Þriðjudagur, 26. október 2010
Öryrkjar vilja 20% hækkun á lífeyri
Öryrkjabandalag Íslands skorar á ríkisstjórn Íslands að endurskoða sparnað á sviði heilbrigðismála undanfarin tvö ár. Í ályktun sem aðalfundur bandalagsins samþykkti á dögunum segir að sterkar vísbendingar séu um að nokkrar þessara aðgerða muni ekki skila tilætluðum árangri heldur aðeins rýra lífsgæði sjúklinga og öryrkja.
Þá skoraði fundurinn einnig á Alþingi að innleiða samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fyrst og gera þær breytingar á lögum sem þarf samkvæmt nefnd um innleiðingu samningsins.
Ríkur skilningur er á, að nú um stund, þurfi að gæta aðhalds í útgjöldum til heilbrigðismála. Krafa okkar er þó sú að samfélagslegur ávinningur sé meiri en kostnaður. Fundurinn leggur áherslu á að þessi endurskoðun hefjist eins fljótt og auðið er og henni verði lokið eigi síðar en 3. janúar 2011," segir í ályktuninni.
Þá segir að þær gífurlegu skerðingar sem gengið hafi yfir öryrkja frá bankahruni séu óásættanlegar. Hækka verður lífeyrisgreiðslur um 20% (kr. 36.000,-) og draga til baka þær skerðingar sem settar voru 1. júlí 2009. Taka þarf tillit til að öryrkjar, fatlað fólk og langveikir, búa oft við mikinn auka kostnað vegna fötlunar, veikinda og ferða þeirra er búa á landsbyggðinni. Skattleysismörk hækki í kr. 160.000,- og sett verði lög er koma í veg fyrir lækkun lífeyrisgreiðslna vegna víxlverkana greiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða. Hætta verður að skattleggja verðbætur eins og um sé að ræða vexti og hækka þak á frítekjumarki fjármagnstekna lífeyrisþega."
Þá er áformum um skerðingu á húsaleigubótum harðlega mótmælt þar sem húsnæðiskostnaður fylgir verðlagi á meðan lífeyrir er frystur eða skertur.
Að lokum kallar ÖBÍ eftir skilningi stjórnvalda og heildarsýn á kjörum og aðstæðum öryrkja og langveikra.(visir.is)
Kröfur öryrkja eru eðlilegar. Það er búið að skerða mikið kjör öryrkja bæði beint og óbeint.Kjörin voru skert þegar sett voru lög sem skertu kjör bæði aldraðra og öryrkja 1.júlí 2009. En síðan hafa kjörin mikið verið skert óbeint,þar eð lífeyrisþegar hafa ekki fengið verðlagsuppbætur. Raungildi lífeyris aldraðra og öryrkja hefur stöðugt minnkað. Láglaunafólk hefur fengið 32 % kauphækkun á samningstímanum frá 1.feb. 2008. Lífeyrisþegar hafa ekki fengið 1 krónu í raunhækkun hvað þá meira.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.10.2010 kl. 20:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.