Mánudagur, 2. júní 2008
Ísland kemur á fót varnarmálastofnun
Varnarmálastofnun Íslands tók til starfa í dag, en stofnunin sinnir varnartengdum verkefnum. Hún heyrir undir utanríkisráðherra er ber ábyrgð á öryggis og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi.
Með því að reka íslenska loftvarnarkerfið og sjá um önnur þau eftirlits- og varnartengdu verkefni sem nýstofnsett Varnarmálastofnun á að sinna erum við Íslendingar í senn að axla ábyrgð á eigin vörnum og um leið að leggja til sameiginlegs öryggis grannríkja okkar á Norður-Atlantshafi og bandalagsríkja í NATO. Þannig rækjum við skyldur okkar sem sjálfstætt, fullvalda ríki, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, við opnun Varnarmálastofnunarinnar.
Af verkefnum hinnar nýju stofnunar ber hæst rekstur íslenska loftvarnakerfisins en íslensk stjórnvöld tóku við yfirstjórn þessa og rekstri Ratsjárstofnunar úr hendi Bandaríkjanna 15. ágúst 2007. Varnarmálastofnun mun reka öryggissvæði við Keflavíkurflugvöll, Miðnesheiði, Helguvík, Bolafjall, Gunnólfsvíkurfjall og Stokksnes, og annast rekstur mannvirkja NATO hérlendis. Gert er ráð fyrir að stofnunin vinni úr upplýsingum frá NATO og veita gistiríkisstuðning vegna loftrýmisgæslu sem hófst hérlendis á vormánuðum.
Ellisif Tinna Víðisdóttir er forstjóri Varnarmálastofnunar en gert er ráð fyrir að upp undir fimmtíu manns munu starfa þar. Stofnunin er til húsa á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, vefsetur hennar er www.varnarmalastofnun.is.
Áætlaður heildarrekstrarkostnaður til varnarmála árið 2008 er 1.350 milljónir króna.
Það er talsverð frétt,að komið hafi verið á fót sérstakri varnarmálastofnun.Ég átta mig ekki á því hvort þörf hafi verið á að koma þessari stofnun á fót og mér finnst það vel í lagt að ætla að hafa 50 starfsmenn hjá stofnuninni.Kostnaður finnst mér einnig alltof mikill.Auðvitað hefði starfsemi þessarar stofnunar getað verið hjá utanríkisráðuneytinu.Það hefði sjálfsagt verið ódýrara en að koma á fót sérstakri stofnun.Það er eðli nýrra stofnana að þenja sig út.Ég hefi einnig verulegar efasemdir um nauðsyn á æfingaflugi NATO ríkja hér við land eins og franskra herþota nú.Ég held að þetta sé aðallega gott fyrir þessar NATÖ þjóðir en hafi litla þýðingu fyrir okkur.
Björgvin Guðmundsson
Varnarmálastofnun Íslands tekin til starfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fyrir utan athugasemdir þínar hvað þessa stofnun varðar þá finnst mér skítalykt af ráðningu yfirmanns stofnunarinnar. Það var gengið freklega fram hjá manni sem hefur tuga ára reynslu í þessum málum. Bjarni Vestmann hefði verið vel að stöðunni kominn og ömurlegt þegar pólitíkusar láta stjórnsýslulög mæta afgangi í sínum störfum. Ég hét þess þegar sonur Davíðs Oddssonar var ráðinn sem dómari að ég myndi gagnrýna hvern þann sem ekki færi að stjórnsýslulögum varðandi mannaráðningar, og þá myndi ég ekki undanskilja flokkinn sem ég kaus. Ég hef orðið fyrir verulegum vonbrigðum með Samfylkinguna og hvernig valdið fer með hana. Skömm er að taka upp stjórnarhætti Sjálfstæðisflokksins í mannaráðningum.
Valsól (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 11:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.