Laugardagur, 23. mars 2019
Afnema á skerðingu lífeyris hjá TR vegna lífeyrissjóða
Í síðustu grein minni um málefni aldraðra í Mbl fjallaði ég um þá eldri borgara, sem hafa verst kjör, hafa lífeyri frá almannatyggingum ( strípaðan lífeyri ) og ekki aðrar tekjur.Ég tel brýnast að bæta kjör þessa hóps;hann hefur ekki nóg fyrir framfærslukostnaði.Ég leiddi rök að því, að það væri tiltölulega ódýrt að leysa vanda þessa hóps og það ætti að gera það strax.Í þessari grein tek ég aðallega til meðferðar þá eldri borgara, sem hafa lífeyrissjóð og ef til vill einhverjar aðrar tekjur einnig.Flestir halda, að þeir sem greitt hafa í lífeyrissjóð alla sína starfsævi, eigi áhyggjulaust ævikvöld.Svo einfalt er það ekki. Þeir þurfa margir að hafa áhyggjur af fjármálum sínum þrátt fyrir greiðslur í lífeyrissjóði alla sína starfsævi!
Í fyrsta lagi er það svo, að lífeyrissjóðirnir eru mjög misjafnir,missterkir.Ófaglærðir verkamenn fá mjög lítinn lífeyri úr lífeyrissjóði og það sama á raunar einnig við um marga faglærða starfsmenn, t.d suma iðnaðarmenn.Margir fyrrnefndra lífeyrissjóða greiða ekki nema 50-100 þúsund kr á mánuði til umræddra launþega.Það er lítið eftir starfsævina.Þeir, sem fá ekki meira úr lífeyrissjóði, eru lítið betur settir en þeir, ,sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð.Ástæða þess er sú, að ríkið skerðir lífeyri þessara eldri borgara hjá almannatryggingum vegna þess að þeir fá lífeyri úr lífeyrissjóði.Einnig er þessi lífeyrir skattlagður.Þetta er ígildi eignaupptöku.Þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir var launþegum sagt, að lífeyrissjóðirnir yrðu hrein viðbót við almannatryggingar. Alþýðusamband Íslands gaf yfirlýsingu 1969, þar sem hið sama var fullyrt.Í trausti þessa fóru launamenn að greiða í lífeyrissjóðina og töldu, að þeir myndu njóta alls síns lífeyris, þegar þeir kæmust á eftirlaun. En það var nú öðru nær.Eldri borgarar,sjóðfélagar, hafa verið sviknir.Þeir fá ekki að njóta lífeyris síns að fullu.
Lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna eru með ríkisstryggingu.Þeir eru yfirleitt sterkari en sjóðirnir á almennum markaði. Í bankahruninu urðu margir lífeyrissjóðir á frjálsum markaði fyrir áföllum (töpum). Þessu var velt yfir á sjóðfélaga.Slíkum áföllum , sem lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna urðu fyrir, var hins vegar ekki velt yfir á sjóðfélaga. Auk þess hefur að sjálfsögu verið greitt misjafnlega mikið í lífeyrissjóðina eftir því hvað sjóðfélagar hafa haft mikið í laun.-ægja sjóðfélaga í lífeyrissjóðum vegna skerðinganna, sem þeir sæta, hefur verið að magnast undanfarin ár.Nú er svo komið, að alvarleg hætta er á, að launþegar, sjóðfélagar, neiti að greiða í lífeyrissjóð, ef skerðingum verður ekki hætt. FEB í Rvk undirbýr málsókn á hendur ríkinu vegna skerðinganna. Ég er eindregið fylgjandi því, að það verði gert.En það þarf að undirbúa mál mjög vel.Ég vann að undirbúningi málsóknar, þegar ég var formaður kjaranefndar FEB í Rvk og hafði þá tvo lögfræðinga mér til aðstoðar.Þeir lögðu mikla áherslu á vandaðan undirbúning málsóknar.
En skerðingarnar,sem eldri borgarar sæta hjá almannatryggingum eru fleiri. Eldri borgarar,sem eru á vinnumarkaðnum, mega ekki hafa nema 100 þús kr tekjur á mánuði án þess að Tryggingastofnun skerði lífeyri þeirra hjá stofnuninni.Það er undarlegt, þar eð það kostar ríkið sáralítið að leyfa eldri borgurum að vinna; atvinnutekjur þeirra eru að sjálfsögðu skattlagðar og það er mikill fengur að því fyrir þjóðfélagið að njóta starfskrafta eldri borgara; þeir búa yfir mikilli starfsreynslu og kunnáttu.Ríkið skerðir einnig lífeyri eldri borgara vegna fjármagnstekna.Samt hvetja opinberir aðilar eldri borgara til þess að minnka við sig húsnæði á efri árum.En þegar eldri borgari ákveður að selja stóra íbúð, eða stórt hús og kaupa minna húsnæði í staðinn, leggur hann oft einhverja fjármuni í banka, en þá er ríkiskrumlan strax komin og hrifsar til sín fjármagnstekjuskatt og skerðir lífeyri almannatrygginga vegna fjármagnstekna.Þessum reglum þyrfti að breyta.Leyfa ætti eldri borgurum að eiga ríflega upphæð í banka án þess að hún væri skattlögð og án þess að hún ylli skerðingu lífeyris hjá almannatryggingum.Frítekjumark vegna fjármagnstekna er einnigt alltof lágt.Það er 25000 kr á mánuði og er raunar almennt frítekjumark sem gildir fyrir allar tekjur.Helmingur fjármagnstekna hjóna eða sambúðarfólks hefur áhrif á úttreikning lífeyris hjá hvoru fyrir sig.
Hinar miklu tekjutengingar hjá eldri borgurum á Íslandi eiga stóran þátt í því að Tryggingastofnun greiðir eldri borgurum (og öryrkjum) oft of mikinn lífeyri og síðan sendir hún eldri borgurum og öryrkjum stóra bakreikninga.Það kemur öldruðum og öryrkjum mjög illa. Slíkir bakreikningar þekkjast ekki á hinum Norðurlöndunun,þar eð hliðstæðar tekjutengingar og hér eru þekkjast ekki á hinum Norðurlöndunum. Það þarf að afnema allar þessar tekjutengingar. Um leið mundu bakreikningar leggjast af. Það yrði gleðidagur fyrir aldraða og öryrkja.
Mbl. 23.mars 2019
Björgvin Guðmundsson
.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst svarið við spurningunni um tekjutengingar ekki vera svona einfalt. Er rétt að fyrrum forstjóri með tugi milljóna á bankareikningi og háar lífeyrisgreiðslur fái tekjutryggingu frá ríkinu í ofanálag? Ef það skerðir ekki tekjur verkamanns sem aðeins hefur tekjutrygginguna er það eflaust allt í lagi. En vandinn er að það eru ekki til ótakmarkaðir peningar. Því fleiri sem þeir verða sem fá tekjutryggingu án þess að þurfa á henni að halda, þeim mun minna verður til skiptanna handa þeim sem þurfa á þessu fé að halda. Þetta er ástæðan fyrir tekjutengingum. Ástæðan er ekki illmennska eða skeytingarleysi um hag fólks.
Ég held að afnám allra tekjutenginga sé því ekki lausnin á þessu vandamáli. Mér finnst miklu nærtækara að tekjutengingin sé þrepaskipt. Hún sé engin upp að ákveðnum tekjumörkum, en aukist svo með auknum tekjum. Þeir sem enga þörf hafa fyrir tekjutrygginguna fái hana þá ekki, en þeir sem hafa lágar tekjur njóti þeirra aukatekna sem þeir afla að fullu.
Þorsteinn Siglaugsson, 23.3.2019 kl. 11:44
Sæll Þorsteinn! Ég legg aðaláherslu á,að skerðing (tekjutenging) vegna lífeyris úr lífeyrissjóðum verði afnumin,þ.e. slík skerðing verði afnumin,þar eð við eigum lífeyrinn í lífeyrirssjóðunum og meiningin var í upphafui,að lífeyrissjóðirnir yrðu hrein viðbót við almannatryggingar.
Með kveðju. Björgvin Guðmundsson
Björgvin Guðmundsson, 23.3.2019 kl. 12:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.