Fimmtudagur, 16. september 2010
Ingibjörg Sólrún mætir á fundi þingflokksins kl.8 í kvöld
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, mun mæta á þingflokksfund Samfylkingarinnar klukkan átta í kvöld. Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, í samtali við Vísi.
Ingibjörg Sólrún var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins. Meirihluti var fyrir því í þingmannanefnd Atla Gíslasonar að ákæra hana, Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Árna Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, vegna meintra brota á lögum um ráðherraábyrgð.
Þórunn segir að vilji sé til þess hjá þingflokknum að fá fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þá Geir Haarde og Árna Mathiesen, á fund. Hins vegar hafa þeir ekki enn verið boðaðir, enda segir Þórunn að þingflokkurinn vilji ræða við einn ráðherra í einu. Björgvin G. Sigurðsson hefur afþakkað boð um að mæta á fund þingflokksins.
Þá mun þingflokkurinn funda klukkan eitt í dag með þeim sérfræðingum sem voru þingmannanefndinni til aðstoðar. Það eru þau Bryndís Hlöðversdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, dr. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Jónatan Þórmundsson lagaprófessor, Sigríður J. Friðjónsdóttir, vararíkissaksóknari og Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari.(visir.is)
Fróðlegt verður að sjá hvernig fundur Ingibjargar Sólrúnar með þingflokknum fer. Sjálfsagt mun hún þar rekja þau mál,sem haldið var frá henni á meðan hún var ráðherra. Vitað var,að það var mikil spenna milli hennar og Davíðs Oddssonar Seðlabankastjóra og fyrir bragið var lítið samstarf milli hennar og hans og af þeim sökum virðist svo sem Seðlabankinn hafi haldið vissum málum frá henni.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.