Miðvikudagur, 16. mars 2016
Ástandið á hjúkrunarheimilum landsins óviðunandi!
Ólína K.Þorvarðardóttir þingmaður Samfylkingar gerði hjúkrunarheimili eldri borgara og annarra að umtalsefni í fyrradag.Hún sagði,að heimilin byggju við mikinn fjárskort;faglært hjúkrunarfólk skorti til starfa.Vöntun á starfsfólki yfirleitt stendur rekstri hjúkrunarheimilanna fyrir þrifum.Ólína sagði,að 1 1/2 milljarð vantaði til reksturs hjúkrunarheimilanna.
Það kom fram í máli þingmannsins,að landlæknir á að gera reglulega úttektir á hjúkrunarheimilunum.Hann gerði 16 slíkar úttektir 2012 en sl. ár voru aðeins gerðar 3 úttektir!
Það er umhugsunarefni,að þegar fjárhagsstaða hjúkrunarheimilanna versnar,þá skuli úttektum landlæknis fækka. Það ætti að vera þveröfugt. Vegna slæmrar fjárhagsstöðu er meiri hætta en ella á,að mistök verði og eitthvað fari úrskeiðis.Þess vegna ætti að fjölga úttektum þegar um fjárhagserfiðleika er að ræða í rekstrinum.Þess verður að vænta, að landlæknir taki sig á í þessu efni.
Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júliusson, tók undir,að mikill fjárhagsvandi væri á hjúkrunarheimilunum og rekstrarhalli.Hann kvaðst ekki vita hvort það vantaði 1 milljarð, 1 1/2 eða 2 milljarða. Svo ekki fylgist hann mikið með. En það sem verra er: Hann ræddi ekkert um hvernig hann ætlaði að leysa fjárhagsvanda heimilanna og hvort hann ætlaði að reyna það.Það er ekki nóg að tala stöðugt um mikinn fjárhagsvanda hjúkrunarheimila.Það þarf að gera eitthvað i málinu. Það þarf að leysa vandann.
Ólína spurði ráðherra hversu oft sl. 10 ár hefði orðið að gera ráðstafanir (inngrip) vegna þess,að eitthvað hefði farið úrskeiðis á heimilunum. Ráðherra svaraði því ekki. Hann fór eins og köttur í kringum heitan graut í kringum þá spurningu og ræddi önnur mál eins og þau að landlæknir gæti gripið í taumana og gert ráðstafanir en sagði ekkert um það hvort eitthvað hefði verið gert í því efni. Það var eins með þetta og fjármálin.Ráðherra virtist ekkert vita hvort eitthvað hefði verið að og enn síður hvort um einhver inngrip hefði verið að ræða.
Það er alvarlegt mál,að hjúkrunarheimilin skuli rekin með miklum halla ár eftir ár,þau geti ekki ráðið nægilega margt faglært fólk og hætta sköpuð á, að eitthvað alvarlegt fari úrskeiðis.En á meðan situr ríkisstjórnin og heilbrigðisráðherra með hendur í skauti. Hún lækkar veiðigjöldin,afnemur orkuskatt og auðlegðarskatt og lækkar fleiri skatta í stað þess að nota þessa fjármuni til þess að leggja hjúkrunarheimilunum til nægilegt fjármagn eins og tilskilið er og hækka lífeyri aldraðra og öryrkja svo þeir,sem verst eru staddir, geti lifað af lífeyrinum.
Björgvin Guðmundsson
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.