Ekki unnt að stöðva söluna á HS Orku

Ásgeir Margeirsson forstjóri Magma Energy segir að auðlindirnar sem HS Orka nýtir séu nú þegar í opinberri eigu. Þá geri núgildandi lög ráð fyrir að einkafyrirtæki megi eiga orkuvinnslu. Ásgeir segir að ekki sé hægt að stöðva söluna á HS Orku, því hún sé frágengin.

Skömmu fyrir hádegi í dag höfðu ríflega 46 þúsund manns skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að stöðva söluna á HS Orku og að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um eignarhald á orkuauðlindum og nýtingu þeirra.


Ásgeir Margeirsson forstjóri Magma á Íslandi og stjórnarformaður HS Orku, segir að rætt hafi verið um ýmislegt til að breyta eignarhaldi á HS Orku, til dæmis forkauprétt ríkisins ef Maga ákveður að selja sinn hlut. Hann hafi hins vegar í sjálfu sér ekki frekar skoðun á því annað en að sölunni sé lokið þannig að hún sem slík verði ekki stöðvuð.


Ásgeir segir að allar auðlindir sem HS Orka nýtir séu nú þegar í opinberri eigu, bæði ríkis og sveitarfélaga. Eðlilegt sé hins vegar að fólk hafi skoðanir á hverjir eigi að nýta auðlindirnar. Fyrirtækið hafi lög landsins til að vinna eftir og geri það. Ásgeir segir það margprófað og reynt að einkafyrirtæki hafi heimildir til þess að reisa og reka orkuver eins og löggjöfin sé í dag. Það eigi eftir að koma í ljós hvernig henni verið breytt. Hann geti ekki tjáð sig um það, ef breytingar verði gerðar þá verði þær einfaldlega bara gerðar.


Forsvarsmenn undirskriftarsöfnunarinnar hafa lýst yfir áhyggjum af því að auðlindirnar verði hugsanlega þurrkaðar upp, eins og gerst hafi í öðrum löndum. Það segir Ásgeir að sé ekki hægt því ströng leyfi þurfi til að nýta jarðhita, auk þess sem eftirlit er með nýtingunni. Þegar fengin séu virkjanaleyfi, t.d. á jarðhita, sé ekki verið að gefa frjálst veiðileyfi á auðlindina. Það sé skilgreint með stífum hætti hvað megi gera og hvernig. Þetta sé ekki þannig að bera megi saman við að fá veiðileyfi á fisk í einu vatni og síðan verði hann veiddur allur.(ruv.is)

Samkvæmt þessu virðist undirskriftasöfnunin ekki skipta neinu máli. Hið eina sem hún gæti áorkað er að hafa áhrif á Magma. En Magma sleppir ekki HS Orku nema með frjálsu samkomulagi.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband