Föstudagur, 1. janúar 2010
Jóhanna: Erfiðu ári lokið
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra boðaði betri tíð um mitt ár í áramótaávarpi sínu í gærkvöld. 2009 hefði verið ár sársaukafulls uppgjörs og endurmats, þó hefði efnahagsástandið ekki verið jafn slæmt og spáð hefði verið fyrir ári.
Atvinnuleysi hefði orðið minna og samdráttur ekki jafn mikill og margir óttuðust. Árið sem leið hefði einnig valdið straumhvörfum í viðhorfum og lífsgildum þjóðarinnar. Þannig hefði sú hugmynd leikið okkur grátt að gróði og arður til hluthafa væri helsta stýriafl og drifkraftur fyrirtækja.
Kjarni hennar væri að hámörkun gróða og arðs tryggði farsæld og velsæld betur en allt annað. Íslendingar hefðu látið það viðgangast að stjórnvöld beygðu sig undir þessa hugmyndafræði og stæðu álengdar á meðan hún sprengdi öll eðlileg efnahagsviðmið og -ramma.
Það væri hörmuleg niðurstaða hins lánadrifna og skammsýna ofurkapítalisma, sem Íslendingar reyndu sig við, að stóru burðarfyrirtækin í atvinnulífinu hefðu orðið hvað verst úti í bankahruninu. Af þeirri dýrkeyptu reynslu mætti læra margt og einkum þetta: Ríkið yrði að setja skorður við sérhyggju og markaðshyggju. Við endurreisnina á árinu 2010 skyldum við krefjast ábyrgra fyrirtækja sem leggðu rækt við það samfélag sem þau væru sprottin úr.
Forsætisráðherra sagði að í upphafi nýs árs myndi rannsóknarnefnd Alþingis skila viðamikilli skýrslu um orsakir hrunsins á Íslandi. Nefndin hefði fengið dýpri innsýn í gangverk fjármálastofnana og stjórnkerfisins en nokkur hefði áður haft. Vonandi tækist henni að rekja orsakasamhengi og veita heildarsýn sem skýrði atburðarásina og skæri úr um álitamál. (ruv.is)
Ég er sammála Jóhönnu.Erfitt ár er að baki og væntanlega betra ár framundan. Spáð er hagvexti á miðju ári. Voinandi gengur það eftir.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.