Horfið frá þremur þrepum í virðisaukaskatti

Almennur virðisaukaskattur verður hækkaður um eitt prósentustig, en horfið verður frá hugmyndum um 14% milliskattþrep, sem átti að leggjast á sykraðar vörur og sölu veitingahúsa. Þetta eru tillögur meirihluta efnahags- og skattanefndar Alþingis, og gjörbreyting á frumvarpi ríkisstórnarinnar um skattamál.

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í skattamálum var lagt til að tekið verði upp þriggja þrepa virðisaukaskattkerf í stað tveggja. Almenna þrepið í átti þannig að hækka úr 24,5% í 25% frá og með áramótum, núverandi 7% þrep átti að halda sér, en svo átti að koma nýtt 14% þrep.

Í þetta milliþrep átti að falla sala veitingahúsa og mötuneyta, og allar sykraðar vörur eins og sælgæti, kökur og kex, og sykraðar drykkjarvörur, þó ekki áfengi. Viðbótartekjur ríkissjóðs vegna þessara breytinga voru áætlaðar um 5,3 milljarðar á næsta ári.

Í gærkvöldi lagði hinsvegar meirihluti efnahags- og skattanefndar óvænt til að fallið verði frá þessu milliþrepi.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði á þingfundi í gærkvöldi athugasemdir við að þessar miklu breytingar væru nánast ekkert ræddar í nefndinni.

Meirihlutinn telur að þessar breytingar muni skila jafnmiklum tekjum í ríkissjóð. Ástæður breytinganna eru að milliþrep upp á 14% er talið flókið í framkvæmd, og myndi auka hættu á skattaundanskotum. Þá vilja menn halda verðhækkunum á matvöru í skefjum eins og kostur er. Meirihlutinn leggur til fleiri breytingar á frumvarpinu.

Birkir Jón Jónsson,þingmaður Framsóknarflokksins, segir vinnubrögð stjórnarliða slæm og að ekki sé hægt að sætta sig við þau.

Þær breytingar á virðisaukaskatti sem efnahags- og skattanefnd leggur til, eru illskárri en upphaflega tillagan, segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. (ruv.is)

 

 

Ferðaþjónustan fagnar þessum breytingum,þar eð hún telur,að hækkun virðisaukaskatts á sölu veitingahúsa hefði skaðað ferðaiðnaðinn.Sykur og sætindi o.fl. sem átti að fá 14% virðisaukaskatt verður áfram í 7% skatti.Margir fagna því og voru á móti sérstökum sykurskatti. En það fylgir bögull skammrifi: Hærra þrepið hækkar um eitt prósentustig og það lendir að sjálfsögðu á almenningi og er ekki á bætandi.Ég veit ekki hvort þessi breyting er til bóta. Það eru takmörk  fyrir því hvað unnt er  að leggja mikið á almenning.

Björgvin Guðmundsson


    « Síðasta færsla | Næsta færsla »

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband