Ársfundur Tryggingastofnunar: Ellilífeyrisþegar hafa það gott!

Stefán Ólafsson formaður stjórnar TR flutti erindi á ársfundi stofnunarinnar í gær.Þar reyndi hann að sýna fram á að ellilífeyrisþegar hefðu það tiltölulega gott og hefðu ekki orðið fyrir eins mikilli kjaraskerðingu í kreppunni og verkafólk.Þeir hefðu það betra en aldraðir í Evrópusambandinu.Verkafólk hefur fengið 16% kauphækkun sl. 12 mánuði en aldraðir hafa enga hækkun fengið á lífeyri sínum á því tímabili.Verðlagsupbót var höfð af þorra lífeyrisþega um áramótin 2008/2009. Þá  fengu flestir lífeyrisþegar aðeins 9,6% hækkun þegar verðbólgan hafði verið 20%.Á samningstíma sínum um kaup og kjör fær verkafólk 30% kauphækkun en ellilífeyrisþegar enga hækkun. Hvernig unnt er að fá út úr þessu að það sé verið að fara betur með ellilífeyrisþega en verkafólk skil ég ekki. Þeir sem tala þannig ættu að reyna að lifa af 155 þús. á mánuði en það er hámarkslífeyrir eldri borgara frá TR,fyrir einhleypinga,sem hafa engar tekjur aðrar en frá TR. 412 ellilífeyrisþegar fá þessa dásemd. En  þeir sem eru í sambúð eða eiga maka missa heimilisuppbótina og fara niður  í 140 þús. eftir skatt Þeir eru mikið fleiri.Það er lægri upphæð en lágmarksupphæð verkafólks,sem nú er 158 þús en sem betur fer eru fáir á þeim lægstu launum.Ráðamenn miða alltaf við þá upphæð,sem aðeins 412 ellilífeyrisþegar fá,einnig í samanburði við útlönd.En eðlilegra er að miða við þá upphæð sem ellilífeyrisþegar í hjónabandi eða sambúð fá.Sú upphæð er 140 þús. eftir skatt en 153 þús.kr. fyrir skatt. Það er til skammar að ætlast sé til þess að  eldri borgarar,sem byggt hafa upp þetta þjóðfélag lifi mannsæmandi lífi af þessari hungurlús.Það er ekki unnt.

 

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Björgvin.

Þú ferð ekki rétt með þegar þú segir mig hafa sagt að ellilífeyrisþegar hafi það gott.

Ég sýndi í erindi mínu tölur um tekjuþróun lífeyrisþega frá 2007 til maí 2010 sem sýna að kjaraskerðing lífeyrisþega er minni en hjá verkafólki á vinnumarkaði. Mikil hækkun lágmarkstryggingar lífeyrisþega 2008 og sérstaklega árið 2009 hefur að auki lyft tekjulægstu lífeyrisþegunum upp fyrir fátæktarmörk. Allt er þetta afar mikilvægt og mildar áhrif kreppunnar á kjör lífeyrisþega. Það var alls ekki sjálfgefið að þróunin yrði svona eftir hið gríðarlega fjármálahrun sem hér varð.

Ég sýndi einnig gögn um að meðaltekjur og miðtekjur lífeyrisþega sem hlutfall af heildarlaunum verkafólks hafa hækkað 2008 og 2009 (og lífeyrisþegar þar með saxað á forskot vinnandi fólks á þessum kreppuárum), en ég sýndi líka að tekjur lífeyrisþega eru þó enn lágar miðað við tekjur fullvinnandi verkafólks. Það er heldur ekki umdeilanlegt að aldraðir á Íslandi hafa það betra en aldraðir í mörgum Evrópusambandslöndum. Traust gögn liggja fyrir um það. Við eigum að fara rétt með staðreyndir og þær segja að tekist hefur að verja kjör tekjulægstu lífeyrisþega betur en almenn kjör á vinnumarkaði. Skattabreytingar hafa líka verið mildilegar fyrir flesta lífeyrisþega samanborið við tekjuhærri hópa.

Þetta þýðir þó ekki að slá eigi slöku við í kjaraþróun lífeyrisþega í framtíðinni. Sjálfur tel ég afar mikilvægt í því sambandi að frítekjumörk í almannatryggingakerfinu verði hækkuð strax þegar betur árar á alla tekjuflokka: lífeyrissjóðstekjur, fjármagnstekjur og atvinnutekjur.

Bestu kveðjur,

Stefán Ólafsson

Stefán Ólafsson (IP-tala skráð) 25.6.2010 kl. 10:56

2 Smámynd: Björgvin Guðmundsson

 Sæll Stefán!

Ég var ekki á fundinum en fékk upplýsingar frá öðrum um þitt erindi og önnur sem flutt voru þar.Mér virtist af frásögnum af fundinum,að þú hefðir verið að sýna fram á, að kjör eldri borgara hefðu batnað og væru betri en hjá ESB og að kjör eldri borgara hefðu ekki rýrnað eins mikið og kjör verkafólks í kreppunni.Það virðist rétt eftir haft en þú kveðst ekki hafa sagt,að kjör ellilífeyrisþega væru  góð.Ég biðst afsökunar á því að hafa haft það einnig eftir þér.Það breytir ekki hinu,að  menn fengu það á tilfinninguna,að erindið ætti að sýna fram,að eldri borgarar á Íslandi hefðu það tiltölulega gott.

Með kveðju

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson, 25.6.2010 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband