Laugardagur, 20. apríl 2013
Alþingi brást öldruðum og öryrkjum
Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag um málefni aldraðra og öryrkja.Þar segir svo
:
Alþingi hefur lokið störfum á þessu kjörtímabili. Þinglok voru ekki þrautalaus frekar en fyrri daginn.Eins og alltaf við lok þings var samið um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu hvaða mál ættu að fara í gegn og hvaða mál ættu að bíða.Nokkur stór mál bíða eins og kvótamálið, frumvarp um almannatryggingar og ný stjórnarskrá.Frumvarp um kísilmálmverksmiðju við Bakka fór í gegn, svo og frumvarp um nýjan Landspítala, náttúruverndarlög,neytendalög o.fl.Frumvarp Hreyfingarinnar um afturköllun kjaraskerðingar aldraðra og öryrkja frá 2009 var ekki afgreitt. Forgangsröðun stjórnarflokkanna er skrítin.Stærstu mál stjórnarinnar kvótamálið og ný stjórnarskrá voru sett í bið svo og almannatryggingar, sem að vísu komu seint fram.Kvótamálið var stærsta málið fyrir síðustu kosningar.Maður hefði haldið, að stjórnarflokkarnir settu það í algeran forgang.Undarlegt er það einnig, að almannatryggingarnar skuli lenda í undandrætti. Þegar Alþýðuflokkurinn var starfandi og var í ríkisstjórn voru almannatryggingarnar alltaf efstar á blaði hjá flokknum. Alþýðuflokkurinn hefði aldrei samþykkt að fresta afgreiðslu þeirra til þess að það yrði upp á von og óvon, hvort málið yrði afgreitt síðar eða ekki.
Hörmulegt hvernig fór með stjórnarskrána
Ekki er ég sáttur við það hvernig fór með stjórnarskrána.Það var búið að leggja gífurlega vinnu í það mál, með 1000 manna þjóðfundi, með störfum stjórnlagaráðs, með frábæru starfi stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar alþingis og almennu starfi alþingis.Stjórnarandstaðan barðist gegn nýrri stjórnarskrá allt kjörtímabilið.Stjórnarandstöðuflokkarnir voru á móti nýrri stjórnarskrá af því að þeir voru ekki sjálfir í fyrirsvari fyrir undirbúningi hennar.Og raunar er það sama að segja um fræðasamfélagið. Það var áhugalaust og andvígt nýrri stjórnarskrá af því að það var þjóðin sjálf, sem var að vinna að stjórnarskránni en ekki fyrst og fremst fræðimenn háskólanna.Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn höfðu barist gegn stjórnarskránni allt kjörtímabilið og tafið og torveldað afgreiðslu hennar var ef til vill ekkert annað í spilunum en að gera það kleift að frumvarp að nýrri stjórnarskrá yrði fullafgreitt á næsta alþingi.Ég hefði þó vel talið koma til greina að keyra frumvarp að nýrri stjórnarskrá í atkvæðagreiðslu fyrir þinglok og afgreiða málið þó mikill ágreiningur yrði um það. Það á ekki að láta undan yfirgangi óbilgjarnrar stjórnarandstöðu.
Þing og ríkisstjórn brugðust öldruðum
Það urðu mér mikil vonbrigði, að þingið skyldi ekki samþykkja að afturkalla kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja frá 2009.Kjaranefnd Félags eldri borgara ákvað sl. haust að snúa sér til alþingis og ræða við formenn allra þingflokka eftir að ljóst var, að ríkisstjórnin ætlaði ekki að afturkalla kjaraskerðinguna frá 1.júlí 2009 enda þótt sú kjaraskerðing hefði verið tímabundin samkvæmt því, sem tilgreint var í lagafrumvarpinu.Undirtektir formanna þingflokka Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins voru mjög góðar.Hið sama er að segja um undirtektir formanns þingflokks Hreyfingarinnar og formannns Bjartarar framtíðar.Margrét Tryggvadóttir formaður þingflokks Hreyfingarinnar tjáði okkur strax, að Hreyfingin mundi flytja frumvarp um afturköllun kjaraskerðingarinnar frá 2009 og við það stóð hún. Frumvarpið var flutt og Margrét fylgdi því úr hlaði.Miðað við undirtektir í þinginu átti að vera þingmeirihluti fyrir frumvarpinu.Bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn töluðu um að flytja sérstök frumvörp um sama efni, þ.e. afturköllun allrar kjaraskerðingarinnar frá 2009 .En það var ekki gert. Hins vegar flutti Ólöf Nordal þingmaður Sjálfstæðisflokksins frumvarp um afturköllun á hluta kjaraskerðingarinnar frá 2009, þ.e. að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað á ný úr 40 þús. kr.á mánuði í 110 þús. kr. á mánuði.Það var gott svo langt sem það náði.En þingið í heild brást öldruðum og öryrkjum rétt eins og ríkisstjórnin.
Kemur ekki í stað afturköllunar kjaraskerðingar
Ríkisstjórnin vísaði alltaf í það, að fram mundi koma frumvarp um endurskoðun almannatrygginga, sem taka ætti gildi 1.janúar 2013. En það stóðst ekki.Frumvarpið var lagt það seint fram, að það var ekki samþykkt fyrir þinglok.Er nú allt í óvissu um það hver afdrif frumvarpsins verða.En ég legg áherslu á það, að endurskoðun almannatrygginga kemur ekki í stað afturköllunar kjaraskerðingarinnar frá 2009. Það felast meiri kjarabætur fyrir lífeyrisþega í þeirri afturköllun en fást fyrstu 3 árin vegna nýrra laga um almannatryggingar verði þau lögfest.Kjaraskerðingin vegna laganna frá 1.júlí 2009 nemur í ár 17 milljörðum kr. en ný lög um almannatryggingar færa lífeyrisþegum aðeins 2 milljarða fyrstu 3 árin.Það er aðeins lítið brot kjaraskerðingarinnar.Það verður að standa við afturköllun kjaraskerðingarinnar frá 2009. Ef ríkisstjórnin getur það ekki verður nýtt þing að gera það.Það þarf einnig að bæta lífeyrisþegum kjaragliðnunina sl. 4 ár.Lífeyrir hækkaði þá miklu minna en lægstu laun.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Elsku pabbi! Til hamingju með birtingu greinarinnar þinnar í Morgunblaðinu í dag. Enn á ný kemur fram hvesu frábæra yfirsýn þú hefur á íslenskum stjórnmálum, mjög mikla þekkingu og reynslu á öllum mikilvægustu málefnunum. Takk fyrir mjög sterkt innlegg þitt í íslenska stjórnmálaumrædu, og kraftmikla og ötula baráttu fyrir kjörum aldraðra og öryrkja.
Kær kveðja frá Finnlandi, Björgvin
Björgvin Björgvinsson, 20.4.2013 kl. 08:13
Takk fyrir góðan pistil Björgvin.
Alveg er það makalaust að ríkisstjórn sem hefur kallað sjálfa sig "norræna velferðarstjórn" skuli hafa níðst á öldruðum og öryrkjum. Það hefur aldrei þótt til fyrirmyndar að sparka í liggjandi fólk...
Það á ekki að refsa eldri borgurum...
Ágúst H Bjarnason, 20.4.2013 kl. 09:42
Elsku Björgvin! Takk fyrir góða athugasemd.Ég held baráttunni áfram.
Kær kveðja
pabbi
Björgvin Guðmundsson, 20.4.2013 kl. 09:42
Sæll Ágúst!
Já það er slæmt en alþingi brást einnig.
Bestu kveðjur
Björgvin
Björgvin Guðmundsson, 20.4.2013 kl. 12:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.