Mánudagur, 23. apríl 2007
Íhaldið ber ábyrgð á misskiptingunni í þjóðfélaginu
Á valdatímabili Sjálfstæðisflokksins hefur misskipting og ójöfnuður í íslensku þjóðfélagi stóraukist.Þetta hefur gerst vegna ranglátrar skattastefnu og vegna kvótakerfisins, sem fært hefur gífurlega fjármuni til í þjóðfélaginu,þannig, að þeir sem fengu kvótana gefins eru orðnir auðmenn á kostnað fjöldans og byggðir landsins eru sem sviðin jörð eftir kvótagreifana sem hafa farið með kvótana frá sjávarbyggðunum út um allt land.Skattastefna Sjálfstæðisflokksins hefur lækkað skatta á hinum efnameiri en hækkað þá á láglaunafólki. Þeir lægst launuðu og þar á meðal aldraðir, sem ekki greiddu neina skatta áður, verða nú að greiða verulega skatta. Ríkisstjórnin undir forustu Sjálfstæðisflokksins hefur haft tugi milljarða af almenningi með því að láta skattleysismörkin ekki hækka í samræmi við launavísitölu. Ef skattleysismörkin hefðu hækkað í samræmi við hækkun launa væru þau í dag rúmar 140 þúsund krónur á mánuði en þau eru aðeins 90 þúsund á mánuði.Þetta hefur verið sérstaklega íþyngjandi fyrir aldraðra og öryrkja. Aldraðir hafa orðið fyrir barðinu á stefnu íhaldsins bæði vegna ranglátrar skattastefnu og vegna þess,að bætur almannatrygginga hafa ekki fylgt launaþróun eins og lofað var 1995. Fyrir 1995 hækkaði lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum sjálfvirkt þegar lægstu laun hækkuðu. Þegar skorið var á þessi sjálfvirku tengsl 1995 lofaði forsætisráðherra íhaldsins því, að þessi breyting mundi ekki rýra kjör aldraðra. Það yrði framvegis bæði miðað við hækkun launa og verðlags. En þetta var svikið. Lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum hefur setið eftir þegar laun verkafólks hafa hækkað. Af þessum sökum hefur ríkisstjórnin haft um 40 milljarða af öldrum sl. 12 ár. Það er krafa eldri borgara að þeir fái til baka það sem haft hefur verið af þeim. Á sama tíma og íhaldið hefur stóraukið misskiptinguna í þjóðfélaginu hefur misbeiting valds og valdníðsla einnig stóraukist. Vinir og vandamenn hafa verið skipaðir í æðstu embætti eins og í hæstarétt og stjórnsýslulög og jafnréttislög brotin við þær embættaveitingar. Stærsta valdníðslan var þó þegar ráðherar íhalds og Framsóknar ákváðu upp á sitt eindæmi að styðja innrás í Írak án þess að leggja það mál fyrir alþingi eða ríkisstjórn. Aldrei mun önnur eins valdníðsla og misbeiting valds hafa átt sér stað. Tveir menn breyttu utanríkisstefnu Íslands upp á sitt eindæmi og létu Ísland styðja árás á annað ríki. Það er kominn tími til þess að refsa stjórnarflokkurnum fyrir þetta athæfi.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:28 | Facebook
Athugasemdir
Hvort er meira sannfærandi: Tölur á stangli smurðar fullyrðingum um hverjum er um að kenna, eða aðeins vandaðri úttekt sem styðst við og vísar í opinber gögn?
http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/167264/
Geir Ágústsson, 23.4.2007 kl. 09:10
Tölur þær,sem ég birti í framangreindum pistli mínum, eru byggðar á upplýsingum frá opinberum aðilum. Þeir sem hafa farið með völd í landinu sl. 12 ár bera ábyrgðina á skattahækkunum, skertum tryggingabótum og framkvæmd hins rangláta kvótakerfis.
Björgvin Guðmundsson, 23.4.2007 kl. 09:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.