Mánudagur, 31. desember 2012
Ævisaga Svavars
Meðal bóka,sem ég fékk í jólagjöf þessi jólin, er ævisaga Svavars Gestssonar,fyrrum formanns Alþýðubandalagsins,Hreint út sagt. Þetta er þokkaleg bók,að vísu alltof langdregin og hefði að skaðlausu mátt stytta hana mikið.Svavar fer að sjálfsögðu yfir allan sinn pólitíska feril og þar á meðal fjallar hann ítarlega um þau ráðherraembætti,sem hann gegndi.Þegar hann greinir frá því, er hann fékk embætti viðskiptaráðherra 1978, en ég tók á móti honum í ráðuneytinu og " setti hann inn í það embætti", rifjast upp fyrir mér eftirfarandi: Skömmu eftir að Svavar tók við starfi viðskiptaráðherra var ég á fundi með Georg Ólafssyni verðlagsstjóra í Noregi um norræn verðlagsmál.Ég var þá skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu og starfsmaður Svavars.Meðan á fundinum í Noregi stóð fékk ég upphringingu frá Íslandi.Mér var tjáð,að í síðdegisblaði í Reykjavík hefði verið frétt um það,að Svavar viðskiptaráðherra íhugaði að minnka vinnuframlag mitt í ráðuneytinu eða senda mig í leyfi,þar eð ég hefði svo mikið að gera í borgarstjórn sem leiðtogi Alþýðuflokksins þar og formaður borgarráðs.Ekkert minntist Svavar á þetta, þegar ég kom heim og gleymdi ég þessu fljótlega og taldi, að þetta hefði verið eitthvað slúður.En þegar ég sá ævisögu Svavars, gat að líta eftirfarandi í bókinni: Björgvin Guðmundsson var reyndar ekki aðeins vararáðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu; hann var jafnframt leiðtogi Alþýðuflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur,sem var þá aðili að meirihlutanum ásamt Alþýðubandalaginu og Framsóknarflokknum. Það var afar óþægilegt fyrir mig að hafa Björgvin í þessari stöðu,því að ég hlaut að sýna honum pólitíska tillitssemi.Það var til dæmis ekki hugsanlegt,að ég lækkaði hann í tign eða ræki hann-sem hvorugt var að vísu á dagskrá-af því hann var varinn pólitískum hagsmunum,sem komu mér við af því að við stóðum saman að borgarstjórnarmeirihluta vinstri manna frá því um vorið.Þessi ummæli í bókinni staðfesta,að Svavar hefur verið að íhuga það að stugga við mér í ráðuneytinu enda þótt ekki yrði af því .Þó hann hefði haft áhuga á því, hefði það ekki tekist,þar eð ég var æviráðinn.Í bókinnni kemur fram staðfesting á því, að Alþýðubandalagið gat ekki unnt Alþýðuflokknum sannmælis.Þannig fjallar Svavar um atvinnuleysistryggingar án þess að geta um hver átti hugmyndina að þeim tryggingum en það var Emil Jónsson. Emil var formaður sáttanefndar í vinnudeilunni 1955 og þegar sú deila var komin í algeran hnút gerði Emil tillögu um að komið yrði á fót atvinnuleysistryggingum,sem atvinnurekendur og hið opinbera myndu greiða til og þessi tillaga Emils leysti deiluna. Svavar getur heldur ekki um frumkvæði Alþýðuflokksins að alþýðutryggingunum 1936 eða almannatryggingunum 1946.Í hnotskurn er það ein ástæða sundrungar alþýðuhreyfingarinnar á Íslandi,að Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið ( áður Sósialistaflokkurinn) gátu ekki unnt hvor öðrum sannmælis.Það voru stöðugar illdeilur milli þessara flokka.Sameining þeirra tókst ekki fyrr en nýir leiðtogar höfðu tekið við.
Svavar eyðir talsverðu rými í bókinni í að þvo af sér þann stimpil,að hann hafi verið útsendari Stasi,leyniþjónustu Austur-Þýskalands.Hann sýnir fram á,að Stasi hafi grunað hann um að hafa verið að vinna fyrir CIA,leyniþjónustu Bandaríkjanna!Þá fjallar hann ítarlega um Icesave málið en Svavar gerði samkomulag við Breta og Hollendinga um lausn á því máli en sú lausn fékk mjög slæma dóma.Svavar reynir að sýna fram á,að sú lausn hafi verið betri en almenningur og stjórnarandstaðan taldi.Ég tel,að Svavar hafi nokkuð til síns máls í því efni.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Facebook
Athugasemdir
Elsku pabbi!
Takk fyrir þennann góða bloggpistil sem þú skrifar um þessa bók. Það er athylisvert að sjá í pistlinum þínum, það sem Svavar skrifar um þig í bókina.
Elsku pabbi og mamma! Við Pirjo óskum ykkur gleðilegs og blessunnarríks nýár. Við vonum að allt gangi ykkur í haginn á árinu 2013, og að heilsan verði góð. Takk kærlrga fyrir samveruna á árinu sem er að líða, sérstaklega á Íslandi sl. sumar, og mjög velheppnaða stórafmæli þitt 13.9. sl. Kær kveðja, Björgvin og Pirjo
Björgvin Björgvinsson, 31.12.2012 kl. 20:13
Elsku Björgvin!
Ég þakka góðar nýárskveðjur.Ég er bjartsýnn á,að nýja árið verði gott.Við erum komnir upp úr kreppunni og nú verður léttara undir fæti en áður.
Kær kveðja,einnig til Pirjo. Pabbi
Björgvin Guðmundsson, 1.1.2013 kl. 06:54
Gaman að lesa þetta Björgvin. Hef nú ekki lesið bókina en kannski ég bæti úr því. Vona að þið hafið átt ánægjuleg jól og áramót.
Óska þér og Dædu gæfuríks árs, með þakklæti fyrir liðna árið.
Kær kveðja,
Margrét Magnúsdóttir.
Margrét Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 1.1.2013 kl. 13:37
Kæra Magga!
Þakka nýársóskir.Sendi ykkur Einari bestu óskir um gleðilegt ár og þökk fyrir liðnu ári.
kv. Björgvin
Björgvin Guðmundsson, 1.1.2013 kl. 14:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.