ISG: Það á að kjósa í vor

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, ætlar að beita sér fyrir því að boðað verði til alþingiskosninga í vor. Þetta kom fram í viðtali við hana í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld.

Mikill þrýstingur er innan Samfylkingarinnar á að ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk verði slitið og boðað til kosninga. Fjölmennur fundur Reykjavíkurfélags Samfylkingarinnar samþykkti í gær ályktun þess efnis að slíta ætti samstarfinu og ný stjórn mynduð fram að kosningum sem ættu að fara fram eigi síðar en í maí.

Ingibjörg sagði nauðsynlegt að starfhæf ríkisstjórn væri í landinu fram að kosningum. Ríkisstjórnin héldi enn, og muni standa saman meðan það væri hægt. Flokkarnir gætu hæglega staðið saman að tillögu um kosningar.(ruv.is)

Ég er ánægður með að Ingibjörg skuli hafa tekið af skarið með að kjósa eigi í vor. Það er krafa þjóðarinnar og Samfylkingin á að vera í takt við þjóðina.

 

Björgvin Guðmundsson


Svanfríður vill stjórnarslit

Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, hvetur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, til að íhuga stjórnarslit og skoða með opnum hug tilboð Framsóknarflokksins um að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti. Þetta kemur fram í smáskilaboði sem bæjarstjórinn sendi í misgripum á símanúmer sem er keimlíkt númeri formannsins.

Svanfríður segir afar óheppilegt að Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, tali fyrir hönd Samfylkingarinnar og vísi í samtal sitt við Ingibjörgu. Geir sagði við fréttamenn í Valhöll í gær að hann hefði rætt við Ingibjörgu og formennirnir væru ekki á því að slíta stjórnarsamstarfi flokkanna.(mbl.is)

Það er síaukinn þrýstingur  á Ingibjörgu Sólrúnu að boðað verði til kosninga strax  í vor. Það þýðir í raun,að stjórnarsamstarfi er lokið nema flokkarnir endurnýi samstarfssamning sinn að loknum kosningum.

Björgvin Guðmundsson


Alþingi ræðir efnahagskreppuna

Þingfundur hefst á Alþingi klukkan 10:30 og mun forsætisráðherra, Geir H. Haarde, gefa skýrslu um stöðu efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði. Allt virðist vera með kyrrum kjörum fyrir utan Alþingishúsið en mótmælin stóðu yfir langt fram eftir nóttu á Austurvelli. Þingfundur var felldur niður í gær en miklar truflanir urðu á störfum Alþingis á þriðjudag vegna mótmæla fyrir utan bygginguna.(mbl.is)

Þingmenn kölluðu eftir því að efnahagsmálin og efnahagskreppan yrðu rædd á alþingi og við því var orðið.Þjóðin kallar eftir betri úrræðum í efnahags-og fjármálum en sést hafa fram að þessu. Einkum er nauðsynlegt að gera strax ráðstafanir í þágu heimila og fyrirtækja í landinu.

 

Björgvin Guðmundsson 


Kvótakerfið hefur gengið sér til húðar.Kerfið felur í sér brot á mannréttindum

Það á að innkalla allar veiðiheimildir strax á  árinu 2009.Síðan á að úthluta þeim aftur eftir nýjum reglum,þannig að allir sitji við sama borð.Þar koma ýmsar aðferðir til greina. Það mætti bjóða aflaheimildirnar upp og leyfa öllum að bjóða í þær.Einnig mætti hugsa sér að  úthluta eftir ákveðnum reglum gegn gjaldi og gæta þess,að  veiðiheimildir dreifðust út um allt land,þannig að sjávarbyggðir úti á  landi yrðu ekki afskiptar og allir hefðu möguleika á að fá veiðiheimildir.Það kerfi,sem byggðist á því að nokkrir útvaldir fengju veiðiheimildirnar, gengur ekki lengur. Þetta kerfi felur í sér svo mikið misrétti,svo mikil brot á  mannréttindum,að Mannréttindanefnd Sameinuði þjóðanna hefur úrskurðað, að það feli í sér mannréttindabrot og því verði að breyta.En ríkisstjórnin hefur ekkert gert til þess að breyta kerfinu enn sem komið er. Hún hefur aðeins sent bréf til Mannréttindanefndar Sþ. og sagt,að hún muni skoða breytingar síðar.Ætlun rikisstjórnarinnar mun vera að skipa nefnd til þess að endurskoða kvótakerfið og koma með  einhverjar tillögur um breytingar. En mér vitanlega hefur þessi nefnd enn ekki verið skipuð.Seinagangur ríkisstjórnarinnar í þessu máli er slíkur, að hann leiðir í ljós,að áhugi á málinu er enginn..Þegar  Ísland er sakað um mannréttindabrot af Sameinuðu þjóðunum tekur Ísland ekki meira mark á því en svo að málinu er nánast stungið undir stól. Svarbréfið, sem Ísland sendi Mannréttindanefnd Sþ. var svo loðið að það sagði nánast ekki neitt. Og það fylgdi enginn hugur máli eins og sést best á framkvæmd málsins.Sjávarútvegsráðherra  telur greinilega, að ekkert liggi á. 

 

Björgvin Guðmundsson


"Samfylkingin getur ekki vikist undan þeirri ábyrgð að læra af reynslunni"

Skúli Helgason,framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar skrifar leiðara á heimasíðu Samfylkingarinnar.Honum farast m.a. svo orð:

Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur með skýrt umboð til breytinga á íslensku samfélagi.  Um það vitnar stefna flokksins í Evrópumálum, atvinnumálum, efnahagsmálum, velferðarmálum og málefnum sem lúta að jafnrétti og lýðræði.  Samfylkingin er í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum sem ásamt Framsóknarflokknum ber meginábyrgð á ásýnd og uppbyggingu samfélagsins á síðustu öld.  Ríkisstjórn þessara tveggja flokka var mynduð í miðju góðæri en það eru hennar örlög að standa vaktina þegar heimskreppa skellur á þjóðinni, kreppa sem án efa er dýpri fyrir tilverknað stjórnvalda, bankastjórnenda,  og auðmanna í atvinnulífinu á undanförnum árum.  Þjóðin hefur kallað eftir breytingum, á yfirstjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og á yfirstjórn stjórnmálakerfisins.  Sumir vilja ríkisstjórnina burt, margir vilja kosningar.  Það er mikilvægt að viðurkenna að þessi krafa á fullan rétt á sér.  Þjóðin hefur horft upp á kerfishrun, sem hefur afgerandi áhrif á hag heimila og fyrirtækja í landinu, en enginn hefur gengist við ábyrgð sinni með því að víkja úr vegi og rýma til fyrir nýjum einstaklingum sem geti hafið endurreisnarstarfið með hreint borð.  Stjórnmálamenningin í landinu er þrándur í götu, það tíðkast ekki að segja af sér hér á landi nema fyrir liggi lögbrot eða sannanir  um afglöp í starfi.  Og jafnvel þó ráðherrar brjóti lög hafa þeir komist upp með að sitja áfram eins og dæmin sanna.  Þetta er óeðlilegt ástand sem kallar á uppstokkun og endurmat.  Við eigum gott orð yfir þetta í íslensku, siðbót.  Siðbótar er þörf.  Það verða stjórnmálaflokkarnir að skynja ef þeir vilja ekki losna úr tengslum við þjóðina.


Samfylkingunni er vandi á höndum.  Hún getur haldið því fram, með réttu að hún beri takmarkaða ábyrgð á bankahruninu, því hún sé nýkomin til valda og flestar ef ekki allar þær forsendur innanlands sem leiddu ásamt heimskreppunni til bankahrunsins,  hafi verið lagðar af fyrri ríkisstjórn.  Gott og vel.  Um það verður ekki felldur endanlegur dómur nú.  Það er meðal annars verkefni Rannsóknanefndar Alþingis að komast að hinu sanna í þessu efni.  En Samfylkingin getur ekki vikist undan þeirri ábyrgð að læra af reynslunni, og hún þarf að taka forystu við hreinsunarstarfið framundan.

Ég tek undir orð Skúla.

 

Björgvin Guðmundsson


Mótmælin komin úr böndum.Eru ekki lengur friðsamleg

Tveir lögreglumenn eru alvarlega slasaðir eftir að hafa fengið í sig gangstéttarhellur í átökum við mótmælendur á Austurvelli í nótt. 

Táragassprengjum verið beitt til að dreifa mannfjöldanum. Er þetta í fyrsta sinn sem lögreglan beitir táragasi síðan í mótmælunum á Austurvelli fyrir 60 árum. Einn mótmælandi var fluttur á slysadeild vegna táragassins.(mbl.is)

Ljóst er,að mótmælin eru nú alveg komin úr böndunum og ekki lengur friðsamleg.Er nauðsynlegt,að' skipuleggjendur mótmælanna,Raddir fólksins, reyni að koma skipulagi á mótmælin svo þau leiði ekki til ofbeldisverka eins og þegar hefur gerst.

 

Björgvin Guðmundsson


Bloggfærslur 22. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband