Fimmtudagur, 18. desember 2008
Eftirlaunafrv.gengur ekki nógu langt
Til stendur að ræða eftirlaunafrumvarp ríkisstjórnarinnar á Alþingi í kvöld. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við gagnrýni sem hefur verið á eftirlaunalögin sem samþykkt voru árið 2003 og færðu réttindi æðstu ráðamanna fjær því sem gengur og gerist hjá öðrum stéttum.
Tvö önnur frumvörp um sama mál liggja fyrir þinginu, annað frá VG en hitt frá Valgerði Bjarnadóttur, sem er varaþingmaður Samfylkingarinnar.(mbl.is)
Frumvarpið dregur úr sérréttindum ráðherra,þingmanna og æðstu embættismanna í eftirlaunamálum. En að mínu mati gengur það ekki nógu langt. Umræddir embættismenn og þingmenn eiga ekki að hafa meiri eftirlaunaréttindi en aðrir þegnar þjóðfélagsins. Eðlilegast væri að umræddir embættismenn og þingmenn hefðu sömu eftirlaun og ríkisstarfsmenn.
Björgvin Guðmundsson
.
T
![]() |
Eftirlaun rædd á þingi í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 18. desember 2008
Ákært i Baugsmálinu í þriðja sinn
Baugur Group segir í yfirlýsingu, að gamla Baugsmálið, sem hófst með húsleit hjá Baugi í ágúst 2002, sé enn á ferðinni í ákæru setts ríkislögreglustjóra vegna meintra skattalagabrota.
Ákærandinn í þetta sinn er sami maðurinn og stýrði húsleitinni. Þetta er í þriðja sinn sem gefin er út ákæra í þessu sama máli. Það er gert þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi í dómi fundið berum orðum að því við ákæruvaldið að sá tími sem leið frá upphafi rannsóknarinnar í ágúst 2002 og þar til ákæra númer tvö var gefin út í mars 2006 hafi verið allt of langur. Ákæruvaldið virðist ekkert mark taka á slíkum aðfinnslum æðsta dómstóls landsins en velur að ákæra rétt einu sinni í málinu þótt nú sé komið á sjöunda ár frá því rannsókn málsins hófst. Þetta er gert þótt Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í gær vísað frá dómi ákæru frá þessum sama ákæranda vegna annmarka á málsmeðferð sem enn frekar eiga við um nýjustu ákæruna.
Ákæran er gegn Baugi, Gaumi, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Kristínu Jóhannesdóttur og Tryggva Jónssyni. Þessir einstaklingar hafa mátt eyða drjúgum hluta síðustu sjö ára til þess að verja hendur sínar hjá ríkislögreglustjóra og fyrir íslenskum dómstólum.
Persónuleg skattamál ákærðu sem og skattamál Baugs og Gaums sem ákært er fyrir hafa hlotið endanlega niðurstöðu hjá skattyfirvöldum. Þess má geta að eftir niðurstöðu yfirskattanefndar í máli Jóns Ásgeirs, Tryggva og Gaums fengu þessir aðilar tugi milljóna króna endurgreiddar frá ríkissjóði.
Ákærðu telja að með ákærunni séu þverbrotnar á þeim grundvallarreglur um mannréttindi með því að ákæra margsinnis í sama máli og draga mál svo lengi að óafsakanlegt sé.(mbl.is)
Það verður að teljast undarlegt,að ekki skyldi ákært í þessu skattmáli samhliða málinu,sem kallað var Baugsmál.Það geta ekki talist góðir hættir að draga slík mál ár eftir ár.í yfirlýsingu frá Baugi segir,að ákærandinn nú sé sami maðurinn og hafi stjórnað húsleitinni hjá Baugi 2002.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Gamla Baugsmálið enn á ferðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 18. desember 2008
Tryggvi hættur.Sama aðferð og áður "smákallar" látnir bera ábyrgðina
Menn muna,að Þórólfur Árnason þá borgarstjóri var látinn hætta hjá borginni,þar eð hann var undirmaður olíuforstjóra,sem uppvís var að ólöglegu samráði olíufélaganna.Forstjórarnir sjálfir sluppu hins vegar alveg.Sagt var,að olíufélögin hefðu brotið af sér en ekki forstjórarnir ( hundalogik).
Mér kom þetta í hug,þegar ég heyrði í morgun,að Tryggvi Jónsson,áður hjá Baugi,hefði hætt hjá Nýja Landsbankanum vegna kröfu almennings.Þetta er alveg út í hött.Þeir sem bera ábyrgð á bankahruninu eru þessir: Bankastjórar og bankaráð bankanna,Fjármálaeftirlitið,Seðlabankinn og stjórnvöld. Tryggvi Jónsson hefur enga aðkomu að því máli þó hann hafi verið dæmdur fyrir afbrot í starfi hjá Baugi fyrir 10 árum. En svo virðist sem almenningur vilji taka " einhverja smákalla" af lífi á meðan almenningur getur ekki náð neinum árangri gagnvart þeim,sem raunverulega bera ábyrgðina.
Björgvin Guðmundsson
![]() |
Tryggvi hættur í Landsbankanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 18. desember 2008
Íslendingar ráða því sjálfir hvort þeir taka upp evru einhliða
Ákvörðun um það hvort taka eigi upp evruna er ekki aðalatriði í því sem Ísland þarf að takast á við á þessu augnabliki. Þetta kom fram í máli Poul Thomsen, yfirmanns sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, á fundi með blaðamönnum í utanríkisráðuneytinu í dag. Thomsen sagðist vita til þess að umræðan um framtíðargjaldmiðil færi fram en það væri ekki aðal viðfangsefni núna heldur að fást við fjárlögin.
Thomsen segir að niðurskurður í núverandi fjárlögum sé hóflegur, en fyrir 2010 verði hann mun meiri. Kostnaðurinn við að endurreisa bankakerfið og endurfjármagna Seðlabankann sé á bilinu 85 til 90 prósent af landsframleiðslu sem sé mjög hátt hlutfall. Hins vegar sé um 60 prósent af þeim kostnaði innlendur og þess vegna hvíli endurreisnin mest á því að taka til heimafyrir.
Thomsen sagði að áætlun Íslendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að styrkja krónuna gengi vel. Árangurinn mætti þakka bæði þeim gjaldeyrishöftum sem lögð hefðu verið á og aðhaldssamri peningamálastefnu með háum vöxtum.
Hann teldi að búið væri að ná pólitískri samstöðu um að þessi niðurskurður ætti sér stað, en það ætti eftir að fara betur yfir hvernig sá niðurskurður yrði í framkvæmd. Ekki væri æskilegt að skera of mikið niður fyrir árið 2009. Það myndi auka enn frekar á kreppuna. Hins vegar þyrfti að skera niður á fjárlögum árið 2010.(visir.is)
IMF á ekki að blanda sér í það hvort Ísland tekur upp annan gjaldmiðil,t.d. evru eða ekki.Það er alfarið mál Íslands hvort tekinn verður upp annar gjaldmiðill einhliða.Og í rauninni þarf Ísland ekkert lán frá IMF ef ekki er ætlunin að setja krónuna á flot aftur.Við hefðum heldur ekki þurft neitt lán frá IMF ef við ætluðum að beita gjaldeyrishöftum eins og gert er nú.Lánið er tekið vegna ráðagerða um að láta krónuna fljóta og vegna Ice save reikninganna. En ef við greiðum ekki meira vegna Ice save en það,sem er í tryggingasjóðum og eignum bankanna þá þarf ekkert erlent lán vegna þeirra.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 18. desember 2008
ASÍ:Dregið verði úr niðurskurði elli-og örorkulífeyris.Tekjujöfnun aukin
Miðsjórn ASÍ ályktaði um fjárlagafrumvarpið á síðasta fundi sínum á árinu í gær. Þar voru, auk tillögu um að dregið verði úr niðurskurði elli- og örorkulífeyris, lagðar fram eftirfarandi tillögur sem miðstjórn ASÍ telur nauðsynlegt að gerðar verði breytingar a ef skapast á ásættanlegur grundvöllur að gerð komandi kjarasamninga:
- Unnið verði á næstu vikum að tillögum um það hvernig auka megi tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins.
- Sett verði lög um greiðsluaðlögun sem heimili niðurfærslu og skilmálabreytingu á húsnæðisskuldum heimilanna.
- Stofnaður verði Bjargráðasjóður heimilanna til að auðvelda niðurfærslu húsnæðisskulda.
- Settur verði starfshópur með fulltrúum byggingarmanna til að fara yfir verklegar framkvæmdir og forgangsraða mannaflsfrekum framkvæmdum.
- Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn njóti sömu lífeyrisréttinda og aðrir opinberir starfsmenn.
- Staðið verði við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008.
ASÍ er mjög óánægt með niðurskurð ríkisstjórnarinnar á bótum lífeyrisþega.En aðeins fjórðungur þeirra á að fá fullar verðlagsuppbætur en 3/4 eiga að sæta skerðingu,þ.e. fá aðeins 9,6% hækkun í stað 20% eins og verðbólgan segir til um.Ég tek undir með ASÍ.
Björgvin Guðmundsson
Fimmtudagur, 18. desember 2008
Mikill ágreiningur milli forustu ASÍ og ríkisstjórnarinnar
Forseti og varaforseti Alþýðusambands Íslands funduðu með forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar í dag til að kynna áherslur og kröfur í framhaldi af ályktun miðstjórnar ASÍ frá því fyrr í dag um fjárlagafrumvarpið og ráðstafanir í ríkisfjármálum.
,,Þegar ekki er vilji til að hnika neinu til þá er málið áfram í ágreiningi. Við treystum okkur ekki til að vinna á þessum grunni," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Forystumenn ASÍ vonuðust til þess að hægt yrði að ná samkomulagi við ríkisstjórnina sem lagt gæti ásættanlegan grunnvöll að vinnu við endurskoðun og endurnýjun kjarasamninga fyrir árin 2009 og 2010 strax eftir áramótin.
Gylfi segir ljóst að það var ekki vilji til þess að koma til móts við áherslur ASÍ og voru það sögn Gylfa mikil vonbrigði. Einkum strandar á vilja ríkisstjórnarinnar til að endurskoða áform um mikla skerðingu bóta elli- og örorkulífeyrisþega nú um áramótin.
,,Það er alveg ljóst að verðlagsforsenda kjarasamninga er brostin en engu að síður höfum við verið að reyna að finna lausnir til að framlengja þá. Þrátt fyrir að okkar fólk stæði fyrir talsverði kjararýnun," segir Gylfi sem er ekki bjartsýnn á framhaldið. ( visir.is)
Það er alvarlegt mál fyrir ríkisstjórnina ef mikill ágreiningur er milli hennar og ASÍ.Verðlagsforsendur kjarasamninga eru brostnar og ASÍ er mjög óánægt með kjarakerðingu lífeyrisþega.Það mun þyngjast róðurinn hjá ríkisstjórninni,ef hún þarf ekki aðeins að glíma við andsnúinn almenning heldur einnig verkalýðshreyfinguna á móti sér.
Björgvin Guðmundsson