Raunávöxtun lífeyrissjóða eykst

Raunávöxtun lífeyrissjóðanna fer batnandi þó að margir sjóðir takist enn á við eftirmála bankahrunsins. Í árssreikningum lífeyrissjóða fyrir árið 2010, sem Fjármálaeftirlitið tók saman, kemur meðal annars fram að hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna í landinu var 2,65% samanborið við 0,34% árið áður.

Með raunávöxtun er átt við ávöxtun fjármagns umfram verðbólgu.

Á árunum 2003 til 2006 var hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna góð, hún hljóp á bilinu 10% til ríflega 13%. Árið 2007 datt hún niður í 0,5% en í ársreikningum fyrir árið 2008 fór hún langt undir mínusstrikið, niður í -22%.

Árið 2009 skreið ávöxtunin aftur rétt upp yfir núllið og nú hefur staðan semsagt batnað enn frekar og er hin hreina raunávöxtun sem fyrr segir komin upp í 2,65%.

Iðgjöld lífeyrissjóðanna hækkuðu um tæp 3% milli áranna 2009 og 2010.

Og í ársreikningum kemur einng fram að ráðstöfunarfé á árinu 2010 jókst um 11 milljarða miðað við árið áður.(ruv.is)

Þetta eru góðar fréttir en hætt er við að útkoman verði ekki  eins góð á þessu ári þar eð lífeyrissjóðirnir munu hafa tapað einhverjum peningum erlendis vegna verðfalls hlutabréfa erlendis undanfarið.

 

Björgvin Guðmundsson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Undirritaður hefur fram undir þetta verið hallur undir stuðning við þetta þriggja stoða kerfi, sem ætlað er að standa undir lífeyri til þeirra, sem annað tveggja vegna aldurs eða áfalla þurfa að vera upp á slíkt komnir til að komast af. Í fyrsta lagi sameignarsjóðir, sem eru í raun tryggingarsjóðir, þar sem greitt iðgjald gefur rétt til lífeyris, í öðru lagi sjóðssöfnun, sem er í sjálfu sér skyldusparnaður og í þriðja lagi gegnumstreymisgreiðslur frá skattkerfinu. Þetta síðasta er þá ætlað því fólki, sem vegna áfalla eða meðfæddar fötlunar getur ekki aflað sér tekna til að mynda lífeyrisrétt. Fer ekki fleiri orðum um þetta, en nú hefur komið fram á sjónarsviðið ungur hagfræðingur, sem mig minnir að heiti Ólafur Margeirsson, og hefur hann lagt fram rökstuddar efasemdir um að þetta kerfi okkar getið gengið upp. Meðal þeirra raka, sem hann tínir til, er að sú meðalávöxtun fjár sjóðanna, sem gengið er útfrá, þ.e. 3,5% sé of há til að efnahagskerfi okkar geti staðið undir henni. Annað tveggja gangi það af fjárhag almennings í rúst, ellegar verði sjóðirnir fjárvana. Með öðrum orðum; annað hvort verðum við að taka upp gegnumsstreymiskerfi að evrópskri fyrirmynd, ellegar greiða mun hærri iðgjöld og lækka ávöxtunarkröfuna. Nú er það svo, að gegnumstreymiskerfi byggja á því svo þau geti gengið upp, að skattgreiðendum fækki ekki og helst fjölgi og lífaldur lífeyrisþega hækki að meðaltali sem allra minnst og hlutfall þeirra af heildar mannfjölda aukist ekki. Í þeim ríkjum Evrópu, sem nota gegnumstreymiskerfi hefur hið gagnstæða gerst, þ.e. því fólki sem stendur undir skattkerfinu fækkar og meðallífaldur lífeyrisþega hækkar ört. Samhliða eru margar þessara þjóða með það aldurslágmark, sem gefur rétt til lífeyris, alltof lágt. Það hefur trúlega víða með það að gera, að það lækkar þann fjölda, sem ella væri á atvinnuleysisbótum. Allt eru þetta alvörumál, sem mér finnst að ekki hafi verið rædd hreinskilnislega á réttum vettvangi. Því miður fara margir í lás og rétttrúnaðarstellingar gagnvart þeim, sem halda öðru hvoru sjónarmiðinu fram. Það er miður, því þessi mál skipta alla miklu, jafnt það fólk sem enn er greiðendur inn í kerfið sem og okkur, sem erum þegar farin að taka lífeyri. Af því þú, Björgvin, hefur látið þig þessi mál skipta, þætti mér æskilegt að þú færir meira ofan í þessi mál á blogginu þínu svo við þessi svokallaði almenningur getum lagt mat á þessa hluti. Góðar kveðjur og takk fyrir pistilinn.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 25.9.2011 kl. 17:02

2 Smámynd: Björgvin Guðmundsson

Sæll Þorkell! Þakka þér fyrir athugasemdina.Ég mun fara ofan í þessi mál og láta fljótlega í mér heyra aftur.Í fljótu bragði líst mér ekki á að taka upp gegnumstreymiskerfi.

Bestu kveðjur

Björgvin

Björgvin Guðmundsson, 25.9.2011 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband