Föstudagur, 18. október 2013
Eðlilegast að bjóða upp aflaheimildirnar
Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari birtir greinargerð í Mbl. í dag um álagningu veiðigjalda.Tilefnið er það,að einhver útgerðarmaður íhugar að fara í mál við ríkið til þess að fá veiðigjaldinu hnekkt.Jón Steinar heldur því fram,að veiðiheimildirnar séu lögvarin eign úgerðarmanna og njóti verndar stjórnarskrárinnar.Það stenst ekki þar eð í lögum um stjórn fiskveiða segir,að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar.En útgerðarmönnum hefur ekki nægt að hafa í upphafi fengið veiðiheimildirnar fríar heldur hafa þeir einnig leigt þær út eins og þeir ættu þær,þó þeir hafi haft þær á leigu, og nú vilja þeir slá eign sinni á þær og neita að greiða afnotagjald fyrir afnot auðlindarinnar með aðstoð hægri manna eins og Jón Steinars.Þjóðin á auðlindina og þeir sem fá afnot af henni verða að greiða fyrir afnotaréttinn.Eðlilegast væri að veiðiheimildirnar færu á uppboðsmarkað.Þá mundi markaðurinn ákveða leiguverðið og útgerðin ekki greiða meira fyrir afnotin en hún réði við.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Verð að gera smá athugasemd við þetta Björgvin.Útgerðamenn greiða fyrir kvótann(aflaheimildirnar) í dag.Í upphafi fengu gamlir útgerðarmenn kvóta eftir veiðireynslu en hafa allir selt þann kvóta til annarra(yngri manna).Þessar aflaheimildir eru seldar eftir markaðsverði,rétt eins og þú ert að leggja til.Þetta eru ósköp eðlileg viðskipti.Framseljanlegur kvóti og leiga gerir það að verkum að menn geta betur hagrætt rekstrinum og er ein aðalástæðan fyrir því að útgerin stendur vel í dag.Hún er hins vegar í alþjóðlegri samkeppni og veiðigjöld eru ekki við lýði í samkeppnislöndum.Mér finnst nóg að útgerðarmenn borgi fyrir aflaheimildirnar en séu ekki að borga auka skatt umfram það sem aðrir eru að greiða.
Jósef Smári Ásmundsson, 18.10.2013 kl. 07:22
Björgvin, það yrði ekki hagkvæmt fyrir þjóðina til lengdar ef útgerðin færi að bítast um aflaheimildirnar, útgerðarmennirnir vissu þá ekki um áramótin hvort þeir væru með kvóta sem dygðu út árið og eins gætu þeir lent í því að vera bara með kvóta í einni fisktegund en of lítið í öðrum, þá er hætta á brottkasti. Eins er hætta á að aflaheimildir myndu smá samann lenda á fárra höndum þar sem þeir sem yrðu undir í baráttunni í uppboðinu færu á hausinn og nýliðun í greininni yrði algjörlega úr sögunni.
Einfaldasta lausnin á þessum auðlindagreiðslum til þjóðarinnar er að selja allan afla í gegnum fiskmarkaði, bæði frosinn og ferskann, þar yrði innheimt td. 3-5% gjald ( 3-5% raunvextir tel ég vera eðlilegir vextir). Með þessari aðferð myndast möguleiki fyrir alla að bjóða í fisk og vinna og/eða selja áfram erlendis ef það yrði hagkvæmara. Útgerðir með vinnslu yrðu þá að kaupa aftur til sín aflann á markaðsverði og geta þeir þar með staðið við afhendingaröryggi við sína kaupendur. Verð landaðs afla og gjöld af honum verða þá upp á yfirborðinu og verðmyndun auðlindarskattsins verður til strax á hafnarbakkanum, en ekki 2-3 ára eftirá skattur sem fyrirtækin þurfa að glíma við í kannski allt öðru rekstrar umhverfi.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 18.10.2013 kl. 11:30
Sæll Hallgrímur Hrafn! Ég er sammála þér um það, að æskilegt er að selja allan afla gegnum fiskmarkað.En það útilokar ekki,að aflaheimildirnar séu boðnar upp á uppboðsmarkaði.Það hafa margir vísir menn lagt til,að sú leið verði farin,t.d. Gylfi Þ.Gíslason ráðherra og prófessor og Jón Steinsson hagfræðingur.Það er að vísu rétt hjá þér,að viss hætta er á,að þeir sterkustu mundu sölsa of mikið af aflaheimildum til sín.En það mætti koma í veg fyrir það með því að setja reglur um það,að enginn mætti kaupa meira en ákveðið magn aflaheimilda.Auk þess mætti hafa lítinn hluta aflaheimilda utan uppboðsmarkaðar, fyrir byggðakvóta o.fl. á landsbyggðinni.Ég held,að uppboðsleiðin sé besta leiðin.
Með kveðju
Björgvin Guðmundsson
Sæll Jósef Smári!
Það er ekki unnt að segja,að útgerðarmenn séu að greiða fyrir afnot af auðlindinni,þegar þeir kaupa kvóta.Að mínu mati eru þessi kvótaviðskipti óeðlileg,þar eð útgerðarmenn eru að versla með gæði,sem þeir eiga ekki.Þjóðin á sjávarauðlindina.Útgerðarmenn hafa afnot af henni,hafa hana á leigu og menn geta yfirleitt ekki selt það, sem þeir hafa á leigu.Þú segir,að útgerðarmenn,sem fengu kvóta (fría) eftir veiðireynslu hafi allir selt þann kvóta til annarra. Það er sjálfsagt rétt.En er það ekki óeðlilegt,að þeir sem fengu veiðiheimildirnar fríar á leigu skuli hafa selt það,sem þeir áttu ekki.Veiðigjöld tíðkast sums staðar erlendis, t.d í Barentshafi þar sem þau eru hærri en hér.Íslensk útgerðarfyrirtæki greiða veiðigjöld með glöðu geði í Barentshafi en blóta og ragna yfir veiðigjöldum hér!
Með bestu kveðju
Björgvin
Björgvin Guðmundsson, 18.10.2013 kl. 14:08
Jú,að sjálfsögðu eru útgerðarmenn að greiða fyrir afnotin.Þeir borga fyrir þau með því að kaupa kvótann.Og þetta er eign þar sem allt sem þú kaupir,það áttu.En þeir eiga ekki landhelgina eða auðlindina.Það er enginn að halda því fram.Þeir eiga réttinn til að veiða.Framsal og leiga er tæki til hagræðingar í greininni og auðveldar stefnumörkun sem hefur skilað atvinnugreininni miklu á undanförnum árum.Ég lít ekki á kvótakerfið sem einhver trúarbrögð en finnst varhugavert að breyta þar til við finnum annað betra kerfi.En það er vandfundið.
Jósef Smári Ásmundsson, 20.10.2013 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.