Ellilífeyrir:Flokksstjórn harmar framferði félagsmálaráðherra

Eftirfarandi ályktun var samþykkt í flokksstjórn Samfylkingarinnar í gær:
Flokksstjórn Samfylkingarinnar harmar þá ákvörðun stjórnvalda að ætla að frysta greiðslur til ellilífeyrisþega á næsta ári. Hinn 1. júlí á síðasta ári voru ellilífeyrisþegar sviptir hækkun á lífeyri, sem þeim bar, og hafa engar bætur komið fyrir. – Á undanförnum árum hefur það viðmið gilt, að ellilífeyrisþegar fengju sömu launahækkanir og orðið hafa á almennum launamarkaði. Á síðustu tólf mánuðum hafa almenn laun undir 220 þúsund krónum á mánuði, hækkað um 16%, en ellilífeyrisþegar hafa ekki notið þessarar hækkunar. – Þá telur flokksstjórnin fyllilega tímabært, að endurskoða þann útreikning, sem liggur til grundvallar lágmarks-framfærslutryggingar í þeim tilgangi að hækka hana þegar betur árar.
Þá hvetur flokksstjórnin til þess að reynt verði að hraða endurskoðun og einföldun almannatryggingakerfisins, sem nú er unnið að. – Einnig, að stefnt verði að því, að hækka frítekjumark við fyrstu hentugleika. Flokksstjórnin gerir sér fulla grein fyrir þeim erfiðleikum, sem við er að glíma í efnahagslífi þjóðarinnar. En á krepputímum, sem aldrei fyrr, er mikilvægt að stjórn jafnaðar og félagshyggju verji þá þjóðfélagshópa, sem við lökust kjörin búa. 
Það er ágætt,að flokksstjórn harmi framferði félagsmálaráðherra.Ef hann starfaði í þágu jafnaðarmanna og stæði vörð um kjör lífeyrisþega mundi flokksstjórn þakka honum en ekki harma aðgerðir hans.En þetta er samt ekki nóg. Það verður að koma í veg fyrir frystingu lífeyris  aldraðra og öryrkja á næsta ári og veita lífeyrisþegum kjarabætur til samræmis við  það sem launþegar hafa fengið.Það er enn ráðrúm til þess að stöðva þessar fyrirætlanir.Ríkisstjórnin hefur enn ekki samþykkt þær.
Björgvin Guðmundsson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband