Jóhann Ársælsson er með leiðina til lausnar vanda kvótakerfisins

Á ráðstefnu   Samfylkingarinnar um kvótaerfið fyrir skömmu flutti Jóhann Ársælsson erindi um stefnu Samfylkingarinnar í málinu og setti fram tillögu um sáttaleið einnig.Hér fer á eftir kafli úr máli Jóhanns:

Grundvöllur stefnu Samfylkingarinnar er í raun að auðlindin fiskistofnarnir, lífríkið í sjónum verði í eigu þjóðarinnar, að fullt jafnræði (þar með mannréttindi) ríki við nýtingu auðlindarinnar og að Alþingi og stjórnvöld beri ábyrgð á því að þannig verði það til framtíðar.

Samfylkingin byggir á þeim arfi sem hún fékk frá þeim sem stóðu að stofnun flokksins. Í 1. grein laga um stjórn fiskveiða felst grundvallarafstaða sem ekki er hægt að framfylgja nema með því einu að stjórnvöld gæti að fullu eignarhaldsins fyrir hönd þjóðarinnar.

Á grundvelli þessa leiðarvísis forvera Samfylkingarinnar varð stefnan til. Á fyrsta þingvetri eftir fyrstu kosningarnar sem Samfylkingin tók þátt í, nánar til tekið á vorþinginu árið 2000, lagði allur þingflokkur Samfylkingarinnar fram frumvarp um stjórn fiskveiða. Þetta er sama vorið og Samfylkingin var stofnuð formlega sem stjórnmálaflokkur.

Í greinargerðinni segir um meginatriði frumvarpsins: „Megintilgangur breytinganna er að tryggja jafnræði og atvinnufrelsi.“ En það eru nákvæmlega þau mannréttindi sem Mannréttindanefnd SÞ telur hér brotin.

Stefnunni, sem hefur verðið kölluð fyrningarleiðin og er í samræmi við tillögur Auðlindanefndar frá árinu 2000, er svo lýst í frumvarpinu:
„Úthlutun aflahlutdeilda án endurgjalds verður afnumin í jöfnum áföngum á tíu árum en útgerðum fiskiskipa þess í stað gefinn kostur á öflun aflahlutdeilda til fimm ára í senn á markaði, þar sem öllum útgerðum sambærilegra fiskiskipa er fenginn jafn réttur og nýliðun þar með auðvelduð.“ Greiðslum fyrir veiðiheimildir verður dreift á það ár sem þær eru nýttar á. Allar aflahlutdeildir verða komnar á markað eftir tíu ár.

Um grundvöll stefnumörkunar segir: „Stjórn fiskveiða hefur um árabil verið eitt helsta deilumál meðal þjóðarinnar. Eftir að ljóst varð að takmarka þyrfti aðgang að auðlindinni hefur verið harðlega gagnrýnt að sameign þjóðarinnar skuli hafa verið afhent tilteknum aðilum án endurgjalds og að þeir hafi síðan verið sjálfráðir um hvort þeir nýttu veiðiréttindi sín til eigin veiða, leigðu þau öðrum eða seldu. Atvinnuréttindum í greininni og aðgangi að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar var þannig breytt í sérréttindi. Þar með var jafnræði og atvinnufrelsi í þessari grein raskað. Niðurstaða þingflokks Samfylkingarinnar er því sú að hið pólitíska verkefni nú sé að leysa eignarhaldsdeiluna á grundvelli aflamarkskerfisins.“ Þetta vor var stofnfundur Samfylkingarinnar haldinn og stefnan staðfest þar.

Tillaga Samfylkingarinnar er eina heildstæða tillagan sem hefur komið fram á Alþingi sem lausn á eignarhaldsdeilunni.

Samfylkingin lá undir miklum árásum vegna þessarar stefnu sem frumvarpið boðaði og fyrningarleiðinni hefur verið fundið margt til foráttu. Enginn hefur þó haldið því fram að sú leið tryggði ekki grundvallarmannréttindi, „jafnræði og þjóðareign á auðlindinni“.

Stefna Samfylkingarinnar gerir það fullkomlega og hún er því sem slík alveg vafalaust svar sem dugar við bréfi mannréttindanefndar SÞ. Það er hins vegar eðlilega spurt í ljósi margra ára átaka sem við þekkjum. Yrði pólitísk samstaða um hana ?

Við í Samfylkingunni höfum oft sagt sagt að sú útfærsla sem felst í þingmálinu sé ekki heilög kýr í okkar augum. Við séum tilbúin að skoða allar aðrar leiðir sem byggi á þjóðareign og jafnræði.

Til að ná sáttum um lausn á þessu mikla deilumáli væri auðvitað æskilegt að leiðin sem farin yrði raskaði sem minnst sjálfu stjórnkerfinu, væri sem einföldust og tryggði útgerðunum vel viðráðanlega aðlögun að nýjum aðstæðum.

 

Ég ætla að fjalla hér um leið sem er eins og fyrningarleið Samfylkingarinnar líka í samræmi við tillögur Auðlindanefndar frá árinu 2000 og hvernig hún á mjög einfaldan hátt getur leyst bæði eignarhaldsvandann og mannréttindabrotin en jafnframt tryggt stöðugleika í atvinnugreininni.
Ég tek fram að þessi tillaga hefur ekki hlotið umfjöllun í stofnunum flokksins. Ég ber því einn ábyrgð á framsetningu hennar hér.
Ég hef hins vegar rætt hana við marga flokksmenn og tel hana í fullu samræmi við grundvallarstefnu Samfylkingarinnar.

Við samningu tillögunnar voru þau markmið sett að hún skyldi byggja á aflamarkskerfinu eins og fyrningarleiðin, vera einföld og auðskilin og uppfylla eftirfarandi kosti:

1. Þjóðareign verði ótvíræð.
2. Veiðiréttindi verði skýrt afmörkuð og tímabundin.
3. Breytingin létti aðgang nýliða að útgerð.
4. Útgerðarmönnum verði tryggt fullt jafnræði til úthlutunar veiðiréttar.
5. Breytingarnar tryggi útgerðinni starfsgrundvöll til framtíðar, valdi sem minnstri röskun í greininni og íþyngi útgerð í landinu ekki um of fjárhagslega.

Er þetta þá mögulegt ? Er hægt að reka aflamarkskerfið án þess að brjóta jafnræðisreglu og án þess að afhenda útgerðarmönnum auðlindina til eignar.
Og er þetta hægt án þess að kollvarpa útgerðinni í landinu? Miðað við orðræðu þeirra sem vilja hafa eignarhaldið eins og það er gæti
maður haldið að aflamarkskerfið stæði og félli með óbreyttu fyrirkomulagi.

Svarið er já, þetta er hægt og tillagan er svona:

1. Stjórnvöld taki til hliðar ár hvert 5% aflahlutdeilda og selji á almennum markað.

2. Lagaákvæði um veiðigjald, línuívilnun, byggðakvóta og áföll vegna aflasamdráttar verði felld niður.

Mótvægisaðgerðir: Markaðsvirði þeirra aflaheimilda (5%) sem seldar verða ár hvert verði greitt til handhafa aflahlutdeilda á 20 ára tímabili að hluta eða öllu leyti en áður verði dregið frá árlegt verðgildi þeirra ákvæða sem falla niður samkvæmt lið 2.

Tillagan er ekki flóknari en þetta. En hún leynir dálítið á sér því að það þarf ekki meira til að ná þeim markmiðum sem sett voru fram. Með þessari leið myndu stjórnvöld gegna með skýrum hætti eigendahlutverkinu fyrir hönd þjóðarinnar. Þar með væri þjóðareign á auðlindinni ótvírætt tryggð.
Aflaheimildir væru í raun afmarkaðar í tíma þ.e. sala 5% allra aflaheimilda í hverri tegund hvert ár með innifalinni 5% skerðingu til útgerða jafngildir almennum 20 ára nýtingarrétti. Jafnræði til nýtingar væri tryggt með því að selja hlutdeildirnar á almennum markaði. Ég vek athygli á því að hér er ekki gert ráð fyrir sölu einhverskonar hlutdeildarbréfa, einungis samskonar viðskiptum með aflahlutdeildir og nú tíðkast.

Grundvallarbreytingin felst í afmörkun veiðiréttarins sem eftir þessa breytingu verður með innifalinni 5% skerðingu. Þau 5% yrðu seld á þeim mörkuðum sem útgerðarmenn hafa viðskipti sín og sölunni dreift þannig að ekki verði röskun á markaðnum.

Aðalkostur þessarar leiðar er að hún leysir eignarhaldsvandann á mjög einfaldan hátt án þess að raska í neinu fiskveiðistjórninni eða viðskiptum með aflaheimildir.

Það þyrfti í raun ekkert annað en ákvörðun um þessa skilgreiningu veiðiréttarins og sölu hans á opnum markaði til að gæta með fullnægjandi hætti eignahaldsins fyrir hönd þjóðarinnar. Jafnræðis þegnanna og mannréttinda væri þar með gætt. Þetta væri í raun nóg.
En ég tel mótvægisaðgerðir nauðsynlegar og að með þeim megi uppfylla allar forsendur sem settar eru fram hér á undan.

Þessi leið, 5% skerðingin ein og sér, kann að reynast of erfið fyrir útgerðarfyrirtækin í landinu vegna fjárfestinga í veiðirétti á undanförnum árum. Þess vegna tel ég skynsamlegt að grípa til þeirra
mótvægisaðgerða sem lagðar eru til.

Í mótvægisaðgerðunum vega endurgreiðslurnar þyngst en þær þarf að útfæra með þau markmið í huga að ekki verði röskun á rekstrargrundvelli í greininni.

En hversu háar ættu endurgreiðslurnar að vera?

Ég gæti hugsað mér sem grundvöll að sátt að eftir sæti hjá stjórnvöldum árlega næstu 20 árin jafngildi þeirra verðmæta sem gert er ráð fyrir að útgerðin greiði í formi veiðigjalds og árlegra verðmæta sem falin eru í 9.gr.laga. Byggðakvóti, aflabrestur og 9.gr.a. um línuívilnun að viðbættu tilteknu álagi sem er auðvitað pólitískt og tæknilegt úrlausnarefni ef þessi leið er valin.

En hún gefur kost á því að stilla endurgreiðslurnar nákvæmlega af út frá þeim markmiðum sem stefnt er að.

Með afmörkun veiðiréttarins má gera ráð fyrir að veiðiheimildir lækki nokkuð í verði eins og áður sagði þrátt fyrir greiðslur til útgerða.
Sú lækkun skiptir þá útgerðarmenn litlu sem fyrir eru í greininni og ætla að halda sinni útgerð óbreyttri vegna þeirra greiðslna sem þeir munu fá. Lækkunin léttir hins vegar aðkomu nýliða og þeirra sem vilja auka sína útgerð og skiptir því verulegu máli fyrir nýliða og byggðarlög sem mjög eru háð útgerð.

Að þessu tímabili loknu hyrfu endurgreiðslurnar enda hefðu í raun allar veiðiheimildir verið greiddar á markaðsvirði og hefð komin á skilgreindan veiðirétt.

Frá fyrsta degi þessa fyrirkomulags yrði enginn vafi á um eignarhald þjóðarinnar. Veiðiréttur útgerðanna væri líka ótvíræður.

Að leggja niður veiðigjald, línuívilnun, byggðakvóta og ákvæði vegna aflasamdráttar og áfalla er gert til einföldunar til að losna við handstýrðar úthlutanir og til að koma í veg fyrir þá truflun á verðmyndun veiðiréttar sem ókeypis úthlutanir valda. Fjármunir sem inn koma vegna árlegrar sölu á 5% aflahlutdeild koma í stað þessara verðmæta og nýtast til að koma til móts við þau vandamál sem þeim ákvæðum er ætlað að leysa.

 

En þá má spyrja hvort þau markmið náist sem ég lýsti hér áðan ?

Þau voru í fyrsta lagi að þjóðareign verði ótvíræð, í öðru lagi að veiðiréttindi verði skýrt afmörkuð og tímabundin, og í þriðja lagi að breytingin létti aðgang nýliða að útgerð.

– Já, stefnan felur það í sér að stjórnvöld gegna eigendahlutverkinu að fullu gagnvart auðlindum sjávar, og selja skilgreindan veiðirétt á markaði sem er öllum opinn.

Að öðru leyti vil ég sem svar við þessu vitna í skýrslu Auðlindanefndar (bls. 43):

„Meginatriði þessarar leiðar er fólgið í því að allar aflahlutdeildir fyrnist um fastan hundr¬aðs¬hluta á ári – þ.e.a.s. gangi til ríkisins – en með því er komið á festu um varanleika hlut¬deild¬anna um leið og umráðaréttur þjóðarinnar yfir auðlindinni er skýrt skilgreindur. Með hin¬um tímabundna en skýra afnotarétti sem í þessu felst er greitt fyrir því að handhafar afla¬hlut¬deilda geti farið með þær sem óbein eignarréttindi, t.d. varðandi framsal og veðsetn¬ingu.
Síðan er gert ráð fyrir því að fyrndar aflahlutdeildir verði seldar jafnóðum aftur á mark¬aði eða á uppboði. Með því fyrirkomulagi að fyrningin sé fastur hundraðshluti allra aflahlut¬deilda á hverjum tíma verða þær einsleitar og því allar jafnverðmætar á markaði en það ætti að greiða mjög fyrir viðskiptum. Þegar hinar fyrndu aflahlutdeildir bætast við venju¬legt framboð á hlutdeildum ár hvert má telja víst að um verði að ræða mjög virkan mark¬að með aflahlutdeildir, sem mun auka sveigjanleika innan sjávarútvegsins og bæta að¬gengi nýrra aðila og vaxtarmöguleika hagkvæmustu fyrirtækjanna.
Ljóst er að áhrif þessa kerfis á afkomu og rekstur sjávarútvegsins ræðst fyrst og fremst af því hve há fyrningarprósentan er og þar með gildistími aflahlutdeildanna. Eftir að fyrn¬ingar¬hlutfallið hefur verið ákveðið fer söluverð aflahlutdeildanna og þar með sú greiðsla sem sjávarútvegurinn þarf að inna af hendi árlega eftir því sem markaðurinn ákveð¬ur. Verðið mun því ráðast af eigin mati sjávarútvegsins á þeim umframarði sem talinn er verða eftir í greininni í framtíðinni. Jafnframt er líklegt að þetta verð geti orðið allbreytilegt eftir horfum um aflabrögð og markaðsverð afurða á hverjum tíma. Einnig gætu fyrirtæki frestað kaupum á aflaheimildum ef þau lenda í tímabundnum greiðsluvanda og bætt það upp síðar þegar betur áraði.“

Fjórða markmiðið var að útgerðarmönnum verði tryggt fullt jafnræði til úthlutunar veiðiréttar.

– Já allir hafa sama rétt til að kaupa veiðiheimildir og öllum er tryggður réttur til að verða útgerðarmenn. Eftir 20 ár hafa allir keypt allar sínar veiðiheimildir.

Fimmta markmiðið var að breytingarnar tryggi útgerðinni starfsgrundvöll til framtíðar, valdi sem minnstri röskun í greininni og íþyngi útgerð í landinu ekki um of fjárhagslega.

– Kerfi úthlutana, viðskipta og fiskveiðistjórnunar er með þessari leið haldið óbreyttu að öðru leyti en hér er lýst. Það tryggir ásamt endurgreiðslunum að starfsgrundvelli útgerða verði ekki raskað.
 
Með þessari leið gætu stjórnvöld skilgreint veiðiréttinn, komið á jafnræði til nýtingarinnar og gætt eignarhaldsins á auðlindinni fyrir hönd þjóðarinnar með skýrum og einföldum hætti.

Þessi leið er sett fram í þeirri von að það sé vilji til að ná sátt í þessu máli.
En líka til þess að ef sáttaviljinn er jafn fjarri og hann hefur verið þá geti menn a.m.k. ekki sagt að engar færar leiðir hafi verið settar fram til að leysa málið.

Leið Jóhanns leysir kvótavandamálið.

Björgvin Guðmundsson


Svarið til Mannréttindanefndar Sþ. hvorki fugl né fiskur

 

Ríkisstjórnin neitar að greiða sjómönnunum tveimur,sem brotið var á, bætur.Þó stendur í mannréttindasáttmála nefndarinnar:

Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum tekst á hendur:
(a)   að ábyrgjast að sérhver maður sem hefur viðurkenndan rétt eða frelsi eins og hér er viðurkennt og brotið hefur verið á honum, skuli fá raunhæfar úrbætur, enda þótt skerðingin hafi verið framin af mönnum sem fara með stjórnvald“´

Svar ríkisstjórnarinnar er birt í heild á vef stjórnarráðsins og hvet eg menn til þess að lesa það. Annars er svarið makalaust, Þetta er mestan part fræðileg langloka,sem íslenskir lögfræðingar hafa tekið saman og greinlega ætlað til þess að drepa málinu á dreif. Það eru langir sögulegir kaflar og yfirlit yfir dómsmál. En niðurstaðan er tiltölulega stutt: Ríkið getur ekki greitt bætur og ekki umbylt kvotakerfinu. En það á að huga að breytingum í framtíðinni. Þetta svar er til skammar. Það á sem sagt að halda mannréttindabrotum áfram,þar til einhvern tímann í framtíðinni,að  isl. stjórnvöldum þóknist að breyta kerfinu og hætta að brjóta mannréttindi eða draga úr þeim. Þætti okkur þetta gott hjá öðrum þjóðum,sem brjóta mannaréttindi,að þær segðust ætla að hætta því einhvern tímann í framtíðinni. Ég held ekki.

Björgvin Guðmundsson

 


Guðlaugur Þór og Geir Haarde þrýstu á Villa

Atburðarásin var hröð undir lok síðustu viku, áður en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tilkynnti ákvörðun sína um að hætta sem oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

Vilhjálmur hafði samráð við fjölskyldu og samstarfsmenn, en í lykilhlutverki voru Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og Marta Guðjónsdóttir varaborgarfulltrúi og formaður Varðar. Þau hafa stutt Vilhjálm, en ráðlögðu honum að draga ákvörðunina ekki lengur. Þá var hann undir „óbeinum“ þrýstingi frá formanni flokksins og stuðningsmönnum, sem „höfðu hagsmuni flokksins í huga, en vildu líka hjálpa honum út úr þessu“.

En Vilhjálmur tók af skarið. Heyra má að spilað hafi inn í að hann giftist Guðrúnu Kristjánsdóttur í gær og hafi lengi haft augastað á þessum degi.

Það kemur ekki á óvart,að flokksforusta Sjálfstæðisflokksins  hafi þrýst  á Vilhjálm  með að taka

 

ákvörðun um hver ætti að verða borgarstjóri,þegar Ólafur F. hættir í mars n.k. Í raun þýðir þetta að þrýst var á Vilhjálm að víkja til  hliðar þar eð búið var að gera hann að blóraböggli fyrir öllum óförum

Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.Vilhjálmi var einum kennt um slakt gengi flokksins í skoðanakönnunum enda þótt allir borgarfulltrúar flokksins bæru þar ábyrgð.

Björgvin Guðmundsson


mbl.is Formaður og samstarfsmenn þrýstu á um ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn Íslands hafnar áliti Mannréttindanefndar Sþ.!

Stjórnvöld hafna kröfu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að greiða tveimur íslenskum sjómönnum bætur. Vísað er í gagnstæðan úrskurð Hæstaréttar og því eigi kröfur um skaðabætur ekki stoð í landsrétti. Þá er því hafnað að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu verði umbylt í einu vetfangi, en breytingar á því boðaðar. Svar til nefndarinnar fór í póst um helgina.

Nefndin hafði úrskurðað að íslenskum stjórnvöldum bæri að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið og greiða tveimur sjómönnum bætur fyrir að njóta ekki jafnræðis við kvótaúthlutun. Nefndin er alþjóðleg stofnun og Ísland hefur skuldbundið sig til að hlíta úrskurðum hennar.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að hann sé þess fullviss að nefndin fallist á útskýringar íslenskra stjórnvalda. „Það er ekki hægt að búast við því að á sex mánuðum komum við fram með fullmótaðar hugmyndir um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur verið við lýði í um aldarfjórðung," segir Einar.

Hann segir að í svarinu hafi verið vísað í stjórnarsáttmála þar sem segir að gerð verði sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu og áhrifum þess á þróun byggða. Sú athugun fari í gang á næstu vikum og verði lokið á kjörtímabilinu.

„Ég vil hafa áhrif á það hvernig fiskveiðistjórnunarkerfið mun líta út til framtíðar og tel mikilvægt að á því verði ekki kollsteypa, heldur verði því leyft að þróast. Ég mun því beita mér fyrir því að þeirri vinnu verði lokið á kjörtímabilinu."

Einar segir ítarlega lögfræðilega greinargerð hafa fylgt svarinu og sé það til marks um hve alvarlega íslensk stjórnvöld hafi tekið málið.
„Ég átti náið samráð við forystumenn stjórnarflokkanna og við þrjú vorum sammála um það álit sem ég sendi mannréttindanefndinni," segir Einar.- 

Þetta svar sjávarútvegsráðherra er til háborinnar skammar. Þetta er ekkert annað en kattarþvottur. Vísun í stjórnarsáttmála þess efnis,að athugað verði hvaða áhrif kvótakerfið hafi haft á dreifðar byggðir landsins leiðir í ljós,að sjávarútvegsráðherra er engin alvara með raunverulega endurskoðun og uppstokkun kvótakerfisins.Hann boðar breytingar á kerfinu en þær eru einhvers staðar inni í framtíðinni. Mér þykir ólíklegt,að mannréttindanefndin láti þessi svör duga. Ég fæ ekki séð að neitt komi fram í svarinu um að ísenska ríkið ætli að láta af mannréttindabrotum við framkvæmd kvótakerfisins.

Greinilega hefur Samfylkingin orðið undir í ríkisstjórninni í þessu máli. Svarið er í engu samræmi við álit sjávarútvegsnefndar Samfylkingarinnar.

 

Björgvin Guðmundsson



Stærsti þjóðgarður Evrópu stofnsettur á Íslandi

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðar fór fram við formlega athöfn í Skaftafelli í dag.  Að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, er um stóran áfanga í náttúruvernd á Íslandi að ræða.   Þórunn segir stofnun þjóðgarðsins hafa mikil og margvísleg áhrif og renna styrkum stoðum undir atvinnu í ferðaþjónustu í þjóðgarðinum og á öllum nærsvæðum hans.

 

 

„Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs styrkir byggð allt í kringum þjóðgarðinn og kemur Íslandi enn betur á kortið sem áhugaverðum stað fyrir erlenda ferðamenn, sem koma hingað fyrst og fremst til þess að skoða náttúruna," segir Þórunn í samtali við mbl.is

Þórunn segir stærð og fjölbreytileika þjóðgarðsins bjóða upp á ólíka kosti í útivist og ferðamennsku.

„Ég er þess fullviss að Vatnajökulsþjóðgarður, sem stærsti þjóðgarður í Evrópu og einstakur á heimsvísu, muni hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.  Þjóðgarðurinn er að sjálfsögðu tæki til þess að vernda náttúruna og stuðla að sjálfbærri nýtingu, til langs tíma litið mun þessi þjóðgarður skila gríðarmiklum tekjum í ríkiskassann í formi gjaldeyristekna," segir Þórunn, og bætir við að straumur ferðamanna aukist jafnt og þétt til landsins, og mikilvægt sé fyrir umhverfið og byggðirnar í landinu að straumi ferðamanna sé stýrt um allt landið.

Það er mikið fagnaðarefni,að Vatnajökulsþjóðgarður skuli nú hafa verið stofnsettur.Verndun náttúru Íslands er mikilvæg og nauðsynlegt er að raska ekki náttúru landsins meira en brýna nauðsyn ber til.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


mbl.is „Stór áfangi í náttúruvernd"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júní 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband