Ályktun ASÍ og samtaka aldraðra og öryrkja: Ríkisstjórnin standi við fyrri yfirlýsingar og hækki lífeyri um 18000 kr.

Alþýðusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband eldri borgara mótmæla harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka elli- og örorkulífeyri um einungis kr. 4.000-5.000 í kjölfar nýgerðra kjarasamninga.

Megin markmið verkalýðshreyfingarinnar í nýgerðum kjarasamningum var að bæta kjör þeirra verst settu í þjóðfélaginu og í samræmi við það náðu aðildarsamtök ASÍ og SA samkomulagi um hækkun lægstu launa um 18.000 kr. á mánuði. Við frágang kjarasamninga var talað um sögulegt samkomulag og almenn sátt og ánægja ríkti í samfélaginu um þá leið sem farin var, enda lýsti ríkisstjórnin sérstaklega yfir ánægju sinni með þessar áherslur.

Það þarf enginn að fara í grafgötur með að fjöldi fólks í hópi öryrkja og aldraðra eru meðal þeirra sem lægstar hafa tekjurnar í okkar þjóðfélagi. Það skýtur því algerlega skökku við að bætur lífeyrisþega eigi í kjölfar nýgerðra kjarasamninga aðeins að hækka um 4%, sem jafngildir kr. 4.000-5.000 hækkun á lægstu bótum.  Hvernig ríkisstjórnin getur komist að þeirri niðurstöðu að 18.000 króna hækkun lægstu launa á vinnumarkaði samsvari hækkun bóta almannatrygginga um 4.000-5.000 kr. á mánuði er óskiljanlegt. Sú upphæð er eins og við blasir aðeins lítill hluti þess sem samið var um í kjarasamningunum.

Það er því ljóst að ríkisstjórnin er með þessari ákvörðun sinni að ganga þvert gegn grundvallaráherslu og markmiðum kjarasamninganna – markmiðum sem hún áður hafði tekið undir og samþykkt.  Með ákvörðun sinni er ríkistjórnin að svipta lífeyrisþega mikilvægum og nauðsynlegum kjarabótum. 

Alþýðusambandið, Öryrkjabandalagið og Landssamband eldri borgara krefjast þess að ríkisstjórnin standi við fyrri yfirlýsingar sínar og hækki bætur almannatrygginga til jafns við kjarasamninga –það þýðir hækkun um kr. 18.000 á mánuði fyrir þá sem eru á lægstu bótum!

Björgvin Guðmundsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Sammála þér . Jóhanna hefði átt að gala aðeins minna um að hennar tími kæmi. Ég hélt að hún væri í núverandi ríkisstjórn, en hennar tími virðist samt ekki kominn. Fannst aumleg svör hennar í sjónvarpsfre´ttum fyrir skömmu þegar hún var að reyna verja þessar " hundsbætur " Það hefði verið búið að bæta við þúsund kalli hér og tvö þúsund kalli þar og þess vegna kæmi þetta svona út,og endaði svo með martugginni klisju rökþrota stjórmálamanns að þetta væri allt misskilningur í fólki.

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 30.3.2008 kl. 15:14

2 identicon

Má til að vísa í ISG frá því í gær þó svo alltaf megi gera betur:

Ég rifja líka upp ákvarðanir ríkisstjórnarinnar frá því í desember varðandi málefni aldraðra og öryrkja sem fólu í sér miklar réttarbætur sem nú hafa verið lagðar fyrir alþingi til afgreiðslu.

Nægir meðal annarra réttar- og kjarabóta að nefna að nú mun tenging bóta almannatrygginga við tekjur maka verða afnumin en fyrir því hafa öryrkjar barist um langt árabil, dregið verður úr skerðingu bóta vegna launatekna og fjármagnstekna, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verður hækkað í 300 þúsund krónur og aldurstengd örorkuuppbót mun hækka til hagsbóta fyrir 12.000 örorkulífeyrisþega.

Þá er nú unnið að því að skilgreina lágmarksframfærsluviðmið í almannatryggingakerfinu og er í þeirri vinnu – sem á að vera lokið fyrir 1. júlí næstkomandi – mepal annars tekið mið af þeim hækkunum lægstu launa sem samið var um í nýgerðum kjarasamningum.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband