Laugardagur, 1. mars 2014
Fylgi Sjálfstæðisflokks hríðfellur!
Svo virðist nú sem fylgi stjórnarflokkanna hríðfalli vegna ESB málsins.Samkvæmt skoðanakönnun Gallups,sm birt var í gær er fylgi Sjálfstæðisflokksins í síðustu viku febrúar 19% en fylgi Framsóknar 13%.Fylgi beggja stjórnarflokkanna hefur hríðfallið og Framsókn er komin í sitt gamla kjörfylgi sem hún hafði áður en hún gaf öll hin stóru kosningaloforð.Fólki misbýður,að flokkarnir skuli báðir ætla að svíkja kosningaloforð sín um að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB viðræðna.
Ef miðað er við fylgi flokkanna allan febrúar mánuð er Sjálfstæðisflokkur með 24%,Framsókn með 15%,Samfylking með 17% og Björt framtíð með 16%.En eftir að utanríkisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu sína um að slíta viðræðum við ESB hríðféll fylgi stjórnarflokkanna. Yfir 40 þús. manns hafa nú skrifað undir áskorun á þingið um að falla frá afturköllun á aðildarumsókn Íslands að ESB.
Það, sem er hættulegast við tillögu ríkisstjórnarinnar er það , að tillagan lokar á nýjar viðræður við ESB um langa framtíð, kannski 15-20 ár.Ef hér kemur ný ríkisstjórn,sem vill hefja aftur viðræður við ESB þarf að leggja það fyrir öll 28 aðildarríki ESB og það er ekki víst,að þau myndu öll samþykkja það, hafandi í huga að Ísland væri eina ríkið, sem hefði slitið viðræðum í miðjum klíðum. Það hefur aldrei gerst áður.Það er þess vegna mikið skynsamlegra fyrir Ísland að gera langt hlé á viðræðunum, t.d. allt kjörtímabilið.Þá er unnt að taka viðræður upp aftur fyrirvaralaust.Við megum heldur ekki loka dyrum að þeim möguleika að taka upp evru síðar eða að tengja krónuna við evru.Við gætum þurft á því að halda.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:01 | Facebook
Athugasemdir
Það er svo rakalaust bull að afturköllun umsóknar tefjí ESB aðildarumsókn. Ef eitthvað er, þá greiðir það fyrir endurreisninni og hjálpar í öðrum samningum um örlög þessarar þjóðar, svo við verðum hæfari þarna inn en ella ef svo verður ákveðið.
Mundu að við verðum að uppfylla Maastricht skilyrðin áður en gengið er þar inn. Með þessu áframhaldi þá verða þau seint uppfyllt er það ekkí?
Það var ranglega stofnað til þessa ferlis og þjóðin ekki höfð með í ráðum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að leiðrétta þá nauðgun lýðræðishefða.
Enn hefur þjóðin ekki verið spurð.
Jón Steinar Ragnarsson, 1.3.2014 kl. 13:36
Sæll Jón Steinar!Þú ert á villigötum í málflutningi um ESB. Vissulega tefur afturköllum umsóknar hugsanlega aðild að ESB. Ef við afturköllum umsóknina getur það tekið 15-20 ár að komast í samningaviðræður við ESB á ný eins og ég sagði í bloggfærslu minni. Það er alvarlegt mál að slíta viðræðum við ESB með afturköllun umsóknar.Ekkert ríki hefur gert slíkt.Ef við gerum hlé á viðræðum getum við hvenær sem er hafið þær á ný án fyrirvara. En ef við slítum þeim og biðjum um nýjar viðræður seinna er ekkert víst,að öll 28 aðildarríki ESB samþykki að hefja viðræður við okkur á ný.Það er ókurteisi að slíta viðræðum án þess að viðræður strandi á einhverjum ágreiningsmálum.
Við þurfum ekki að uppfylla Maastricht skilyrðin nema við göngum í myntbandalagið til þess að taka upp evru. Danir og Svíar eru eru í ESB en ekki í myntbandalaginu.Við gætum haft það eins fyrst um sinn.Það var ekki ranglega stofnað til aðildarumsóknar að ESB.Það var samþykkt í lýðræðislegri kosningu á alþingi. Við gengum í NATO,OECD,EFTA,Evrópska efnahagssvæðið og Sameinuðu þjóðirnar án þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu áður. Það hefur ekkert ríki haft þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort efna ætti til aðildarviðræðna við ESB. Þú hefur látið áróður Sjálfstæðisflokksins um, að þjóðaratkvæði hefði átt að ráða umsókn að ESB,ná tökum á þér. En þrátt fyrir þennan áróður Sjálfstæðisflokksins hefur sá flokkur aldrei beitt sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ganga ætti í alþjóðasamtök eins og t.d. NATO eða EES.-Það getur orðið þjóðinni mjög dýrt, ef við afturköllum umsóknina. Athugaðu,að afkomendur okkar vilja ef til vill að Ísland gangi í ESB svo þeir hafi sömu möguleika og aðrir í Evrópu.Við skulum ekki loka þessum dyrum á börnin okkar og afkomendur.Hugsaðu málið upp á nýtt. Það er miklu skynsamlegra að gera hlé á viðræðunum.
Með bestu kveðju
Björgvin Guðmundsson
Björgvin Guðmundsson, 1.3.2014 kl. 14:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.