Treysta má tölum Þorvaldar Gylfasonar

Talsmaður bankanna  kom fram í fjölmiðlum í gær og dró í efa tölur Þorvaldar Gylfasonar,prófessors, um stóraukinn vaxtamun bankanna frá því sem var er bankarnir voru í ríkiseign.Sagði hann,að ef tölur Þorvaldar væru réttar mundu erlendir bankar hafa streymt hingað til lands til  þess að notfæra sér mikinn vaxtamun. Það má treysta tölum Þorvaldar Gylfasonar. Hann er vandaður og virtur fræðimaður,sem hefur kynnt sér þessi mál í mörgum löndum en byggir einnig á tölum Alþjóðabankans.Samkvæmt   upplýsingum Þorvaldar hefur vaxtamunur bankanna hér aukist úr 5% í 13,5%  á þeim tíma þegar vaxtamunur hefði átt að  minnka vegna einkavæðingar bankanna. Alls staðar annars staðar þar sem bankar hafa verið einkavæddir hefur vaxtamunur minnkað mikið. En hér hafa eigendur bankanna hugsað um  það eitt að  raka til sín gróða á kostnað  neytenda.

Talsmaður bankanna er ekki hlutlaus fræðimaður. Hann  gengur erinda bankanna enda starfsmaður þeirra.Hann reynir að réttlæta vaxtaorkrið en það tekst ekki. Almenningur finnur á buddu sinni hve  dýrt er að taka bankalán hér og þessi kostnaður eykst stöðugt. Bankarnir kenna  Seðlabankanum um háa vexti en það er blekkingaleikur. Seðlabankinn  ákveður aðeins stýrivexti    og viðskiptabankarnir eru ekki skuldbundnir að hlíta þeim. Þeir ráða sínum vöxtum sjálfir. Bankanir hafa kosið   að  okra á Íslendingum með himinháum vöxtum en  í öðrum löndum þar sem þeir reka banka bjóða þeir lága vexti.

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Bendi hér á ágæta umfjöllun af bloggsíðu Jónínu Benediktsdóttur um þetta. Höfundurinn er Dharma :

 

"Nema hvað að Þorvaldur gerist sekur um grundvallar vanþekkingu á vaxtamun og hvernig slík stærð er reiknuð út.

Vaxtamunur á Íslandi er um 1.9% skv. reikniaðferðum Seðlbankans, lægra en víða í nágrannalöndunum.  Ekki 13% eins og þessi ágæti, en þó treggáfaði, hagfræðiprófessor lætur í veðri vaka.  

Það sem Þorvaldur gerir er að taka annars vegar vexti á óverðtryggðum útlánum til skamms tíma og hins vegar innlánsvexti á bankabókum (sem eru ekki ósvipaðir innlánsvöxtum sem þú færð á innistæðu á debetkortareikningi).

Það sem Þorvaldur gerir er að taka dýrustu útlánin (hæsti vaxtakostnaðurinn) og dregur frá rýrustu innlánin (hver geymir sparifé sitt inn á tékkareikningi?) og fær út þennan mun.  Ef hann beitti þessari "aðferð" á önnur hagkerfi, þá væri niðurstaðan viðlíka sláandi hvar sem er.  Nema hvað að þetta er rangt.  Alveg sama þó maðurinn sé prófessor og hagfræðingur.  Þá er þetta rangt.

Í fyrsta lagi eru skuldir heimilanna að langstærstum hluta verðtryggð útlán í formi húsnæðislána.  Rétt eins og alls staðar í heiminum er megnið af skuldum okkar í húsnæði.  Í öðru lagi eru engir með sparnað sinn inni á tékkareikningi sem borgar 2.5% vexti.  Öðru nær.  Ef við segjum að fólk sé með annars vegar verðtryggð útlán og hins vegar verðtryggð innlán (þá nettast verðbólgan út), þá er fólk með 5% vexti á húsnæðislánin sín og um 3% vexti á innlánin sín.  Meira eða minna.  Þannig að vaxtamunurinn er 2% en ekki 13%.  

Fyrir áhugasama má sjá umfjöllun um nákvæmlega þetta hér:

http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=5095

Jæja, Jónína... hvernig væri nú að hætta að trúa í blindni því sem annarlegir rassmussar finna sig knúna til að ryðjast fram í fjölmiðla með, og beita aðeins gagnrýnni hugsun sem þú kveðst búa yfir?

Góðar stundir 

Dharma, 30.10.2007 kl. 10:06"

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 30.10.2007 kl. 10:40

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gott og nauðsynlegt að opna þetta mál. Engin álitaefni tölfræðilegs toga eru svo augljós að fagmönnum takist ekki að gera allar niðurstöður ótrúverðugar.

Í umræddu spjalli Þorvalds Gylfasonar kom auðvitað fram það sem allir geta fundið í eigin ranni og einu gildir hvaða álit og útreikningar eru framsett til að hnika því.

Stærstur hluti þessarar þjóðar er fórnarlömb fésýslustofnana og forsjárlaus af hálfu löggjafans í því efni öllu.

En maður sem liggur dauður af hungri og vosbúð fær auðveldlega úrskurð sérfróðra manna þess efnis að þrátt fyrir allt hafi hann búið við þægileg kjör hvað varðar húsaskjól, fatnað og næringu.

Líklegasta dánarorsökin yrði talin sú að einhver hefði komið honum í skilning um að hann ætti svona bágt.

Og þarna yrði vitnað í lærðar skýrslur til samanburðar.

Það eru nefnilega landráð á Íslandi að efast um yfirburði einkavæðingar. 

Árni Gunnarsson, 30.10.2007 kl. 11:07

3 Smámynd: Björgvin Guðmundsson

 Þorvaldur Gylfason byggir á aðferðum Alþjóðabankans er þær eru viðurkenndar um allan heim. Hann segir svo:

Útlánsvöxtum er  lýst með ársvöxtum af almennum óverðtryggðum skuldabréfum og innlánsvöxtum með ársvöxtum af almennum sparisjóðsbókum, sem einnig eru óverðtryggðar . Hér þarf ekki að greina nafnvexti frá raunvöxtum, því að verðbólguleiðrétting næði jafnt til innlánsvaxta og útlánsvaxta. Vaxtamunurinn var lítill árin 1960-71, eða 2,5% á ári að jafnaði. Það er undarlegt eftir á að hyggja, að rammpólitískt ríkisbankakerfi viðreisnaráranna skyldi ekki vera óhagkvæmara en svo. Þegar verðbólgan tók á rás eftir 1970 og raunvextir hríðlækkuðu, gróf hvort tveggja undan bönkunum með því að skerða innlán og veikja útlán, þar eð skuldunautar þurftu ekki lengur að standa í skilum nema að hluta. Vaxtamunurinn fór vaxandi nær allt tímabilið og mælist rösk 9% að meðaltali árin 1972-90. Mikill og vaxandi vaxtamunur þessi verðbólguár vitnar um mikla og vaxandi óhagkvæmni í bankarekstri í samræmi við reynslu annarra landa í svipuðum sporum. Þessi bankavandi var snar þáttur í fortíðarvandanum, sem frívæðingu efnahagslífsins eftir 1991 var ætlað að leysa, meðal annars með aðildinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkavæðingu ríkisfyrirtækja og skárri hagstjórn, þ.e. minni verðbólgu. Mikill vaxtamunur var einn helzti hvatinn að einkavæðingu viðskiptabankanna, sem hófst 2003. Einkavæðingunni var ætlað að minnka vaxtamuninn, en það varð ekki. Vaxtamunurinn var rösk 13% að jafnaði 1991-2006, og hann jókst, eftir að bankarnir komust í einkaeign. Fjöldamargir viðskiptavinir bankanna, bæði heimili og smáfyrirtæki, búa við mikinn vaxtamun langt umfram þann mun, sem tíðkast í nálægum löndum. Af því og ýmsu öðru má ráða, að einkavæðing bankanna tókst ekki sem skyldi. Þess var ekki gætt að koma bönkunum í hendur hagsýnustu eigenda, sem völ var á, heldur voru bankarnir seldir á undirverði mönnum, sem ríkisstjórnarflokkarnir höfðu sérstaka velþóknun á og notuðu tækifærið til að raka saman fé handa sjálfum sér. Ekki var heldur um það hirt að laða erlenda banka hingað heim til að veita innlendu bönkunum aðhald og samkeppni. Þessu réði gamalgróin helmingaskiptaregla  fyrrum ríkisstjórnarflokka. Afleiðingin er sú, að bankarnir halda áfram að okra á mörgum viðskiptavinum sínum, enda þótt bankarnir hafi einnig veitt ódýru erlendu lánsfé hingað heim í stórum stíl, sem er langþráð framför.  Eftir stendur, að mikill vaxtamunur afhjúpar djúpa bresti í bankamálum landsmanna.

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson, 30.10.2007 kl. 13:21

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Það virðist á þessari umræðu að menn hafa ekki kynnt sér upplýsingar um  vexti, þar má mljóslega sjá vaxtamuninn sem rifist er um, sem er að finna á slóðinni :

http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1824

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 31.10.2007 kl. 03:25

5 Smámynd: Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Það má ekki treysta upplýsingum Þorvaldar betur en svo, að hann reyndist vera með rangar tölur. Það hefði hann átt að sjá sjálfur. Maðurinn, sem veitti honum upplýsingar í Seðlabankanum, ruglaðist á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Auðvitað var fráleitt, að vaxtamunur væri 13,5%. Það er líka fráleitt, að hann sé 10% (en það eru nýju tölurnar Þorvaldar, eftir leiðréttingu Seðlabankans). Opinber vaxtamunur, reiknaður skv. venjulegum reglum, er 1,9% (sbr. bls. 45 í skýrslu Seðlabankans um Fjármálastöðugleika) og hefur minnkað síðustu ár. HHG

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 5.11.2007 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband