Ríkisstjórnin svíkur aldraða og öryrkja

Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag.Þar segir svo:

Það er nú endanlega ljóst, að ríkisstjórnin ætlar að svíkja aldraða og öryrkja um kjarabætur, sem þessir hópar eiga rétt á.Hér á ég við kjaraskerðinguna frá 1.júlí 2009, sem lofað var að yrði afturkölluð.Í athugasemdum með frumvarpinu um kjaraskerðinguna var sagt, að kjaraskerðingin væri tímabundin vegna efnahagsástandsins og þáverandi félagsmálaráðherra, sem lagði frumvarpið fram, sagði að kjaraskerðingin ætti að gilda í 3 ár.Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn sættu einnig tímabundinni kjaraskerðingu en sú kjaraskerðing var afturkölluð fyrir einu ári eða í desember 2011.Hér er því verið að mismuna þegnunum gróflega.Það er því verið að brjóta lög um málefni aldraðra en samkvæmt þeim lögum má ekki mismuna eldri borgurum.Þeir eiga að sitja við sama borð og aðrir í þjóðfélaginu.

 

Brot á umbótaáætlun Samfylkingarinnar

 

 

Ef ríkisstjórnin hefði ætlað að afturkalla umrædda kjaraskerðingu árið 2013, kosningaárið,hefði frumvarp þar um verið lagt fram fyrir 30.nóvember sl. Þá rann út frestur til þess að leggja fram frumvörp, sem átti að afgreiða fyrir áramót.Það sama gilti um breytingar á fjárlagafrumvarpinu.Ég spurði forsætisráðherra um mál þetta á fundi en hún sá enga möguleika á því að efna fyrirheitið um afturköllun á árinu 2013.Ég sagði þá, að Samfylkingin gæti ekki farið í kosningar vorið 2013 án þess að efna fyrirheitið um afturköllun kjaraskerðingarinnar áður. Það þýðir ekkert að samþykkja siðareglur og umbótaáætlun í stjórnmálum, ef ekkert er farið eftir þeim samþykktum.Samkvæmt umbótaáætlun Samfylkingarinnar á heiðarleiki að gilda í stjórnmálunum.Það er ekki heiðarleiki að svíkja gefin loforð og mismuna þegnunum gróflega.

 

Velferðarráðherra hundsar ályktanir eldri borgara

 

Sá ráðherra,sem ber höfuðábyrgð á því, að ekki er staðið við afturköllun kjaraskerðingarinnar frá 2009 er velferðarráðherra.Það er búið að senda honum fjölmargar ályktanir frá samtökum eldri borgara, þar sem þess hefur verið krafist, að kjaraskerðingin frá 2009 verði afturkölluð.Bæði kjaramálanefnd Landssambands eldri borgara og kjaranefnd Félags eldri borgara hafa samþykkt slíkar ályktanir.En ráðherrann hefur ekkert gert með þessar ályktanir.Þær hafa lent í salti í ráðuneytinu.Þegar ráðherrar hafa verið spurðir um þetta mál á undanförnum mánuðum hafa þeir gjarnan svarað, að það væri verið að endurskoða lög um almannatryggingar eins og sú endurskoðun ætti að koma í stað afturköllunar kjaraskerðingarinnar frá 2009.Með þeirri afstöðu er öldruðum og öryrkjum sýnd alger óvirðing.Aldraðir og öryrkjar eiga rétt á afturköllun kjaraskerðingarinnar frá 2009 rétt eins og ráðherrar og alþingismenn, sem fengu afturköllun á þeirri kjaraskerðingu,sem þeir urðu fyrir.Endurskoðun almannatrygginga kemur ekki í stað þeirrar leiðréttingar.En auk þess hefur ekki verið staðið við að leggja fram frumvarp um endurskoðun TR fyrir áramót eins og lofað hafði verið.Aldraðir og öryrkjar eiga rétt á 20-30% hækkun lífeyris vegna kjaraskerðingar og kjaragliðnunar á stjórnartíma ríkisstjórnarinnar.Á tímabilinu 2009-2012 hækkuðu laun (láglaunafólks) mikið meira en lífeyrir aldraðra og öryrkja.Til þess að jafna metin þarf að hækka lífeyri um 20-30 %.

 

Klipið af hækkun um áramót í þriðja sinn

 

ASÍ telur, að aldraðir og öryrkja eigi rétt á 11.000 króna hækkun lífeyris um áramótin 2012/2013 en ríkisstjórnin ætlar aðeins að hækka lífeyrinn um rúmlega helming þessarar upphæðar. Ríkisstjórnin ætlar því í viðbót við annað að klípa af lögmætri hækkun lífeyris um áramót.Er það í samræmi við framgöngu ríkisstjórnarinnar áður gagnvart lífeyrisþegum en ríkisstjórnin kleip af bótum aldraðra og öryrkja strax við gildistöku nýrra kjarasamninga 2011 og aftur um áramótin 2011/2012. Það er hoggið aftur og aftur í sama knérunn.

 

 

Björgvin Guðmundsson

 

www.gudmundsson.net


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég get tekiðundir það sem þú fjallar um pisli þínum.Ég er 75 ára og er alveg kjaft stopp yfir þessum vinnubrögðum ríkistjórnarinnar. Ég er flokksbundinn í Samfylkingunni og konan mín sem er 72 ára er líka í SF.Að skerða lífeyririnn 2009 um 20 til 30% og lofa leiðrétta skerðinguna að þrem árum liðnum svíkja það án þess blikna er með því ósvífnasta sem maður hefur upplifað. Hvaða rugl er þetta í velferðastjórninni ekki gert ráð fyrir leiréttingu til aldraða og öryrkja? Ætlast velferðarstjórnin til þess að Íhaldið leiðréttið klúðrið? Ef þetta gengur eftir eins og lagt er til þá segi ég skilið við Samfylkinguna og fleiri gæut fylgt á eftir. Eitt er alveg  öruggt að Guðbjartur Hannesson fær ekki atkvæði okkar í formanskjörinu. 

Elías Bjönsson (IP-tala skráð) 11.1.2013 kl. 19:08

2 Smámynd: Björgvin Guðmundsson

Sæll Elías!

Já,það er forkastanlegt,að ríkisstjórnin skuli koma svona fram við aldraða og öryrkja.Stjórninni ber skylda til þess að afturkalla kjaraskerðinguna  frá 1.júlí 2009 og það strax. Þessar ráðstafanir áttu að gilda að hámarki í 3 ár en það eru komin 3 1/2 ár.Auk þess þarf að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja vegna frystingar á lífeyri þessara hópa 2009-2012.Velferðarráðherra,Guðbjarti Hannessyniu ber skylda til þess að leiðrétta kjör lífeyrisþega strax.Það er ekki nóg að leiðrétta kjör ráðherra,þingmanna og embættismanna eins og gert hefur verið fyrir rúmu ári.

Með bestu kveðju

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson, 12.1.2013 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband