Fimmtudagur, 15. maí 2008
Lífeyrir aldraðra lækkað á einu ári úr 100 % af lágmarkslaunum í 93,74%!
Jóhanna Sigurðardóttir,félags-og tryggingamálaráðherra,flutti erindi um málefni aldraðra á sambandsstjórnarfundi Landssambands eldri borgara (LEB) í fyrradag. Þar sagði Jóhanna m.a.:
Ég hef farið með lífeyrishluta almannatrygginga frá áramótum. Okkur hefur tekist að framkvæma fyrstu stóru áfangana sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þegar þær aðgerðir verða allar komnar til framkvæmda á þessu ári munu greiðslur almannatrygginga til lífeyrisþega hækka um 9 milljarða króna á ársgrundvelli eða um rúm 17% ef miðað er við síðasta ár.
Það er vonandi,að þessi orð Jóhönnu rætist.En enn sem komið er hafa greiðslur til lífeyrisþega ekki aukist á því ári sem ríkisstjórnin hefur verið við völd. Á þessu ári hefur lífeyrir sem hlutfall af lágmarkslaunum lækkað úr 100% ( 2007) í 93,74% af lágmarkslaunum 2008. Þetta er ekki góður árangur. Þetta er afturför. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir aðeins að bæta eigi stöðu aldraðra og öryrkja. En í stefnu´ Samfylkingarinnar fyrir kosningar sagði,að hækka ætti lífeyri aldraðra þannig að hann dygði fyrir framfærslukostnaði lífeyrisþega samkvæmt neyslukönnun Hagstofu Íslands.Það er ekkert farið að gera í því efni,ekki hætis hót. Það þýðir ekkert að vera að reikna alltaf saman hvað eldri borgarar og öryrkjar græði mikið á því að fara út á vinnumarkaðinn.Það hafa ekki allir eldri borgarar heilsu til þess að fara út að vinna og það eiga ekki einu sinni allir eldri borgarar maka.Þeir,sem ekki eru á vinnumarkaði græða ekkert á minni bótaskerðingum vegna atvinnutekna og þeir,sem eiga ekki maka græða ekkert á afnámi skerðinga vegna tekna maka. Við viljum ráðstafanir,,sem gagnast öllum eldri borgurum en ekki ákveðnum hópum. Og við viljum fá strax þessar 9100 kr. sem hafðar voru af eldri borgurum í kjölfar kjarasamninga. Við viljum ekki fá þá leiðréttingu einhvern tímann seinna. Við viljum fá hana strax.
Björgvin Guðmundsson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.