áætlunarinnar undanfarinn hálfan mánuð.
Auk ítarlegra viðræðna við stjórnvöld hefur verið rætt við fulltrúa verkalýðshreyfinga, atvinnulífs, háskóla og stjórnarandstöðunnar. Mark Flanagan, sem fer fyrir sendinefndinni, sagði á fréttamannafundinum að kastljósinu hefði einkum verið beint að fjármálum ríkisins og fjárlögum, endurfjármögnun á skuldum ríkisins og skoðað hefði verið hvernig klára mætti endurfjármögnun bankanna. Flanagan sagði aðgerðir yfirvalda hafa dregið úr kreppunni og taldi að á næsta ári myndi örla á vexti í hagkerfinu. Endurfjármögnun bankanna hefði ekki reynst jafndýr og áætlanir gerðu ráð fyrir og skuldir ríkisins væru minni, einkum því eignir bankanna reyndust verðmætari en í fyrstu var talið.
Flanagan segir áætlunina hafa gengið eftir í flestum lykilatriðum og stjórnin eigi að geta lokið endurskoðuninni á tilsettum tíma. Þó þurfi að skýra nokkur atriði á næstu vikum auk þess sem tryggja þurfi fjármögnun áætlunarinnar. Óvíst er hvaða áhrif það kann að hafa, ef Alþingi lýkur ekki umfjöllun sinni um Icesave fyrst. Þá gætu Danir, Norðmenn og Svíar lokað á lánalínur á ný, sem myndi að líkindum leiða til frestunar á endurskoðun áætlunarinnar, rétt eins og við fyrstu endurskoðun.(ruv.is)
Umsögn AGS er jákvæð.Enda er þróun öll í rétta átt þó hægt fari.Verðbólgan mjakast niður,vextir lækka þó hægt fari,samdráttur í þjóðarframnleiðslu minni en áætlað varog atvinnuleysi sömuleiðis minna.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.